Hoppa beint í efnið

Hvers vegna þiggja vottar Jehóva ekki blóð?

Hvers vegna þiggja vottar Jehóva ekki blóð?

Algengur misskilningur

Ranghugmynd: Vottar Jehóva hafa ekki trú á læknavísindum eða læknismeðferð.

Staðreynd: Við sækjumst eftir bestu mögulegu læknisþjónustu fyrir okkur sjálf og fjölskyldur okkar. Þegar við eigum við veikindi að stríða förum við til lækna sem eru færir í lyf- og skurðlækningum án blóðgjafar. Við kunnum að meta framfarir sem orðið hafa í læknavísindum og er nú svo komið að meðferðir án blóðgjafar, sem þróaðar hafa verið til hjálpar vottum Jehóva, nýtast öllum í samfélaginu. Í mörgum löndum geta nú allir sjúklingar valið að afþakka blóðgjafir og þar með forðast áhættur sem þeim fylgja, svo sem sjúkdóma sem smitast með blóði, ónæmisviðbrögð og hættur sem stafa af mannlegum mistökum.

Ranghugmynd: Vottar Jehóva halda því fram að trúin lækni alla kvilla.

Staðreynd: Við stundum ekki trúarlækningar.

Ranghugmynd: Læknismeðferð án blóðgjafar er mjög kostnaðarsöm.

Staðreynd: Læknismeðferð án blóðgjafar er hagkvæmur kostur. *

Ranghugmynd: Margir vottar, jafnvel börn, deyja á hverju ári vegna þess að þeir þiggja ekki blóð.

Staðreynd: Þessi fullyrðing á alls ekki við rök að styðjast. Skurðlæknar framkvæma reglulega flóknar aðgerðir, svo sem hjartaaðgerðir, bæklunaraðgerðir og líffæraflutninga án blóðgjafa. * Sjúklingum, þar á meðal börnum sem er ekki gefið blóð, farnast yfirleitt jafn vel eða betur en þeim sem fá blóðgjöf. * Hvað sem því líður er engan veginn hægt að segja með vissu að sjúklingur muni deyja ef hann hafnar blóðgjöf eða lifa ef hann þiggur blóðgjöf.

Hvers vegna þiggja vottar Jehóva ekki blóðgjöf?

Ástæðan er trúarleg fremur en læknisfræðileg. Bæði Gamla og Nýja testamentið mæla skýrt fyrir um að við eigum að halda okkur frá blóði. (1. Mósebók 9:4; 3. Mósebók 17:10; 5. Mósebók 12:23; Postulasagan 15:28, 29) Auk þess lítur Guð svo á að blóð tákni líf. (3. Mósebók 17:14) Við forðumst því notkun blóðs, ekki aðeins vegna hlýðni við Guð heldur í virðingarskyni við hann sem lífgjafa okkar.

Breytt viðhorf

Flóknar skurðaðgerðir án blóðgjafar eru mögulegar.

Áður leit starfsfólk innan heilbrigðisgeirans svo á að hugmyndin um meðferð án blóðgjafar væri öfgakennd og fannst það jafnvel jaðra við sjálfsmorð að þiggja slíka meðferð. En þetta viðhorf hefur breyst á undanförnum árum. Árið 2004 birtist til dæmis grein í læknisfræðilegu tímariti þar sem fram kom að „margar af þeim aðferðum, sem þróaðar hafa verið fyrir sjúklinga sem eru vottar Jehóva, verði á komandi árum taldar hefðbundnar“. * Árið 2010 kom fram í grein í tímaritinu Heart, Lung and Circulation að „skurðaðgerðir án blóðgjafar ættu ekki að takmarkast við votta Jehóva heldur vera sjálfsagður kostur í almennum skurðlækningum“.

Þúsundir lækna um allan heim nota nú aðferðir til að draga úr blóðmissi þegar þeir framkvæma flóknar aðgerðir án blóðgjafa. Í stað þess að gefa blóð er slíkum aðferðum beitt, jafnvel í þróunarlöndum og margir sjúklingar, sem eru ekki vottar Jehóva, óska eftir þeim.

^ gr. 6 Sjá Transfusion and Apheresis Science, 33. bindi, nr. 3, bls. 349.

^ gr. 8 Sjá The Journal of Thoracic and Cardiovascular Surgery, 134. bindi, nr. 2, bls. 287-288; Texas Heart Institute Journal, 38. bindi, nr. 5, bls. 563; Basics of Blood Management, bls. 2 og Continuing Education in Anaesthesia, Critical Care & Pain, 4. bindi, nr. 2, bls. 39.

^ gr. 8 Sjá The Journal of Thoracic and Cardiovascular Surgery, 89. bindi, nr. 6, bls. 918 og Heart, Lung and Circulation, 19. bindi, bls. 658.

^ gr. 10 Continuing Education in Anaesthesia, Critical Care & Pain, 4.bindi, nr. 2, bls. 39.