Hvað er nauðsynlegt? Að kunna að eiga góð tjáskipti.

Tjáskipti eru mikilvægt verkfæri sem getur

  • hjálpað öðrum að skilja þig.

  • hjálpað þér að skilja af hverju þú mátt ekki gera það sem þú vilt.

Ef þú vilt að komið sé fram við þig eins og fullorðna manneskju er rökrétt að þú lærir að tjá þig á þroskaðan hátt. Hvernig geturðu gert það?

Lærðu að hafa stjórn á tilfinningunum. Góð tjáskipti útheimta sjálfstjórn. Í Biblíunni segir: „Heimskinginn eys út allri reiði sinni en vitur maður hefur stjórn á henni.“ – Orðskviðirnir 29:11.

Hvað þýðir það? Forðastu að suða, fara í fýlu, skella hurðum eða stappa niður fótum. Slík hegðun kallar sennilega á fleiri reglur – ekki meira frelsi.

Reyndu að skilja sjónarmið foreldranna. Segjum til dæmis að foreldrar þínir vilji helst ekki leyfa þér að fara í ákveðið boð. Í stað þess að rífast við þau gætirðu spurt:

„Hvað ef þroskaður og áreiðanlegur vinur kemur með mér?“

Þrátt fyrir tillögu þína er ekki víst að þau leyfi þér að fara. En ef þú skilur áhyggjur þeirra eru meiri líkur á því að þú getir komið með tillögu sem þau fallast á.

Að hlýða reglum foreldra þinna er eins og að greiða bankalán – því ábyrgari sem þú ert þeim mun meira „lánstraust“ færðu.

Sýndu að þér sé treystandi. Tökum dæmi um mann sem skuldar bankanum peninga. Ef hann greiðir afborganir af láninu á réttum tíma ávinnur hann sér traust bankans og bankinn gæti jafnvel verið fús til að lána honum meiri peninga í framtíðinni.

Þetta er svipað á heimilinu. Þú skuldar foreldrunum hlýðni þína. Ef þú veldur þeim sífelldum vonbrigðum skaltu ekki láta það koma þér á óvart þótt „lánstraustið“ dvíni eða þú missir það alveg.

Ef þú aftur á móti sýnir að hægt sé að treysta þér – í smáu sem stóru – er líklegra að foreldrarnir sýni þér meira traust í framtíðinni.