Hoppa beint í efnið

Af hverju halda vottar Jehóva ekki jól?

Af hverju halda vottar Jehóva ekki jól?

Algengar ranghugmyndir

Ranghugmynd: Vottar Jehóva halda ekki jól af því að þeir trúa ekki á Jesú.

Staðreynd: Við erum kristin. Við trúum því að hjálpræði sé ekki að finna í neinum nema Jesú Kristi. – Postulasagan 4:12.

Ranghugmynd: Þið sundrið fjölskyldum vegna þess að þið haldið ekki jól.

Staðreynd: Okkur er mjög umhugað um velferð fjölskyldna og við notum Biblíuna til að hjálpa fólki að byggja upp sterkar fjölskyldur.

Ranghugmynd: Þið missið af „jólaskapinu”, gjafmildinni og friðarboðskapnum.

Staðreynd: Við reynum okkar ýtrasta til að vera friðsöm og gjafmild allan ársins hring. (Orðskviðirnir 11:25; Rómverjabréfið 12:18) Til dæmis þegar við höldum samkomur eða boðum trúna förum við eftir orðum Jesú: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ (Matteus 10:8) Þar að auki beinum við athygli manna að ríki Guðs sem er eina von mannkyns um frið á jörð. – Matteus 10:7.

Af hverju halda vottar Jehóva ekki jól?

  • Jesús gaf okkur fyrirmæli um að minnast dauða síns en ekki fæðingardags. – Lúkas 22:19, 20.

  • Postular Jesú og lærisveinar fyrr á tímum héldu ekki jól. Í New Catholic Encyclopedia stendur að „hátíðin um fæðingu Jesú var ekki haldin fyrr en árið 243“ en það er rúmri öld eftir að síðustu postular Jesú dóu.

  • Það er ekkert sem sannar að Jesús hafi fæðst 25. desember. Fæðingardag hans er hvergi að finna í Biblíunni.

  • Við erum sannfærð um að Guð hafi ekki velþóknun á jólunum af því að þau eiga rætur sínar að rekja til heiðinna siða. – 2. Korintubréf 6:17.

Af hverju gerið þið svona mikið mál út af jólunum?

Margir halda jól þótt þeir viti að þau eigi sér heiðinn uppruna og engin rök fyrir þeim sé að finna í Biblíunni. Slíkir aðilar gætu spurt sem svo: „Af hverju ættu kristnir menn að gera sig óvinsæla með því að halda ekki jól? Af hverju að gera svona mikið mál út af jólunum?

Í Biblíunni erum við hvött til að íhuga hlutina sjálf og nota dómgreindina. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Þar lærum við að meta sannleikann að verðleikum. (Jóhannes 4:23, 24) Okkur er auðvitað ekki sama hvernig fólk lítur á okkur en við fylgjum fyrirmælum Biblíunnar þótt það þýði að við verðum óvinsæl.

Þrátt fyrir að við höldum ekki jól þá virðum við skoðanir annarra og frelsi þeirra til að velja sína eigin leið. Við truflum ekki jólahald annarra.