Hoppa beint í efnið

Þýðingarvinna í Mexíkó og Mið-Ameríku

Þýðingarvinna í Mexíkó og Mið-Ameríku

Um 290 þýðendur í sex löndum í Mexíkó og Mið-Ameríku þýða biblíutengt efni á yfir 60 tungumál. Hvers vegna leggja þeir það á sig? Þegar fólk fær biblíurit á tungumáli, sem það á auðvelt með að skilja, er líklegra að boðskapurinn nái til hjartans. – 1. Korintubréf 14:9.

Mikil áhersla er lögð á að hafa þýðingarnar sem bestar. Því hafa sumir þýðendur á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Mexíkóborg verið fluttir þangað sem tungumál þeirra er talað. Hvernig hefur það komið að gagni? Þýðendurnir hafa nú meiri samskipti við þá sem eiga tungumálið að móðurmáli og eiga því auðveldara með að snúa efninu yfir á auðskilið mál.

Hvað finnst þýðendunum um breytingarnar? Federico þýðir á tungumálið nahúatl (guerrero). Hann segir: „Á þeim tæpa áratug, sem ég bjó í Mexíkóborg, fann ég aðeins eina fjölskyldu sem talaði sama tungumál og ég. En í bæjunum í grennd við þýðingarskrifstofuna tala það nánast allir.“

Karin þýðir á lágþýsku á þýðingarskrifstofunni í Chihuahua-fylki í Mexíkó. Hún segir: „Að búa innan um mennonítana gerir mér kleift að fylgjast vel með þeim breytingum sem verða á málinu. Við búum og vinnum í litlum bæ, og þegar ég lít út um gluggann sé ég fólkið sem á eftir að lesa ritin sem við þýðum.“

Neyfi býr nú á þýðingarskrifstofunni í Mérida í Mexíkó. Hún segir: „Þegar við höldum biblíunámskeið á maya tökum við eftir hvaða hugtök Mayarnir eiga erfitt með að skilja. Þá getum við fundið betri leiðir til að útskýra hugtökin þegar við þýðum.“

Hvernig njóta lesendurnir góðs af þessum breytingum? Lítum á eitt dæmi: Móðurmál Elenu er tlapanec. Hún sótti reglulega samkomur Votta Jehóva í um fjóra áratugi. En þar sem samkomurnar voru á spænsku skildi hún ekki það sem var sagt. „Ég vissi bara að ég vildi vera á samkomunum,“ sagði hún. En með hjálp bæklinga á tlapanec fékk hún loks tækifæri til að kynna sér Biblíuna. Kærleikur hennar til Guðs dafnaði og árið 2013 vígði hún Jehóva líf sitt og lét skírast. „Ég þakka Jehóva fyrir að leyfa mér að skilja Biblíuna,“ segir hún.