Hoppa beint í efnið

Verndun umhverfis og dýralífs í Chelmsford

Verndun umhverfis og dýralífs í Chelmsford

Vottar Jehóva í Bretlandi hafa hafið framkvæmdir við nýja deildarskrifstofu nálægt Chelmsford sem er í Essex-sýslu. Þetta fallega svæði er heimili nokkurra dýra og plantna sem hafa verið friðlýst í Bretlandi frá árinu 1981. Hvað gera vottar Jehóva meðan á framkvæmdunum stendur til að fylgja lögunum eftir og vernda þessar dýra- og plöntutegundir?

Brú byggð fyrir svefnmýs.

Vottarnir endurnýttu timbur af svæðinu og smíðuðu litla hreiðurkassa til að lokka ljósbrúnar svefnmýs frá vinnusvæðinu. Einnig var reist sérhönnuð brú fyrir mýsnar. Hún hangir yfir veginum sem liggur að byggingarsvæðinu til að tryggja að tré og runnar svefnmúsanna haldist tengd. Auk þess er gróðrinum haldið við á sértakan hátt fyrir svefnmýsnar. Á hverjum vetri er mismunandi hluti gróðursins snyrtur til. Með þessari aðferð er truflun á svæði músanna haldið í lágmarki, búsvæði þeirra verndað og tryggt að þær hafi alltaf nóg af fæði á svæðinu.

Hreiðurkassi fyrir svefnmýs settur upp.

Vottarnir hafa líka gert ráðstafanir til að vernda grassnáka, algengar eðlur og útlimalausar eðlur sem kallast stálormar. Þakskífum hafði verið komið fyrir til að veita skriðdýrunum tímabundið skjól. Vistfræðingar söfnuðu dýrunum síðan saman og fluttu þau á öruggan stað utan byggingarsvæðisins. Nýja búsvæði skriðdýranna er innan sérstakrar girðingar og hefur að geyma hólf sem þau geta verið í þegar þau leggjast í vetrardvala. Girðingin er athuguð reglulega til að ganga úr skugga um að dýrin sleppi ekki í gegn og verði fyrir skaða á vinnusvæðinu.

Svefnmús.

Til að forðast að ónáða leðurblökurnar á svæðinu hafa verið sett upp sérstök LED-ljós til að draga úr ljósmengun. Þau kvikna þegar þau skynja hreyfingu ökutækis og þannig helst eins mikið myrkur og hægt er fyrir leðurblökurnar. Leðurblökurnar leita ætis á næturnar í trjágróðrinum á svæðinu. Mestur hluti gróðursins fær að halda sér og tveir og hálfur kílómetri verður gróðursettur til viðbótar. Óhjákvæmilegt var þó að fella eitthvað af trjánum á svæðinu og því settu starfsmenn upp leðurblökuhús til að bæta upp fyrir felld tré sem voru mögulegur hvíldarstaður leðurblakanna.

Leðurblökuhús sett upp.

Til að vernda dýrmæt gömul tré er umferðinni stýrt frá rótarsvæðum þeirra. Þessi tré eru búsvæði margra tegunda hryggleysingja, leðurblaka og fugla. Á alla þessa vegu eru vottarnir staðráðnir í að vernda umhverfið og dýralífið í Chelmsford.