Hoppa beint í efnið

Taka vottar Jehóva þátt í hjálparstarfi?

Taka vottar Jehóva þátt í hjálparstarfi?

Já, vottar Jehóva koma oft til hjálpar þegar náttúruhamfarir verða eða skyndileg neyð skapast. Við veitum bæði vottum Jehóva og öðrum neyðaraðstoð í samræmi við fyrirmælin í Biblíunni sem er að finna í Galatabréfinu 6:10: „Þess vegna skulum við ... gera öllum gott og einkum trúsystkinum okkar.“ Við reynum líka að veita þann andlega og tilfinningalega stuðning sem fórnarlömb hamfara þurfa sárlega á að halda á slíkum stundum. – 2. Korintubréf 1:3, 4.

Skipulag

Þegar hamfarir hafa átt sér stað reyna safnaðaröldungar á hamfarasvæðinu að ná sambandi við alla sem tengjast söfnuðinum á svæðinu til að kanna hvort allir séu heilir á húfi og hvers konar aðstoð þeir þurfi. Öldungarnir senda síðan viðkomandi deildarskrifstofu Votta Jehóva upplýsingar um niðurstöður könnunarinnar og þá neyðaraðstoð sem þegar hefur verið veitt.

Ef söfnuðirnir á staðnum ráða ekki við að veita þá neyðarhjálp sem þörf er á, sér stjórnandi ráð Votta Jehóva um að útvega það sem þarf. Þetta er ekki ósvipað þeirri aðstoð sem kristnir menn á fyrstu öld veittu hver öðrum á tímum hungursneyðar. (1. Korintubréf 16:1-4) Deildarskrifstofan skipar síðan sérstaka nefnd sem sér um að skipuleggja og hafa umsjón með hjálparstarfinu. Vottar á öðrum svæðum bjóða einnig fram starfskrafta sína og fjárhagslega aðstoð. – Orðskviðirnir 17:17.

Fjármögnun

Frjáls framlög sem deildarskrifstofur Votta Jehóva fá send eru meðal annars notuð til að veita fórnarlömbum hamfara neyðaraðstoð. (Postulasagan 11:27-30; 2. Korintubréf 8:13-15) Þar sem sjálfboðaliðar annast alla vinnuna fer það fé sem ráðstafað er til neyðaraðstoðar ekki til stjórnenda heldur óskert til hjálparstarfsins. Við förum gætilega með öll framlög. – 2. Korintubréf 8:20.