Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvað ef pabbi minn eða mamma á við veikindi að stríða?

Hvað ef pabbi minn eða mamma á við veikindi að stríða?

 Fátt ungt fólk gerir sér áhyggjur út af umönnun veikra foreldra, því að yfirleitt er langt í að foreldrar þeirra fara að glíma við heilsuvandamál.

 En hvað nú ef foreldrar þínir veikjast á meðan þú ert enn á unglingsaldri? Lítum á tvö dæmi um unglingsstúlkur sem hafa glímt við þann vanda.

 Frásaga Emmaline

 Mamma er með Ehlers-Danlos heilkenni (EDS), kvalafullan og langvinnan sjúkdóm sem hefur áhrif á liðamót, húð og æðakerfi.

 Sjúkdómurinn er ólæknandi og heilsa mömmu hefur farið versnandi síðastliðin tíu ár. Blóðgildin hafa stundum lækkað svo mikið að líf hennar hefur verið í hættu eða sársaukinn svo mikill að hana langaði ekki að lifa lengur.

 Við fjölskyldan erum vottar Jehóva og söfnuðurinn hefur veitt okkur mikla hughreystingu. Til dæmis sendi stelpa á mínum aldri fjölskyldunni kort og skrifaði hvað henni þætti vænt um okkur og að við gætum alltaf reitt okkur á stuðning hennar. Það er svo gott að eiga slíka vini.

 Biblían hefur veitt mér mikla hjálp. Eitt af uppáhaldsversunum mínum er Sálmur 34:19 en þar stendur: „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta.“ Hebreabréfið 13:6 segir: „Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast.“

 Seinna versið skiptir mig sérstaklega miklu máli. Ég óttast ekkert meir en að missa mömmu mína. Mér þykir svo vænt um hana og er þakklát fyrir hvern dag með henni. Biblíuversið hjálpar mér að skilja að ég get horft óttalaust til framtíðar óháð því hvað gerist.

 Ég hef líka áhyggjur af öðru. EDS er nefnilega arfgengur sjúkdómur. Mamma erfði hann frá mömmu sinni og ég erfði hann frá mömmu minni. Það er rétt – ég er líka með EDS. En Hebreabréfið 13:6 fullvissar mig um að Jehóva verður „hjálpari“ minn á þessu sviði líka.

 Ég reyni að meta að verðleikum það sem ég hef núna í stað þess að lifa í fortíðinni eða hafa áhyggjur af framtíðinni. Ég get orðið niðurdregin ef ég ber saman það sem mamma getur nú gert við það sem hún gat gert áður. Biblían segir að prófraunir okkar séu ,skammvinnar og léttbærar‘ í samanburði við vonina um eilíft líf án sjúkdóma. – 2. Korintubréf 4:17; Opinberunarbókin 21:1-4.

 Til umhugsunar: Hvað hjálpar Emmaline að vera jákvæð? Hvernig getur þú varðveitt jákvætt hugarfar andspænis erfiðleikum?

 Frásaga Emily

 Pabbi fór fyrst að glíma við þunglyndi þegar ég var í framhaldsskóla. Mér leið eins og pabbi minn væri horfinn og annar væri kominn í hans stað. Upp frá því hefur pabbi glímt við depurð, fælni og kvíðaköst. Hann hefur átt í þessari baráttu í 15 ár. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir hann að vera heltekinn af depurð án þess að hafa nokkra ástæðu til að líða þannig.

 Við erum vottar Jehóva og söfnuðurinn sem við tilheyrum hefur veitt okkur mikinn stuðning. Trúsystkini okkar hafa verið svo vingjarnleg og skilningsrík. Og enginn hefur nokkurn tíma látið pabba fá á tilfinninguna að hann komi ekki að gagni í söfnuðinum. Þegar ég sé hvernig pabbi sýnir þolgæði í raunum sínum elska ég hann enn meira.

 Ég sakna pabba eins og hann var áður – pabba sem var glaður, en ekki heltekinn af kvíða og sársauka. Mér finnst hræðilegt að hann skuli daglega þurfa að berjast við ósýnilegan óvin í eigin huga.

 Pabbi reynir þrátt fyrir allt að vera jákvæður. Nýlega þegar þunglyndið var sérstaklega slæmt lagði hann sig fram um að lesa svolítið í Biblíunni á hverjum degi, þó ekki væri nema fáein vers. Það gaf honum mikinn styrk. Þótt þetta virðist hafa verið lítið atriði bjargaði þetta honum alveg. Ég hef aldrei verið jafn stolt af pabba mínum og ég var á þessu myrka tímabili.

 Ég held mikið upp á það sem stendur í Nehemía 8:10: „Gleði Drottins er styrkur ykkar.“ Það er alveg satt. Gleðin sem ég finn þegar ég tek fullan þátt í starfsemi safnaðarins fyllir hjarta mitt þegar ég er niðurdregin. Hún veitir yl sem endist allan daginn. Fordæmi föður míns hefur kennt mér að Jehóva er alltaf tilbúinn að veita okkur stuðning.

 Til umhugsunar: Hvernig hefur Emily stutt pabba sinn í veikindum hans? Hvernig getur þú hjálpað þeim sem þjást af þunglyndi?