Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Er ég tilbúin(n) til að byrja með einhverjum?

Er ég tilbúin(n) til að byrja með einhverjum?

 Hvað þýðir það að „vera saman“?

  •   Þú ferð reglulega út með einhverjum af hinu kyninu. Eruð þið saman?

  •   Þið laðist hvort að öðru. Þið sendið hvort öðru SMS eða talið saman í síma oft á dag. Eruð þið saman?

  •   Þegar þið hittið vini ykkar endar það alltaf á því að þið tvö eruð mest saman? Eruð þið saman?

 Þér fannst örugglega ekki erfitt að svara fyrstu spurningunni. En þú þurftir kannski aðeins að hugsa málið áður en þú svaraðir annarri og þriðju spurningunni. Hvað þýðir það nákvæmlega að „vera saman“?

 Um er að ræða hvers kyns samskipti þar sem tvær manneskjur sýna hvor annarri rómantískan áhuga.

 Svarið er því við öllum spurningunum. Ef þú og vinur þinn eða vinkona eruð hrifin hvort af öðru og talið saman reglulega, hvort sem það er í síma, augliti til auglitis, opinberlega eða þegar aðrir sjá ekki til, þá eruð þið saman.

 Hvert er markmiðið með því að byrja með einhverjum?

 Þegar ungt fólk er að draga sig saman ætti það að hafa göfugt markmið í huga – að kynnast og komast að því hvort það vilji giftast.

 Sumir jafnaldrar þínir taka þessu ef til vill ekki jafn alvarlega. Þeim finnst kannski bara gaman að eiga mjög náinn vin af hinu kyninu án þess að vera með hjónaband í huga. Sumir líta jafnvel á slíkan vin eða vinkonu sem eins konar verðlaunagrip eða fylgihlut til að auka sjálfstraustið og sýnast fyrir öðrum.

 Slík yfirborðskennd sambönd eru þó yfirleitt skammlíf. „Mörg kærustupör hætta saman eftir eina eða tvær vikur,“ segir stelpa sem heitir Heather. „Þau líta svo á að sambönd þurfi ekki að vera varanleg, en það býr þau í raun undir skilnað frekar en hjónaband.

 Þegar þú ert með einhverjum er nokkuð ljóst að þú hefur áhrif á tilfinningar hans eða hennar. Þú verður þess vegna að vera viss um að hvatir þínar séu réttar. – Lúkas 6:31.

Ef þú byrjar með einhverjum án þess að vera með hjónaband í huga ertu eins og barn sem leikur sér með nýtt leikfang og hendir því síðan frá sér.

 Myndir þú vilja að einhver léki sér með tilfinningar þínar eins og þær væru bara eitthvert leikfang til að leika sér með í smástund en henda því svo frá sér? Að sjálfsögðu ekki. Komdu þá ekki heldur þannig fram við aðra. Í Biblíunni stendur að kærleikurinn „hegðar sér ekki ósæmilega“. – 1. Korintubréf 13:4, 5.

 Stelpa, sem heitir Chelsea, segir: „Það er stundum freistandi að hugsa að það sé í lagi að byrja með einhverjum bara til gamans en það er ekkert gaman þegar annar aðilinn tekur þessu alvarlega en hinn ekki.“

  Ráð: Til að vera betur undir það búinn að byrja með einhverjum og ganga í hjónaband skaltu lesa 2. Pétursbréf 1:5-7 og velja einn eiginleika sem þú þarft að vinna í. Eftir mánuð skaltu síðan athuga hvað þú hefur lært um þennan eiginleika og hvort þú hafir tekið framförum.

 Er ég nógu gamall til að vera á föstu?

  •    Hvað finnst þér að maður þurfi að vera gamall til að byrja með einhverjum?

  •    Spyrðu foreldra þína sömu spurningar.

 Þú og foreldrar þínir eru kannski ekki á sömu skoðun. En það gæti líka verið að þið séuð það, að þú sért einn af mörgum unglingum sem hefur ákveðið að byrja ekki með neinum fyrr en þú hefur aldur til að þekkja sjálfan þig betur.

 Danielle ákvað að gera það. Hún er 17 ára og segir: „Ef ég hugsa um hverju ég hefði leitað að í fari tilvonandi maka fyrir tveim árum hefur það breyst alveg ótrúlega mikið. Og eiginlega treysti ég mér ekki enn til að taka slíka ákvörðun. Ég ætla fyrst að byrja að hugsa um sambönd þegar ég sé að ég hef ekki breyst mikið á einu eða tveim árum.“

 Það er líka önnur ástæða fyrir því að það er skynsamlegt að bíða. Í Biblíunni er talað um ,æskublómann‘, það tímabil í lífi okkar þegar við upplifum fyrst kynhvötina og rómantískar tilfinningar geta orðið sterkar. (1. Korintubréf 7:36, New World Translation) Ef þú ert í nánu sambandi við einhvern af hinu kyninu meðan þú ert enn þá á kynþroskaskeiðinu geta ástríðurnar auðveldlega blossað upp og leitt til rangrar hegðunar.

 Að vísu skiptir þetta suma jafnaldra þína kannski ekki svo miklu máli. Margir þeirra eru jafnvel mjög áhugasamir um kynlíf. En þú þarft – og átt – að hugsa öðruvísi en þeir. (Rómverjabréfið 12:2) Auk þess erum við hvött í Biblíunni til að „forðast kynferðislegt siðleysi“. (1. Korintubréf 6:18, New International Version) Ef þú bíður þangað til að þú ert kominn yfir ,æskublómann‘ geturðu komist hjá alls kyns erfiðleikum og vandamálum. – Prédikarinn 11:10.

 Hvers vegna ætti ég ekki að byrja með einhverjum strax?

 Að verða fyrir þrýstingi til að byrja með einhverjum áður en maður er tilbúinn til þess er eins og að vera þvingaður til að taka lokapróf í námsgrein sem maður var að byrja í. Það væri auðvitað ekki sanngjarnt. Maður þarf tíma til að læra fagið og undirbúa sig til að geta tekist á við það sem kemur á prófinu.

 Það er svipað með samband við einhvern af hinu kyninu.

 Það er ekkert léttvægt mál að byrja með einhverjum. Áður en þú ert tilbúinn til að einbeita þér að einni manneskju, þarftu að gefa þér tíma til að læra mikilvægt „fag“ – að rækta góð vináttusambönd.

 Seinna þegar þú hittir réttu manneskjuna verður auðveldara fyrir þig að byggja upp sterkt samband. Þegar allt kemur til alls er farsælt hjónaband samband tveggja góðra vina.

 Þótt þú bíðir með að byrja með einhverjum heftir það ekki frelsi þitt. Þvert á móti veitir það þér meira frelsi til að ,gleðjast í æsku þinni‘. (Prédikarinn 11:9) Þú færð líka meiri tíma til að undirbúa þig með því að þroska persónuleika þinn og ekki síst þinn andlega mann. – Harmljóðin 3:27.

 Þú getur samt alveg umgengist vini af hinu kyninu. Hvernig er best að gera það? Verið saman í blönduðum hóp þar sem einhver fullorðinn hefur umsjón. Stelpa, sem heitir Tammy, segir: „Mér finnst það miklu skemmtilegra þannig. Það er gaman að eiga marga vini.“ Monica er sammála þessu. Hún segir: „Að vera saman í hóp er góð hugmynd vegna þess að þá kynnist maður mismunandi fólki.“

 Ef þú hins vegar einbeitir þér að einni manneskju of snemma máttu gera ráð fyrir að það endi með ástarsorg. Gefðu þér þess vegna nægan tíma. Notaðu þetta tímabil í lífinu til að læra hvernig maður hlúir að vináttu svo að hún endist. Ef þú seinna meir ákveður að byrja með einhverjum þá veistu betur hver þú ert og hverju þú leitar að í fari tilvonandi maka.

^ Þær meginreglur Biblíunnar, sem fjallað er um í þessari grein, eiga við bæði kynin.