Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Borðaðu grænmetið!

Borðaðu grænmetið!

Borðaðu grænmetið!

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Brasilíu

„Það er beiskt.“ „Það er vont á bragðið.“ „Ég hef aldrei borðað það.“

ÞETTA eru bara nokkrar ástæður þess að margir neita að borða grænmeti. Hvað með þig? Borðar þú grænmeti daglega? Vaknið! átti viðtöl við fólk til að kanna hvers vegna sumum finnst grænmeti gott en öðrum ekki.

Þeir sem borða grænmeti sögðu að foreldrarnir hefðu kennt sér að mikilvægt væri að borða grænmeti og ávexti. Margir höfðu hins vegar ekki verið vanir að borða grænmeti þegar þeir voru börn og fannst það ekki gott. Þeir vildu heldur sjoppumat. Þeir voru engu að síður sammála því að grænmeti væri mikilvægt til að viðhalda góðri heilsu.

Foreldrar, kennið börnunum að borða grænmeti! Hvernig? Ritið Facts for Life, sem gefið er út af Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, telur að gefa eigi börnum frá sex mánaða aldri grænmeti að minnsta kosti einu sinni á dag eftir brjósta- eða pelagjöf. Grænmetið þarf að vera soðið, afhýtt og stappað. Því fjölbreyttari sem fæðan er, því betra er það fyrir barnið. Dr. Vagner Lapate, brasilískur barnasérfræðingur, segir að mjólk sé aðalfæðutegundin tvö fyrstu árin. En með annars konar fæðu myndast löngun hjá barninu til að kynnast nýjum bragðtegundum.

Í bókinni Medicina — Mitos y Verdades (Lyf — bábiljur og sannleikur) segir Carla Leonel að hægt sé að gefa börnum smá appelsínusafa, ávaxtamauk (til dæmis banana-, epla-, og melónumauk), kornmeti og grænmetissúpu fyrr en talað er um hér að ofan. En þar sem skoðanir á þessu eru skiptar er skynsamlegt að ráðfæra sig við barnalækni.