„Leitið fyrst ríkis hans“
11. kafli
„Leitið fyrst ríkis hans“
1. (a) Af hverju hvatti Jesús áheyrendur sína til að leita fyrst ríkis Guðs? (b) Að hverju ættum við að spyrja okkur?
Í RÆÐU sem Jesús flutti í Galíleu fyrir liðlega 1900 árum hvatti hann áheyrendur til að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis. Af hverju var það svona áríðandi? Áttu ekki að líða margar aldir uns Kristur tæki við konungdómi? Jú, en Jehóva ætlaði að nota Messíasarríkið til að verja drottinvald sitt og hrinda vilja sínum með jörðina í framkvæmd. Þeir sem áttuðu sig á þýðingu þess gátu ekki annað en látið Guðsríki skipa stærstan sess í lífi sínu. Og fyrst það var mikilvægt á fyrstu öld er það ekki síður mikilvægt núna eftir að Kristur er tekinn við völdum sem konungur. Við ættum því að spyrja okkur hvort líf okkar beri vitni um að við leitum fyrst ríkis Guðs. — Matteus 6:33.
2. Hverju er fólk yfirleitt upptekið af?
2 Milljónir manna um heim allan leita fyrst ríkis Guðs. Þeir sýna að þeir styðja ríki hans með því að vígjast honum og einbeita sér að því að gera vilja hans. Stærstur hluti mannkyns er hins vegar upptekinn af veraldlegum hlutum. Menn sækjast eftir peningum og eftir eignum og afþreyingu sem hægt er að kaupa fyrir peninga. Sumir leggja mikið kapp á starfsframa. Líf þeirra ber því vitni að þeir eru uppteknir af sjálfum sér, efnislegum hlutum og af afþreyingu og skemmtunum. Guð er í öðru sæti hjá þeim ef þeir á annað borð trúa á hann. — Matteus 6:31, 32.
3. (a) Hvers konar fjársjóðum áttu lærisveinar Jesú að safna og hvers vegna? (b) Af hverju er ástæðulaust að gera sér áhyggjur af efnislegum hlutum?
3 Jesús sagði lærisveinum sínum hins vegar: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu“ því að slíkar eignir endast ekki að eilífu. „Safnið yður heldur fjársjóðum á himni,“ sagði hann, með því að þjóna Jehóva. Hann hvatti fylgjendur sína til að varðveita auga sitt „heilt“ með því að einbeita sér að því að gera vilja Guðs. „Þér getið ekki þjónað Guði og mammón,“ sagði hann. En hvað um efnislegar nauðsynjar, svo sem fæði, klæði og húsnæði? „Verið ekki áhyggjufullir,“ ráðlagði Jesús. Hann benti síðan á hvernig Guð nærir fuglana og hvatti fylgjendur sína til að draga lærdóm af blómunum sem Guð skrýðir fögrum búningi. Eru ekki viti bornir menn, sem þjóna honum, meira virði en fuglarnir og blómin? „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis,“ sagði Jesús, „þá mun allt þetta [lífsnauðsynjar] veitast yður að auki.“ (Matteus 6:19-34) Sýnir þú með verkum þínum að þú trúir þessu?
Láttu ekkert kæfa sannleikann um Guðsríki
4. Hvernig getur farið ef maður leggur of mikla áherslu á efnislega hluti?
4 Það er fullkomlega eðlilegt að láta sér annt um að sjá fyrir sér og sínum. En það getur haft alvarlegar afleiðingar að leggja of mikið kapp á efnislega hluti. Það er ekki nóg að segjast trúa á ríki Guðs. Ef maður lætur eitthvað annað fá of mikið rúm í hjarta sínu kæfir það sannleikann um Guðsríki. (Matteus 13:) Ungur höfðingi spurði Jesú einu sinni: „Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Þetta var siðsamur maður og hann kom vel fram við aðra. En hann var ríkur og honum þótti of vænt um eigur sínar. Hann gat ekki fengið af sér að segja skilið við þær til að fylgja Kristi. Hann lét því einstakt tækifæri ganga sér úr greipum. Ef hann hefði gripið það hefði hann hugsanlega getað fengið að vera með Kristi í ríkinu á himnum. Jesús sagði þá: „Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.“ — 18-22Markús 10:17-23.
5. (a) Hvað átti Tímóteus að láta sér næga og hvers vegna? (b) Hvernig notar Satan fégirndina sem gildru?
5 Áratugum síðar skrifaði Páll postuli bréf til Tímóteusar sem var þá starfandi í Efesus, blómlegri verslunarborg. Páll sagði í bréfinu: „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ Það er rétt af okkur að vinna fyrir „fæði og klæði“ handa sjálfum okkur og fjölskyldunni en Páll sagði hins vegar í viðvörunartón: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ Satan er lævís. Í fyrstu reynir hann að lokka okkur með einhverju smálegu. Síðan eykur hann þrýstinginn. Nú er það kannski tilboð um stöðuhækkun eða betri vinnu og hærri laun. En sá böggull fylgir skammrifi að þá þarf að fórna tíma sem ætlaður var til að sinna andlegu málunum. Ef við höldum ekki vöku okkar gæti „fégirndin“ kæft það sem meira máli skiptir — þjónustu okkar við ríki Guðs. Páll orðaði það þannig: „Við þá fíkn [fégirndina] hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:7-10.
6. (a) Hvað þurfum við að gera til að verða ekki efnishyggju að bráð? (b) Hverju megum við treysta þrátt fyrir efnahagsástandið í heiminum?
6 Páli þótti innilega vænt um Tímóteus og hvatti hann til að „forðast . . . þetta“ og berjast „trúarinnar góðu baráttu“. (1. Tímóteusarbréf 6:11, 12) Við þurfum að spyrna við fótum til að koma í veg fyrir að efnishyggja heimsins hrífi okkur með sér. En Jehóva yfirgefur okkur aldrei ef við leggjum okkur vel fram um að lifa í samræmi við trú okkar. Hann sér til þess að við höfum að minnsta kosti brýnustu nauðsynjar hvað sem líður dýrtíð og atvinnuleysi. Páll skrifaði: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘ Því getum vér öruggir sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?“ (Hebreabréfið 13:5, 6) Og Davíð konungur skrifaði: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.“ — Sálmur 37:25.
Lærisveinar fyrstu aldar eru dæmi til eftirbreytni
7. Hvaða fyrirmæli gaf Jesús postulunum varðandi boðun fagnaðarerindisins og af hverju voru þau viðeigandi?
7 Eftir að Jesús hafði gefið postulunum viðeigandi leiðbeiningar sendi hann þá út um Ísrael til að flytja fagnaðaerindið. Þeir áttu að boða: „Himnaríki er í nánd.“ Þetta var spennandi boðskapur! Jesús Kristur, konungur Messíasarríkisins, var á meðal þeirra. Þar sem postularnir gáfu sig alla að því að þjóna Guði hvatti Jesús þá til að treysta því að Guð sæi fyrir þeim. „Takið ekkert til ferðarinnar,“ sagði hann, „hvorki staf né mal, brauð né silfur, og enginn hafi tvo kyrtla. Og hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar og þaðan skuluð þér leggja upp að nýju.“ (Matteus 10:5-10; Lúkas 9:1-6) Jehóva myndi sjá til þess að þörfum þeirra yrði fullnægt. Samlandar þeirra myndu sýna þeim gestrisni eins og venja var að sýna ókunnugum.
8. (a) Af hverju gaf Jesús nýjar leiðbeiningar skömmu áður en hann dó? (b) Hvað áttu fylgjendur Jesú eftir sem áður að láta ganga fyrir?
8 Skömmu áður en Jesús dó benti hann postulunum á að síðar þyrftu þeir að starfa við breyttar aðstæður. Opinber andstaða gegn starfi þeirra gæti haft í för með sér að þeir nytu ekki almennrar gestrisni í Ísrael. Og bráðlega myndu þeir flytja fagnaðarerindið til heiðinna þjóða. Þá áttu þeir að taka með sér „pyngju“ og „mal“. En eftir sem áður áttu þeir að leita fyrst ríkis Jehóva og réttlætis og treysta að hann myndi blessa viðleitni þeirra til að sjá sér fyrir fæði og klæði. — Lúkas 22:35-37.
9. Hvernig leitaði Páll fyrst ríkis Guðs þótt hann ynni líka fyrir sér, og hvað ráðlagði hann öðrum?
9 Páll postuli er gott dæmi um mann sem fór eftir leiðbeiningum Jesú. Hann lagði alla áherslu á að sinna boðunarstarfinu. (Postulasagan 20:24, 25) Þegar hann fór um og boðaði trúna sá hann sjálfur fyrir þörfum sínum og vann meðal annars við tjaldgerð. Hann ætlaðist ekki til þess að aðrir sæju honum farborða. (Postulasagan 18:1-4; 1. Þessaloníkubréf 2:9) Engu að síður þáði hann þakklátur gjafir og gestrisni annarra sem sýndu honum kærleika sinn með þeim hætti. (Postulasagan 16:15, 34; Filippíbréfið 4:15-17) Hann hvatti trúsystkini sín til að vanrækja ekki fjölskylduna heldur sinna öllum skyldum sínum vel. Hann ráðlagði þeim að vinna fyrir sér, elska fjölskylduna og deila með öðrum því sem þau höfðu úr að spila. (Efesusbréfið 4:28; 2. Þessaloníkubréf 3:7-12) Þau áttu að treysta Guði en ekki efnislegum eigum og sýna með líferni sínu að þau skildu í raun og veru hvað skipti mestu máli í lífinu. Það þýddi að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis eins og Jesús hafði kennt. — Filippíbréfið 1:9-11.
Láttu Guðsríki ganga fyrir
10. Hvað merkir það að leita fyrst ríkis Guðs?
10 Í hvaða mæli tökum við þátt í að flytja öðrum fagnaðarerindið um ríkið? Það er að nokkru leyti undir aðstæðum okkar komið og eins því hve mikils við metum Guðsríki. Við skulum hafa hugfast að Jesús sagði ekki: ‚Leitið ríkis Guðs þegar þið hafið ekkert annað að gera.‘ Hann vissi hve mikilvægt Guðsríki var og lýsti vilja föður síns þegar hann sagði: „Leitið fyrst ríkis hans.“ (Matteus 6:33) Flest þurfum við að vinna til að sjá fyrir okkur og fjölskyldunni en ef við höfum trú leggjum við mikla áherslu á að boða ríkið eins og Jehóva hefur falið okkur að gera. Jafnhliða því rækjum við skyldur okkar við fjölskylduna. — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
11. (a) Hvernig sýndi Jesús fram á að það gætu ekki allir gert jafn mikið til að útbreiða fagnaðarerindið? (b) Hvað ræður því hve mikið við getum gert?
11 Það er misjafnt hve mikinn tíma fólk getur notað til að boða fagnaðarerindið um ríkið. En í dæmisögu Jesú um sæðið sem féll í mismunandi jarðveg kom fram að allir sem eru með gott hjartalag bera ávöxt. Hve mikinn? Það er breytilegt eftir aðstæðum fólks. Aldur, heilsa og fjölskylduaðstæður hafa sitt að segja. En allir sem kunna að meta fagnaðarerindið geta áorkað miklu. — Matteus 13:23.
12. Hvaða markmið er ungt fólk hvatt til að hugleiða?
12 Það er gott að setja sér markmið sem hjálpa manni að bæta við sig í boðunarstarfinu. Ungt fólk ætti að hugsa alvarlega um hið frábæra fordæmi Tímóteusar sem var einstaklega duglegur og kostgæfinn. (Filippíbréfið 2:19-22) Varla er hægt að hugsa sér neitt betra en að gerast boðberi í fullu starfi eftir að skólagöngu lýkur. Þeir sem eldri eru geta líka sett sér góð markmið í þjónustunni við Jehóva.
13. (a) Hver ákveður hve mikið við getum gert í þjónustu Guðsríkis? (b) Hvað sönnum við með því að leita fyrst ríkis Guðs?
13 Okkur finnst kannski að einhverjir aðrir gætu gert meira en þeir gera. En í stað þess að gagnrýna þá ættum við að láta trúna vera okkur hvöt til að bæta sjálf okkur þannig að við þjónum Guði eins vel og við getum miðað við okkar eigin aðstæður. (Rómverjabréfið 14:10-12; Galatabréfið 6:4, 5) Eins og fram kom á dögum Jobs fullyrðir Satan að við höfum aðallega áhuga á efnislegum eigum, þægindum og vellíðan. Hann heldur því fram að við þjónum Guði af eigingjörnu tilefni. Með því að leita fyrst ríkis Guðs eigum við þátt í að sýna fram á að Satan sé erkilygari. Við sýnum að við látum þjónustuna við Guð ganga fyrir. Þannig sönnum við með orðum okkar og verkum að við elskum Jehóva innilega, styðjum drottinvald hans af alefli og elskum náungann. — Jobsbók 1:9-11; 2:4, 5; Orðskviðirnir 27:11.
14. (a) Hvers vegna er gott að hafa ákveðna stundaskrá fyrir boðunarstarfið? (b) Í hvaða mæli boða margir vottar fagnaðarerindið?
14 Stundaskrá getur hjálpað okkur að áorka meiru en við myndum annars gera. Jehóva hefur sett sér ‚ákveðinn tíma‘ til þess að hrinda vilja sínum í framkvæmd. (2. Mósebók 9:5; Habakkuk 2:3) Ef við höfum tök á er gott að fara í boðunarstarfið á ákveðnum tíma einu sinni í viku eða oftar. Hundruð þúsunda votta Jehóva um heim allan eru aðstoðarbrautryðjendur og nota þá um tvær klukkustundir á dag til að boða fagnaðarerindið. Hundruð þúsunda eru brautryðjendur til lengri tíma og nota þá um tvær og hálfa klukkustund á dag til að boða ríki Guðs. Sérbrautryðjendur og trúboðar nota enn meiri tíma til boðunarstarfsins. Við getum líka leitað færis í dagsins önn að segja hverjum sem vill hlusta frá voninni um Guðsríki. (Jóhannes 4:7-15) Okkur ætti að langa til að taka eins mikinn þátt í boðunarstarfinu og aðstæður leyfa því að Jesús sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14; Efesusbréfið 5:15-17.
15. Af hverju á 1. Korintubréf 15:58 vel við um boðun fagnaðarerindisins?
15 Vottar Jehóva út um allan heim vinna saman að því að boða fagnaðarerindið hvar sem þeir eru búsettir. Þeir leggja sig fram um að gera eins og hvatt er til í innblásinni ritningargrein: „Verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ — 1. Korintubréf 15:58.
Til upprifjunar
• Jesús hvatti fylgjendur sína til að ‚leita fyrst ríkis Guðs‘. Hvað á að vera í öðru sæti samkvæmt því?
• Hvernig eigum við að líta á það að sjá okkur og fjölskyldu okkar farborða? Hvernig hjálpar Jehóva okkur til þess?
• Hvað getum við gert í þjónustunni við ríki Guðs?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 107]
Vottar Jehóva boða fagnaðarerindið meðal allra þjóða áður en endirinn kemur.