Hoppa beint í efnið

Hafa Vottar Jehóva sína eigin útgáfu af Biblíunni?

Hafa Vottar Jehóva sína eigin útgáfu af Biblíunni?

 Vottar Jehóva hafa skoðað margar biblíuþýðingar við rannsóknir sínar á Biblíunni. Við kunnum þó sérstaklega að meta Nýheimsþýðingu Biblíunnar, á þeim tungumálum sem hún hefur komið út, vegna þess að nafn Guðs kemur fram í henni. Hún er líka nákvæm og skýr.

  •   Notkun á nafni Guðs. Sumir útgefendur Biblíunnar hafa brugðist þeirri skyldu að veita þeim heiður sem heiður ber. Til dæmis nefnir ein biblíuþýðing nöfn fleiri en 70 einstaklinga sem á einn eða annan hátt komu að útgáfunni. En í sömu biblíu er nafni höfundarins, Jehóva Guðs, algerlega sleppt.

     Í Nýheimsþýðingunni er nafn Guðs sett aftur þar sem það stóð í frumtextanum á mörg þúsund stöðum en þeir sem komu að þýðingunni eru ónafngreindir.

  •   Nákvæmni. Frumtextanum er ekki komið nákvæmlega til skila í öllum biblíuþýðingum. Í einni þýðingu stendur í Matteusi 7:13: „Gangið inn um þrönga hliðið, því vítt er hliðið til helvítis og vegurinn þangað greiðfær“. Í upprunalega textanum er notað hugtakið „tortíming“, ekki „helvíti“. Kannski settu þýðendur orðið „helvíti“ vegna þess að þeir trúðu því að vondir menn yrðu kvaldir að eilífu í eldi helvítis. En Biblían styður ekki þá hugmynd. Þess vegna stendur í Nýheimsþýðingunni: „Gangið inn um þrönga hliðið því að vítt er hliðið og breiður vegurinn sem liggur til tortímingar.“

  •   Skýrleiki. Góð þýðing ætti ekki einungis að vera nákvæm heldur líka skýr og auðskilin. Lítum á dæmi. Í Rómverjabréfinu 12:11 notar Páll postuli orðasamband sem merkir bókstaflega „til andans sjóðandi“. Þar sem þetta orðasamband er núna illskiljanlegt hefur versið verið þýtt í Nýheimsþýðingunni á auðskiljanlegri máta. Þar segir að kristnir menn ættu að vera „brennandi í andanum“.

 Nýheimsþýðingin hefur aðra sérstöðu auk þess sem nafn Guðs stendur í henni og hún er nákvæm og skýr. Henni er dreift án endurgjalds. Þannig geta milljónir manna lesið Biblíuna á sínu móðurmáli, jafnvel þeir sem annars hefðu ekki efni á Biblíu.