Hoppa beint í efnið

Alþjóðlegur bæklingur sem kennir með myndum

Alþjóðlegur bæklingur sem kennir með myndum

Odval býr í Mongólíu. Hún veit ekki með vissu hve gömul hún er en heldur að hún sé fædd árið 1921. Þegar hún var barn sá hún um búpening foreldra sinna og hún gekk aðeins eitt ár í skóla. Hún er ólæs en með hjálp litríks bæklings fékk hún nýlega að kynnast Guði og fræðast um ánægjulega framtíð sem bíður þeirra sem hlusta á hann. Það snerti hana djúpt að fá þessa þekkingu.

Bæklingurinn var gefinn út af Vottum Jehóva árið 2011 og er til í tveim útgáfum. Báðar eru fallega myndskreyttar en hafa mismikið lesmál.

Bæklingurinn, sem hefur meira lesmál, heitir Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu. Hann verður bráðlega fáanlegur á 583 tungumálum en hinn bæklingurinn á 483 tungumálum. Sá ber heitið Listen to God (Hlustaðu á Guð). Til samanburðar má nefna að búið var að þýða Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna á 413 tungumál í október 2013. Næstum 80 milljónum eintaka hefur nú þegar verið dreift af þessum tveimur útgáfum bæklingsins.

Eldri kona í Brasilíu tók glöð við bæklingnum Hlustaðu á Guð og sagði: „Það er gott að vita að einhverjir eru að hugsa um fólk eins og mig. Ég tók aldrei við blöðunum ykkar því ég get ekki lesið. En þennan bækling ég vil fá.“

Brigitte er ólæs og býr í Frakklandi. Hún segir: „Ég skoða myndirnar í bæklingnum á hverjum degi.“

Vottur Jehóva skrifar frá Suður-Afríku: „Þetta er besti bæklingurinn sem ég hef fundið til að kynna sannleika Biblíunnar fyrir fólki frá Kína. Ég hef farið yfir bæklinginn með fólki af öllum þjóðfélagsstigum – háskólagengnu fólki, fluggáfuðu fólki og fólki sem er varla læst. Bæklingurinn Hlustaðu á Guð og lifðu að eilífu gerir mér kleift að útskýra grundvallarkenningar Biblíunnar á fljótlegan og auðveldan hátt. Það er hægt að leggja grunninn á innan við hálfri klukkustund.“

Vottur Jehóva í Þýskalandi kennir hjónum með ágæta grunnmenntun. Maðurinn var mjög hrifinn af bæklingnum. Hann sagði: „Hvers vegna gáfuð þið mér ekki þennan bækling fyrr? Með honum er svo auðvelt að skilja Biblíuna.“

Heyrnarlaus kona í Ástralíu sagði: „Ég bjó í mörg ár í klaustri meðal nunna. Ég var eins nálægt kirkjunnar mönnum og hægt var en samt sagði enginn mér hvað Guðsríki væri. Myndirnar í bæklingnum hafa hjálpað mér að skilja merkingu þess sem stendur í Matteusi 6:10.“

Deildarskrifstofa Votta Jehóva í Kanada skrifar eftirfarandi: „Eftir að hafa séð bæklinginn Hlustaðu á Guð á krio hafa margir Síerra Leóne-menn hér haft á orði að Vottar Jehóva leggi hart að sér við að koma boðskap Biblíunnar til fólks. Sumir hafa sagt: ‚Þið látið ykkur ekki standa á sama eins og svo margir aðrir.‘“