Hoppa beint í efnið

Myndbönd sem gleðja hjartað

Myndbönd sem gleðja hjartað

“Það var eins og Jehóva væri að hlusta á hjörtu foreldra.“ Þannig lýsti faðir í Malasíu teiknuðu þáttaröðinni Vertu vinur Jehóva.

Vottar Jehóva hafa framleitt þáttaröð af teiknimyndum um Kalla og fjölskyldu hans. Myndböndin, sem eru nú aðgengileg á jw.org, kenna börnunum góða siði og mikilvæg biblíuleg gildi, eins og af hverju þau ættu ekki að stela og hvernig þau geta beðið til Guðs.

Fyrsta myndbandið í þáttaröðinni hefur nú þegar verið þýtt á 131 tungumál og gagnast því börnum út um allan heim.

Góðar viðtökur

Fimm barna móðir skrifaði: „Frá því að við fengum DVD-diskinn Hlustið, hlýðið og hljótið blessun fyrir viku síðan, höfum við horft á myndbandið um 50 sinnum.“

Millie er 12 ára og býr á Englandi. Hún á bróður sem heitir Thomas og er með Downsheilkenni. Millie skrifar: „Thomas hefur Kalla-myndböndin á spjaldtölvunni sinni til að geta sýnt vinum sínum í skólanum. Hann heldur mikið upp á söngvana og syngur þá á svo fallegan hátt að ein systir fór að gráta. Það er ótrúlega gaman að fylgjast með honum.“

Ava, sem er að eigin sögn átta ára, níu mánaða og 25 daga gömul, skrifar: „Kalli og systir hans eru mjög góð að kenna krökkum.“

Mikaylah skrifar: „Ég er sex ára. Takk fyrir myndbandið Hlustið, hlýðið og hljótið blessun. Það kennir mér að hlýða foreldrum mínum af því að það gleður Jehóva.

Heilnæmur boðskapur

Ungur teiknari, sem er ekki vottur Jehóva, horfði á myndbandið Það er rangt að stela. Honum fannst mikið til þess koma og hann undraðist sérstaklega hve fámennur hópur teiknara stóð að baki myndböndunum. Hann sagði: „Ég þekki bæði fólk sem vinnur fyrir stór kvikmyndaver og á litlum vinnustofum og ég hef örðu hverju leitt hugann að því hvernig það væri að vinna á slíkum stöðum. En þegar öllu er á botninn hvolft fer öll vinna þeirra og erfiði í það eitt að koma fólki til að hlæja í einn eða tvo tíma. Teiknimyndirnar ykkar breyta lífi barna, kenna þeim hvað sé rétt og rangt og hjálpa þeim að taka góðar ákvarðanir. Það sem þið gerið hefur tilgang. Það hjálpar fólki.“

Foreldrar út um allan heim taka í sama streng. Móðir nokkur skrifar: „Þriggja ára sonur minn, Quinn, var að horfa á myndbandið Hver er þinn vinur, Guð?. Í miðjum söngnum leit hann á mig, setti litlu höndina sína við hjartastað og sagði: ‚Mamma, þegar ég horfi á þetta verð ég glaður í hjartanu.‘ “