Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Af hverju tekst mér alltaf að segja eitthvað vitlaust?

Af hverju tekst mér alltaf að segja eitthvað vitlaust?

„Stundum hef ég stjórn á því sem ég segi en stundum virðist eins og munnurinn tali án þess að hafa nokkra tengingu við heilann.“ – James.

„Þegar ég er stressuð tala ég án þess að hugsa og þegar ég er afslöppuð segi ég meira en ég ætti að gera. Þannig að ég klúðra þessu oftast.“ – Marie.

Í Biblíunni segir: „Tungan er ... eldur“ og „lítill neisti getur kveikt í miklum skógi“. (Jakobsbréfið 3:5, 6) Kemur það sem þú segir þér oft í vandræði? Ef svo er getur verið gagnlegt fyrir þig að lesa þessa grein.

  • Af hverju segi ég eitthvað vitlaust?

  • Að temja tunguna

  • Hvað segja jafnaldrarnir?

Af hverju segi ég eitthvað vitlaust?

Ófullkomleiki. Í Biblíunni segir: „Öll hrösum við margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn.“ (Jakobsbréfið 3:2) Vegna ófullkomleikans höfum við tilhneigingu til að hrasa, ekki bara þegar við göngum heldur líka þegar við tölum.

„Þar sem ég er með ófullkominn heila og ófullkomna tungu er sjálfsblekking að segja að ég hafi fulla stjórn á þeim.“ – Anna.

Að tala of mikið. Í Biblíunni segir: „Málæðinu fylgja yfirsjónir.“ (Orðskviðirnir 10:19) Fólk sem talar of mikið – og hlustar of lítið – eykur líkurnar á að móðga aðra með því að segja eitthvað vitlaust.

„Klárasta fólkið er ekki alltaf það sem talar mest. Jesús er vitrasti maður sem hefur nokkru sinni verið til og samt þagði hann stundum.“ – Julia.

Kaldhæðni. Í Biblíunni segir: „Vanhugsuð orð eru sem sverðalög.“ (Orðskviðirnir 12:18) Ein tegund af hugsunarlausu tali er kaldhæðni – stingandi orð sem eru ætluð til að gera lítið úr öðrum. Fólk sem er kaldhæðið segir kannski: „Ég var bara að grínast.“ En það er ekkert fyndið að niðurlægja aðra. Í Biblíunni er okkur sagt að hætta að tala illa um aðra og segja skilið við „alla mannvonsku yfirleitt“. – Efesusbréfið 4:31.

„Ég get oft verið fyndin og mér finnst gaman að fá aðra til að hlægja – það leiðir til þess að ég nota kaldhæðni sem kemur mér oft í vandræði.“ – Oksana.

Þegar þú ert búinn að segja eitthvað geturðu ekki tekið það til baka – ekkert frekar en þú getur sett tannkrem aftur í tannkremstúpu.

Að temja tunguna

Það er ekki auðvelt að temja tunguna en meginreglur Biblíunnar geta hjálpað. Líttu til dæmis á eftirfarandi:

„Hugleiðið þetta ... og verið hljóðir.“ – Sálmur 4:5.

Stundum er besta svarið ekkert svar. „Í hita leiksins líður mér oft ekki eins og eftir á,“ segir ung kona sem heitir Laura. „Þegar ég er búin að róa mig niður er ég venjulega ánægð að ég skyldi ekki hafa sagt það sem mig langaði að segja.“ Að bíða með að tala getur komið í veg fyrir að maður segi eitthvað vitlaust.

„Prófar eyrað ekki orðin og finnur gómurinn ekki bragð að matnum?“ – Jobsbók 12:11.

Þú getur sparað þér mikil vonbrigði með því að hugsa um eftirfarandi spurningar áður en þú segir það sem þú hefur í huga:

  • Er það satt? Er það vingjarnlegt? Er það nauðsynlegt? – Rómverjabréfið 14:19.

  • Hvernig liði mér ef einhver segði það sama við mig? – Matteus 7:12.

  • Sýnir það að ég virði skoðanir þess sem ég tala við? – Rómverjabréfið 12:10.

  • Er þetta staður og stund til að segja það? – Prédikarinn 3:7.

„Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf.“ – Filippíbréfið 2:3.

Þetta ráð hjálpar þér að hugsa jákvætt um aðra sem hjálpar þér síðan að hafa stjórn á því sem þú segir og að hugsa áður en þú talar. Og jafnvel þegar það er um seinan og þú ert búinn að segja eitthvað særandi hjálpar auðmýkt þér að biðjast afsökunar eins fljótt og mögulegt er. (Matteus 5:23, 24) Vertu síðan ákveðinn í að hugsa áður en þú talar.