Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Að lokum sættist ég við föður minn

Að lokum sættist ég við föður minn
  • FÆÐINGARÁR: 1954

  • FÖÐURLAND: Filippseyjar

  • FORSAGA: Yfirgaf ofbeldisfullan föður

FORTÍÐ MÍN

Margir ferðamenn skoða fræga fossa nálægt bænum Pagsanjan á Filippseyjum. Þar ólst faðir minn, Nardo Leron, upp í fátækt. Þegar hann sá spillinguna hjá ríkisstjórninni, lögreglunni og á vinnustað sínum varð hann bitur og reiður.

Foreldrar mínir unnu hörðum höndum við að ala upp börnin sín átta. Þau þurftu oft að vera fjarri heimilinu um langan tíma til að vinna á ökrunum upp í fjöllum. Við Rodelio bróðir minn þurftum oft að sjá um okkur sjálfir og vorum oft svangir. Þegar við vorum litlir höfðum við sjaldan tækifæri til að leika okkur. Frá sjö ára aldri þurftum við öll systkinin að vinna á ökrunum við að bera þungar byrðar af kókoshnetum eftir bröttum fjallastígum. Ef byrðin var of þung neyddumst við til að draga hana.

Við þurftum að þola barsmíðar frá föður okkar en það olli okkur meiri sársauka að sjá hann berja móður okkar. Við reyndum að stöðva hann en við réðum ekki við hann. Við Rodelio áttum okkur það leyndarmál að við ætluðum að drepa föður okkar þegar við yrðum eldri. Ég þráði að eiga föður sem elskaði okkur.

Vonsvikinn og reiður vegna ofbeldis föður míns fór ég að heiman 14 ára. Um tíma bjó ég á götunni og byrjaði að reykja maríjúana. Seinna vann ég við að sigla með ferðamenn að fossunum.

Fáum árum seinna hóf ég háskólanám í Maníla. En af því að ég fór til Pagsanjan um helgar til að vinna, hafði ég lítinn tíma fyrir námið. Líf mitt virtist stefnulaust og maríjúana dró ekki lengur úr kvíðanum. Ég fór að prófa örvandi efni, kókaín og heróín. Vímuefni og siðleysi héldust í hendur. Ég var umkringdur fátækt, óréttlæti og þjáningum. Ég hataði ríkisstjórnina og fannst hún bera ábyrgð á ástandinu. Ég spurði Guð: „Hvers vegna er lífið svona?“ Ég skoðaði mismunandi trúarbrögð en fann engin svör. Ég fór að nota meiri vímuefni til að slá á örvæntinguna.

Árið 1972 stóðu stúdentar á Filippseyjum fyrir mótmælum gegn ríkisstjórninni. Ég tók þátt í einum slíkum mótmælum þar sem ofbeldi braust út. Margir voru handteknir og nokkrum mánuðum síðar voru sett herlög um allt landið.

Ég endaði aftur á götunni og núna af ótta við yfirvöld vegna þátttöku minnar í uppreisninni. Til að fjármagna vímuefnaneysluna leiddist ég út í þjófnað og að lokum fór ég að útvega ríku fólki og útlendingum kynlífsþjónustu. Mér stóð á sama hvort ég myndi lifa eða deyja.

Á sama tíma fóru móðir mín og yngri bróðir að lesa Biblíuna með vottum Jehóva. Faðir minn varð ofsareiður og brenndi biblíuritin þeirra. En þau gáfust ekki upp og voru skírð sem vottar.

Dag einn talaði vottur við föður minn um loforð Biblíunnar um framtíðina þegar réttlæti yrði komið á um alla jörð. (Sálmur 72:12-14) Þessar framtíðarhorfur höfðuðu svo mikið til hans að hann ákvað að rannsaka Biblíuna sjálfur. Í henni fann hann ekki bara loforð Guðs um réttláta ríkisstjórn heldur kröfur Guðs til eiginmanna og feðra. (Efesusbréfið 5:28; 6:4) Stuttu seinna urðu hann og öll hin systkini mín vottar. Þar sem ég var víðsfjarri fór þetta allt fram hjá mér.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

Árið 1978 flutti ég til Ástralíu. En jafnvel í þessu friðsama og auðuga landi fann ég ekki hugarfrið. Ég hélt áfram áfengis- og vímuefnaneyslu. Síðar þetta ár heimsóttu vottar Jehóva mig. Ég var hrifinn af því sem þeir sýndu mér í Biblíunni um frið á jörð en ég var ekki tilbúinn að skuldbinda mig.

Stuttu síðar fór ég aftur til Filippseyja í fáeinar vikur. Systkini mín sögðu mér að faðir okkar hefði lagt hart að sér til að verða betri maður en ég var svo bitur að ég forðaðist allt samband við hann.

Yngri systir mín útskýrði fyrir mér með hjálp Biblíunnar hvers vegna það eru svona miklar þjáningar og óréttlæti. Ég var undrandi á því að reynslulítil unglingsstúlka gæti svarað þessum spurningum mínum. Áður en ég fór gaf faðir minn mér bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. * „Hættu þessum flótta,“ sagði hann. „Þessi bók hjálpar þér að finna það sem þú leitar að.“ Hann hvatti mig til að leita uppi votta Jehóva þegar ég kæmi aftur til Ástralíu.

Ég fór að ráðum föður míns og fann ríkissal Votta Jehóva nálægt heimili mínu í Brisbane. Ég þáði boð um biblíunámskeið. Biblíuspádómar eins og í Daníelsbók 7. kafla og Jesaja 9. kafla sýndu mér að stjórn Guðs sem er algerlega laus við spillingu mun ríkja yfir okkur í framtíðinni. Ég komst að því að þá getum við búið á jörð sem verður paradís. Ég vildi vera Guði þóknanlegur en ég áttaði mig á því að ég yrði að hafa stjórn á tilfinningum mínum, hætta áfengis- og vímuefnaneyslu og lauslæti. Ég hætti með stelpunni sem ég bjó með og braust úr viðjum fíknarinnar. Eftir því sem ég treysti Jehóva betur, bað ég til hans um hjálp til að gera aðrar breytingar.

Smám saman rann það upp fyrir mér að það sem ég var að læra gat breytt manni algerlega. Í Biblíunni segir að ef við leggjum hart að okkur þá getum við ,íklæðst nýjum manni‘.(Kólossubréfið 3:9, 10) Þegar ég reyndi þetta, skildi ég að það gæti verið satt sem ég hafði heyrt, að faðir minn hefði breytt sér. Í stað þess að vera reiður og fjandsamlegur langaði mig að sættast við hann. Að lokum fyrirgaf ég föður mínum og sleppti takinu á reiðinni sem ég hafði alið með mér frá barnsaldri.

ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

Sem ungur maður fylgdi ég gjarnan fordæmi annarra og tók upp eyðileggjandi eða skaðlega hegðun. Viðvörun Biblíunnar reyndist sönn í mínu tilfelli. Vondur félagsskapur hafði slæm áhrif á mig. (1. Korintubréf 15:33) En ég hef eignast trausta vini sem eru vottar Jehóva og þeir hafa hjálpað mér að verða betri maður. Á meðal þeirra fann ég líka yndislega eiginkonu, Lorettu. Saman kennum við öðrum hvernig Biblían getur hjálpað þeim.

Borðhald með eiginkonu minni og vinum.

Það er Biblíunni að þakka að ég sá faðir minn verða það sem ég hélt að hann gæti aldrei orðið, elskuríkur eiginmaður móður minnar og auðmjúkur, friðsamur kristinn maður. Þegar við hittumst eftir að ég lét skírast sem vottur Jehóva árið 1987 faðmaði faðir minn mig í fyrsta sinn á ævinni.

Í meira en 35 ár unnu faðir minn og móðir saman að því að segja öðrum frá von Biblíunnar. Hann varð iðinn og umhyggjusamur maður sem var þekktur fyrir hjálpsemi. Á þessum tíma fór ég að virða hann og elska. Ég var stoltur að vera þekktur sem sonur hans. Hann dó árið 2016 en ég hugsa til hans með ástúð vitandi að báðir gerðum við miklar breytingar á persónuleika okkar með því að fara eftir því sem Biblían kennir. Ég finn ekki fyrir vott af hatri lengur. Og ég er svo innilega þakklátur að hafa fundið himneskan föður minn, Jehóva Guð, sem lofar að binda endi á orsök þjáninga fjölskyldna um allan heim.

^ gr. 20 Gefin út af Vottum Jehóva en er ekki lengur fáanleg.