Hoppa beint í efnið

Hvernig líta Vottar Jehóva á vísindi?

Hvernig líta Vottar Jehóva á vísindi?

Við virðum það sem vísindin hafa áorkað og viðurkennum vísindalegar uppgötvanir ef þær eru byggðar á sönnunum.

„Vísindi eru rannsóknir á náttúrunni og náttúrulegum fyrirbærum og sú þekking sem fæst með þessum rannsóknum.“ (Collins Cobuild Advanced Learner’s English Dictionary) Enda þótt Biblían sé ekki kennslubók í vísindum hvetur hún fólk til að kynna sér efnisheiminn og nýta sér vísindalegar uppgötvanir annarra. Hugleiddu fáein dæmi:

  • Stjörnufræði: „Hefjið upp augun og horfið til himins. Hver hefur skapað allt þetta? Það er hann sem kannar her stjarnanna, allan með tölu, nefnir þær allar með nafni.“ – Jesaja 40:26.

  • Líffræði: Salómon skrifaði „um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanonsfjöllum til ísópsins sem vex á múrveggnum. Hann orti um fénaðinn og fuglana, skriðdýrin og fiskana.“ – 1. Konungabók 5:13.

  • Læknavísindi: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.“ – Lúkas 5:31.

  • Veðurfræði: ,Hefurðu komið að forðabúri snævarins og séð geymslur haglsins ... Hvar tvístrast austanvindurinn um jörðina?‘ – Jobsbók 38:22-24.

Í ritum okkar er fólk hvatt til að bera virðingu fyrir vísindum. Í þeim eru greinar um náttúruna og það sem vísindin hafa áorkað. Foreldrar sem eru vottar hvetja börnin sín til að mennta sig svo þau hafi betri skilning á heiminum í kringum sig. Fjöldi votta Jehóva vinnur á sviði vísinda, eins og lífefnafræði, stærðfræði og eðlisfræði.

Takmarkanir vísindanna

Við álítum ekki að vísindin geti svarað öllum spurningum mannkynsins. * Tökum dæmi: Jarðfræðingar rannsaka úr hverju jörðin er mynduð og líffræðingar sem skoða mannslíkamann rannsaka hvernig mannslíkaminn virkar. En hvers vegna er jörðin svona fínstillt fyrir líf og hvers vegna eru mismunandi hlutar mannslíkamans svona samstilltir?

Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að aðeins Biblían gefi fullnægjandi svör við þessum spurningum. (Sálmur 139:13-16; Jesaja 45:18) Þess vegna álítum við að góð menntun feli bæði í sér að læra af vísindunum og Biblíunni.

Stundum gæti virst sem vísindin séu í mótsögn við Biblíuna. En sumar mótsagnir byggjast á því að menn misskilja það sem Biblían kennir. Hún kennir til dæmis ekki að jörðin hafi verið sköpuð á sex bókstaflegum 24 stunda löngum sólarhringum. – 1. Mósebók 1:1; 2:4.

Sumar kenningar sem almennt er litið á sem vísindalegar skortir nægilegar sannanir og því hafna sumir virtir vísindamenn þeim. Þar sem til dæmis efnisheimurinn endurspeglar vitsmunalega hönnun erum við sammála mörgum líffræðingum, efnafræðingum og öðrum sem hafa komist að þeirri niðurstöðu að líf hafi ekki þróast með handahófskenndum stökkbreytingum og náttúruvali.

^ gr. 8 Austurríski eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Erwin Schrödinger skrifaði að vísindin „væru afar þögul um allt ... sem stendur hjartanu næst og er okkur mikils virði.“ Og Albert Einstein sagði: „Við höfum lært af sárri reynslu að vitsmunaleg hugsun nægir ekki til að leysa félagsleg vandamál.“