Hoppa beint í efnið

Slökkviliðsmaður á frívakt bjargar mannslífum

Slökkviliðsmaður á frívakt bjargar mannslífum

Sunnudaginn 5. janúar 2014 var Serge Gerardin að ferðast með rútu á mót Votta Jehóva í grennd við París þegar hann varð vitni að hryllilegu slysi. „Bíll keyrði á steypubita við brú og tókst á loft,“ segir hann. „Bíllinn skall svo á brúnni, lenti á þakinu og varð alelda.“

Serge hefur starfað sem slökkviliðsmaður í meira en fjörutíu ár og brást því strax við. „Við vorum að ferðast í hina áttina á hraðbrautinni,“ segir hann, „en ég bað bílstjórann að stoppa rútuna og hljóp svo í átt að brennandi bílflakinu.“ Serge heyrði einhvern kalla á hjálp innan úr flakinu. Hann segir: „Ég var bara í jakkafötum og ekki með neinn öryggisbúnað. En þessi óp sögðu mér að það væri enn hægt að bjarga fólki.“

Serge hljóp í kringum bílinn og kom þá að einum farþeganum nokkuð vönkuðum. Þegar Serge hafði komið honum í öruggt skjól sagði farþeginn honum að tveir aðrir væru enn í bílnum. Serge segir: „Nú höfðu fleiri bílar stoppað út af slysinu en fólkið komst ekki nærri vegna hitans og eldsloganna frá bílflakinu.“

Nokkrir vörubílstjórar komu til hjálpar með slökkvitæki. Undir leiðsögn Serges náðu þeir að slökkva eldinn um tíma með því að tæma úr slökkvitækjunum inn í bílinn. Bílstjórinn hafði einhvern veginn fest undir bílnum. Serge og fleiri lyftu bílnum ofan af manninum og drógu hann í öruggt skjól.

„Þá blossaði eldurinn skyndilega upp aftur,“ segir Serge. En annar farþegi var enn inni í bílnum hangandi á hvolfi í sætisbeltinu. Þá kom aðvífandi annar slökkviliðsmaður á frívakt, klæddur mótorhjólagalla. „Ég útskýrði að bíllinn væri líklega í þann mund að springa,“ segir Serge, „svo að við ákváðum að grípa í hendurnar á manninum og draga hann út, og okkur tókst það.“ Innan við mínútu síðar sprakk bíllinn.

Þegar slökkvilið og sjúkraliðar komu á staðinn slökktu þeir eldinn og hlúðu að hinum slösuðu. Serge fékk líka aðhlynningu vegna skurða og brunasára á höndum. Þegar hann sneri til baka í rútuna sína hlupu nokkrir til hans og þökkuðu honum fyrir hjálpina.

Serge er þakklátur fyrir að hafa getað hjálpað. „Mér fannst ég bera ábyrgð á lífi þessara manna frammi fyrir Jehóva, Guði mínum. Ég er ánægður að ég gat átt þátt í að bjarga þessu fólki.“