Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég tekist á við áhyggjur og kvíða?

Hvernig get ég tekist á við áhyggjur og kvíða?

 Hvað veldur þér áhyggjum?

 Skoðaðu dæmin hér að neðan. Líður þér stundum svona?

 „Ég hugsa alltaf: Hvað ef ... ? Hvað ef ég lendi í bílslysi? Hvað ef flugvélin hrapar? Þeir sem hugsa skýrar velta sér ekki upp úr hlutum sem ég geri mér áhyggjur af.“ – Charles.

 „Ég er alltaf með áhyggjur. Mér líður eins og hamstri í hjóli sem hleypur hring eftir hring en kemst ekkert áfram. Ég er alltaf á fullu en kem í rauninni engu til leiðar.“ – Anna.

 „Þegar fólk segir við mig hvað ég sé heppinn að vera enn þá í skóla hugsa ég að það hefur ekki hugmynd um hve mikið álag fylgir því.“ – Daniel.

 „Ég er eins og þaninn strengur. Ég hef alltaf áhyggjur af því sem gerist næst eða því sem ég þarf að gera næst.“ – Laura.

 Staðreynd: Biblían segir að við lifum á erfiðum tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þar af leiðandi getur ungt fólk verið alveg jafn áhyggjufullt og fullorðnir.

 Eru áhyggjur alltaf til ills?

 Svarið er nei. Biblían hvetur okkur meira að segja til að vera umhugað um að þóknast þeim sem okkur er annt um. – 1. Korintubréf 7:32-34; 2. Korintubréf 11:28.

 Það er líka annað – áhyggjur geta verið mikil driffjöður. Tökum dæmi. Segjum að þú sért að fara í próf í næstu viku. Þar sem þú hefur áhyggjur af því færirðu kannski að lesa undir það í þessari viku – og það getur hjálpað þér til að fá góðar einkunnir.

 Áhyggjur í hæfilegum mæli geta líka gert þér viðvart við hættum. „Maður getur verið áhyggjufullur vegna þess að maður veit að maður er kominn út á hættulega braut og þarf að breyta um stefnu til að geta haft góða samvisku,“ segir unglingsstúlka sem heitir Serena. – Samanber Jakobsbréfið 5:14.

 Staðreynd: Áhyggjur geta verið þér til góðs þegar þær hvetja þig til að gera það sem er rétt.

 En hvað er til ráða ef áhyggjurnar verða að vítahring sem þú kemst ekki út úr?

Þegar þú ert með áhyggjur líður þér kannski eins og þú sért týndur í völundarhúsi en einhver sem er með annað sjónarhorn getur hjálpað þér að rata út.

 Dæmi: „Ég verð áhyggjufullur þegar ég hugsa um ákveðin mál og allt sem gæti gerst,“ segir Richard sem er nítján ára. „Þau hringsnúast í hausnum á mér og að lokum verð ég mjög kvíðinn.“

 Í Biblíunni stendur: „Hugarró er líkamanum líf.“ (Orðskviðirnir 14:30) Áhyggjur geta hins vegar valdið ýmsum líkamlegum óþægindum eins og höfuðverk, svima, meltingartruflunum og hjartsláttartruflunum.

 Hvað geturðu gert ef áhyggjur virðast vera þér til ills frekar en til góðs?

 Það sem þú getur gert

 •   Spyrðu þig hvort áhyggjurnar eigi rétt á sér. „Það er eitt að vera umhugað um að sinna skyldum sínum en annað að gera sér of miklar áhyggjur af hlutunum. Áhyggjum hefur stundum verið líkt við að rugga sér í ruggustól. Maður fær eitthvað að gera en kemst ekkert áfram.“ – Katherine.

   Í Biblíunni segir: „Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“ – Matteus 6:27.

   Sem sagt: Ef áhyggjur leiða ekki til lausnar bætast þær bara við vandamálið – eða verða sjálft vandamálið.

 •   Taktu einn dag í einu. „Hugsaðu málið. Á það sem þú hefur áhyggjur af eftir að skipta máli á morgun? Eftir mánuð? Eftir ár? Eftir fimm ár?“ – Anthony.

   Í Biblíunni segir: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ – Matteus 6:34.

   Sem sagt: Það hefur lítið upp á sig að hafa áhyggjur af vandamálum morgundagsins – sum þeirra verða ekki einu sinni að veruleika.

 •   Sættu þig við það sem þú getur ekki breytt. „Það sem þú getur gert er að búa þig undir aðstæður eftir bestu getu en sætta þig síðan við að þú hefur ekki stjórn á öllum aðstæðum.“ – Robert.

   Í Biblíunni segir: ,Hinir fótfráu ráða ekki hlaupinu ... né eiga hinir vitru vinsældir því að tími og tilviljun hittir þá alla fyrir.‘ – Prédikarinn 9:11.

   Sem sagt: Þú getur ekki alltaf breytt aðstæðum þínum en þú getur breytt því hvernig þú lítur á þær.

 •   Sjáðu aðstæður þínar í réttu ljósi. „Ég veit að ég verð að einbeita mér að heildarmyndinni og hafa ekki áhyggjur af smáatriðum. Ég þarf að ákveða hvernig ég vil nota krafta mína og beina orkunni að því sem mestu máli skiptir.“ – Alexis.

   Í Biblíunni segir: „Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ – Filippíbréfið 1:10.

   Sem sagt: Þeir sem sjá áhyggjur sínar í réttu ljósi verða síður gagnteknir af þeim.

 •   Talaðu við einhvern. „Þegar ég var í sjötta bekk var ég oft mjög áhyggjufull þegar ég kom heim úr skólanum og kveið fyrir næsta degi. Mamma og pabbi hlustuðu á mig þegar ég tjáði mig. Það var svo gott að þau voru til staðar fyrir mig. Ég gat treyst þeim og sagt það sem mér lá á hjarta. Það hjálpaði mér að takast á við næsta dag. – Marilyn.

   Í Biblíunni segir: „Hugsýki íþyngir hjartanu, eitt vingjarnlegt orð gleður það.“ – Orðskviðirnir 12:25.

   Sem sagt: Foreldri eða góður vinur gæti bent þér á leiðir til að draga úr áhyggjum þínum.

 •   Biddu til Guðs. „Að biðja upphátt þannig að ég heyri það sem ég segi hjálpar mér. Þannig get ég komið áhyggjum mínum frá mér í stað þess að láta þær hringsnúast í höfðinu. Bænin hjálpar mér líka að skilja að Jehóva er sterkari en allt, líka áhyggjur mínar.“ – Laura.

   Í Biblíunni segir: „Varpið allri áhyggju ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pétursbréf 5:7.

   Sem sagt: Bænin er ekki einhver hugarleikfimi. Í henni eigum við raunveruleg tjáskipti við Jehóva Guð sem lofar: „Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ – Jesaja 41:10.