Siglingaleiðin um Norður-Íshaf

Siglingaleiðin um Norður-Íshaf

Siglingaleiðin um Norður-Íshaf

SÆFARA fortíðar dreymdi um að finna leið til að sigla milli Atlantshafs og Kyrrahafs um Norður-Íshaf og stytta þannig siglingaleiðina til Austurlanda. En þeir áttu við ramman reip að draga: siglingaleiðin um Norður-Íshaf var þakin ís.

Engu að síður lögðu menn mikið á sig til að ná þessu markmiði. Á 16. öld réðu Portúgalar og Spánverjar yfir verslunarleiðunum til Austurlanda fjær en þær lágu fyrir syðsta odda Afríku og Suður-Ameríku. Kaupmenn annarra þjóða þurftu að finna siglingaleið á norðurslóðum ef þeir vildu eiga viðskipti við Austurlönd. Margir reyndu, þeirra á meðal eftirfarandi:

Englendingar: Árið 1553 fóru sir Hugh Willoughby og Richard Chancellor fyrir fyrsta könnunarleiðangri Englendinga. Eftir að skip þeirra urðu viðskila í fárviðri neyddist Willoughby til að hafa vetursetu við hrjóstruga strönd Kólaskaga nyrst í Rússlandi. Hann og menn hans voru illa búnir undir nístandi vetrarkuldann og lifðu ekki af. Chancellor komst hins vegar til hafnar í Arkhangelsk. Þaðan ferðaðist hann niður til Moskvu að boði Ívans 4. grimma, Rússakeisara. Chancellor fann ekki siglingaleið til Asíu en tókst hins vegar að opna fyrir viðskipti milli Rússa og Englendinga.

Hollendingar: Árið 1594 sigldi Willem Barents í fyrsta sinn til Novaja Zemlja. En árið 1596, þegar hann fór í þriðju ferð sína og var á leið fyrir norðurenda eyjaklasans, festist skip hans í ís og laskaðist svo mikið að því varð ekki bjargað. Barents og menn hans reistu sér skýli úr rekaviði. Þeir nærðust á ísbjarnarkjöti og þraukuðu þannig harðan veturinn. Þeir héldu síðan af stað til byggða á tveim litlum bátum en Barents dó á leiðinni.

Rússar: Rússneskir landkönnuðir lögðu í ítarlega könnunarferð um Síberíu og Austur-Rússland. Á einungis 60 árum, frá 1581 til 1641, könnuðu þeir landið allt frá Úralfjöllum að Kyrrahafi. Um svipað leyti sigldu kósakkar eftir fljótum Síberíu til Norður-Íshafs. Þeir lögðu Síberíu undir Rússland og voru frumkvöðlar í siglingum með fram norðausturströnd Síberíu. Árið 1648 sigldu rússnesk skip um sund sem seinna var nefnt Beringssund eftir danska siglingafræðingnum Vitus Bering.

Fleiri leiðangrar

Á árunum 1733 til 1743 voru gerðir út sjö hópar undir forystu Berings til að kortleggja strendur Rússlands að Norður-Íshafi og Kyrrahafi. Alls voru þetta nærri þúsund manns. Skip þeirra festust oft í ís og margir fórust. En leiðangursmenn náðu samt að kortleggja næstum alla ströndina sem liggur að Norður-Íshafi. Þær upplýsingar sem fengust — þar með talið kortin, dýptarmælingar og upplýsingar um ástand íssins — reyndust ómetanlegar fyrir þá sem áttu eftir að sigla um Norður-Íshafið.

Allir þessir leiðangrar voru farnir á tréskipum. En í ferð Berings kom berlega í ljós að þau dugðu illa til að fara Norður-Íshafsleiðina. * Árið 1778 komst breski landkönnuðurinn James Cook að sömu niðurstöðu þegar hann fór norður um Beringssund og ætlaði að sigla til vesturs en komst ekki lengra vegna hafíss. Hinum finnska Nils Adolf Erik Nordenskiöld tókst að sigla þessa leið á gufuskipi heilli öld síðar.

Þekking og reynsla Rússa

Eftir uppreisnina í Rússlandi árið 1917 voru siglingar með fram norðurströnd Rússlands bannaðar öllum skipum nema rússneskum. Upp úr 1930 þróuðu Sovétríkin norðausturleiðina og gerðu hafnir fyrir nýja iðnaðarbæi. Þannig öðluðust Rússar þekkingu og reynslu í sjóflutningum um Norður-Íshaf.

Norðausturleiðin var lokuð erlendum skipum í kalda stríðinu. En með breyttu stjórnarfari og tilkomu markaðshagkerfis hvetja stjórnvöld í Rússlandi nú til alþjóðlegra siglinga á þessari leið. Eftirfarandi dæmi lýsir vel sparnaðinum af því að sigla norðausturleiðina.

Sumarið 2009 sigldu tvö þýsk flutningaskip um Beringssund og vestur með nærri íslausri norðurströnd Asíu og Evrópu suður til Hollands. Það var í fyrsta skipti sem skipafélag utan Rússlands sigldi alla norðausturleiðina. Með því að fara þessa leið styttist ferðin um 3.000 sjómílur og tíu daga. Skipafélagið, sem lagði í þessa ferð, telur sig hafa sparað 300.000 evrur (um 45.000.000 ISK) á hvort skip með því að sigla um Norður-Íshaf.

Hafísinn á Norður-Íshafi bráðnar nú hratt. Þar af leiðandi opnast mikil hafsvæði á hverju sumri. * Margir hafa áhyggjur af þessari þróun. En haldi fram sem horfir gætu skip sneitt hjá grynningunum með fram strönd Rússlands og siglt beina leið milli Atlantshafs og Kyrrahafs — þvert yfir Norður-Íshaf.

[Neðanmáls]

^ Norður-Íshafsleiðin er annað heiti á norðausturleiðinni.

^ Af þessum orsökum og fleiri er siglingaleiðin opin nærri þrefalt lengur en áður var á austanverðu Norður-Íshafi og rúmlega tvöfalt lengur á hafinu vestanverðu.

[Kort á bls. 23]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

KÖNNUNARFERÐIR

Sir Hugh Willoughby og Richard Chancellor

Willem Barents

Vitus Bering

Nils Adolf Erik Nordenskiöld

Ísrönd

[Kort]

NORÐUR-ÍSHAF

Norðurheimskaut

Varanleg hafísþekja

Hafísrönd að sumri

Hafísrönd að vetri

NORÐURHEIMSKAUTSBAUGUR

SVÍÞJÓÐ

GRÆNLAND

KANADA

ALASKA

Beringssund

RÚSSLAND

SÍBERÍA

ÚRALFJÖLL

Novaja Zemlja

Kólaskagi

Arkhangelsk

MOSKVA

[Mynd á bls. 24]

Hafísinn á Norður-Íshafi bráðnar hratt.

[Mynd á bls. 22]

Library and Archives Canada/Samuel Gurney Cresswell collection/C-016105