Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég valið góða fyrirmynd?

Hvernig get ég valið góða fyrirmynd?

 „Þegar ég glímdi við vandamál í skólanum fannst mér gott að hugsa um einhvern sem ég leit upp til og hafði gengið í gegnum eitthvað svipað. Síðan reyndi ég að taka viðkomandi mér til fyrirmyndar. Góð fyrirmynd auðveldaði mér að glíma við erfiðar aðstæður.“ – Haley

 Það getur hjálpað manni að forðast vandamál og ná markmiðum sínum að hafa fyrirmynd. Aðalatriðið er að velja sér góða fyrirmynd.

 Hvers vegna þarf að vanda valið?

 •   Fyrirmyndin sem þú velur þér hefur áhrif á það sem þú gerir.

   Í Biblíunni er kristnum mönnum ráðlagt að taka eftir þeim sem eru til fyrirmyndar: „Virðið fyrir ykkur hvernig ævi þeirra lauk og líkið eftir trú þeirra.“ – Hebreabréfið 13:7.

   Gott ráð: Fyrirmyndin sem þú velur þér hefur áhrif á þig, annað hvort til góðs eða ills. Þú skalt því velja þá sem hafa góða eiginleika, ekki bara þá sem eru vinsælir eða á svipuðum aldri og þú.

   „Ég lærði mjög mikið af trúbróður mínum sem heitir Adam – bæði af viðhorfi hans og framkomu. Það er ótrúlegt að ég skuli enn muna eftir ýmsu sem hann sagði og gerði. Hann hefur ekki hugmynd um hvað hann hafði mikil áhrif á mig.“ – Colin.

 •   Fyrirmyndin sem þú velur þér hefur áhrif á hvernig þú hugsar og hvernig þér líður.

   Í Biblíunni segir: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ – 1. Korintubréf 15:33.

   Gott ráð: Veldu einhvern sem hefur góða eiginleika en lítur ekki bara vel út. Annars gætirðu orðið fyrir vonbrigðum.

   „Manni finnst maður ómerkilegur og ljótur ef maður er alltaf að bera sig saman við fræga og flotta fólkið. Þá fær maður bara útlitið á heilann.“ – Tamara.

   Til umhugsunar: Hvaða gildru getur maður fallið í ef maður velur frægt fólk og íþróttafólk sem fyrirmyndir?

 •   Fyrirmyndin sem þú velur þér getur haft áhrif á það hvort þú nærð markmiði þínu.

   Í Biblíunni segir: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur.“ – Orðskviðirnir 13:20.

   Gott ráð: Veldu fyrirmyndir sem sýna með framkomu sinni þá góðu eiginleika sem þú vilt tileinka þér. Með því að fylgjast með þeim gætirðu séð hvað þú þarft að gera til að ná markmiði þínu.

   „Í stað þess að setja sér óljóst markmið eins og ,ég vil verða ábyrgðarfyllri,‘ gætirðu sagt, ,ég vil verða ábyrgðarfyllri eins og Jane. Hún er alltaf stundvís og tekur verkefni sín alvarlega.‘“ – Miriam.

   Niðurstaðan: Þegar þú velur þér góða fyrirmynd stjórnarðu því sjálfur hvers konar manneskja þú villt verða.

Með því að fylgja góðu fordæmi geturðu stytt leiðina að markmiðinu.

 Hvernig á að velja?

 Þú getur valið þér fyrirmynd með tvennum hætti:

 1.   Þú getur valið eiginleika sem þú vilt tileinka þér og síðan fundið einhvern sem þú lítur upp til og hefur þennan eiginleika til að bera.

 2.   Þú getur valið einhvern sem þú lítur upp til og síðan valið eiginleika sem viðkomandi hefur til að bera og þú vilt tileinka þér.

 Þú getur notað vinnublaðið sem fylgir þessari grein til þess.

 Fyrirmyndir þínar geta meðal annars verið:

 •  Jafnaldrar. „Mig langar til að líkjast bestu vinkonu minni. Hún er aldrei of upptekinn til að staldra við og sýna öðrum umhyggju. Hún er yngri en ég en hún hefur fallega eiginleika sem mig skortir og mig langar að taka hana mér til fyrirmyndar.“ – Miriam.

 •  Fullorðnir. Það geta verið foreldrar þínir eða trúsystkini. „Fyrirmyndir mínar eru án efa foreldrar mínir. Þau hafa frábæra eiginleika. Ég sé galla þeirra en ég sé líka að þau eru trúföst þrátt fyrir gallana. Þegar ég kemst á þeirra aldur vona ég að það verði hægt að segja það sama um mig.“ – Annette.

 •  Biblíupersónur. „Ég hef valið nokkrar fyrirmyndir í Biblíunni – Tímóteus, Rut, Job, Pétur og litlu ísraelsku stúlkuna – hvert og eitt af mismunandi ástæðu. Því meira sem ég læri um biblíupersónur þeim mun raunverulegri finnst mér þær. Mér finnst mjög gaman að lesa frásögurnar í bókinni Imitate Their Faith, (ekki til á íslensku) og ,fyrirmyndir‘ á kápusíðu 3 í bókinni Spurningar unga fólksins svör sem duga 2. bindi.“ – Melinda.

 Gott ráð: Ekki takmarka þig við eina fyrirmynd. Páll postuli sagði við trúsystkini sín: „Festið sjónir ykkar á þeim sem breyta eftir þeirri fyrirmynd er við höfum gefið ykkur.“ – Filippíbréfið 3:17.

 Vissir þú? Þú getur orðið fyrirmynd annarra. Í Biblíunni segir: „Ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:12.

 Þótt maður sé kannski sjálfur enn í mótun getur maður samt hjálpað öðrum að bæta sig. Maður veit aldrei hver fylgist með manni og hvernig það sem maður segir getur breytt lífi einhvers.“ – Kiana.