Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Skipta mannasiðir máli?

Skipta mannasiðir máli?

„Enginn opnar hurðina fyrir mig. Hvers vegna ætti ég þá að gera það fyrir aðra?“

„Höfum við ekki mikilvægari hluti til að hugsa um en að segja „takk fyrir“, „gerðu svo vel“ og „afsakið“?

„Ég þarf ekki að vera kurteis við systkini mín. Þetta er fjölskylda mín.“

Hugsar þú stundum eitthvað í þessa áttina? Ef svo er gætirðu farið á mis við gagnið sem hlýst af því að sýna góða mannasiði.

 Hvað ættirðu að vita um mannasiði?

 Ef þú lærir góða mannasiði getur það gagnast þér á eftirfarandi þrjá vegu:

 1.   Mannorð þitt. Með framkomu þinni gefurðu öðrum ákveðna mynd af sjálfum þér, annaðhvort jákvæða eða neikvæða. Ef þú ert kurteis sér fólk þig ef til vill sem þroskaðan og áreiðanlegan einstakling og kemur þannig fram við þig. En ef þú ert ókurteis dregur fólk þá ályktun að þú hugsir aðeins um sjálfan þig og þannig gætirðu misst af atvinnutækifærum og öðru sem skiptir þig máli. Biblían lýsir þessu vel: „Harðlyndur maður vinnur sér mein.“ – Orðskviðirnir 11:17.

 2.   Félagslíf þitt. Biblían segir: „Íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ (Kólossubréfið 3:14) Þetta á ekki síður við þegar vinátta á í hlut. Við löðumst að þeim sem sýna mannasiði og koma vel fram við okkur. Það vill að sjálfsögðu enginn eiga félagsskap við þann sem er hryssingslegur og fráhrindandi í framkomu.

 3.   Framkoma fólks við þig. Ung kona, sem heitir Jennifer, segir: „Ef maður kemur alltaf vel fram geta jafnvel þeir hranalegustu mildast með tímanum og orðið kurteisari við mann.“ Á hinn bóginn bregst fólk sennilega öfugt við ef maður er sjálfur ókurteis. Biblían segir: „Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.“ – Matteus 7:2.

 Niðurstaða: Á hverjum degi eigum við samskipti við annað fólk. Framkoma þín við aðra hefur áhrif á það hvernig fólk lítur á þig og kemur fram við þig. Með öðrum orðum: Mannasiðir skipta máli.

 Hvernig er hægt að bæta sig?

 1.   Skoðaðu hvernig þú stendur þig. Spyrðu þig spurninga á borð við: Tala ég við fullorðna af virðingu? Hversu oft segi ég „takk fyrir“, „gerðu svo vel“ eða „afsakið“? Er ég með hugann annars staðar þegar ég tala við fólk – jafnvel að lesa textaskilaboð eða svara þeim? Kem ég vel fram við foreldra mína og systkini eða leyfi ég mér að vera kærulaus af því að þetta er bara „fjölskylda mín“?

   Biblían segir: „Keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ – Rómverjabréfið 12:10.

 2.   Settu þér markmið. Skrifaðu niður á hvaða þremur sviðum þú gætir bætt þig. Allison, sem er 15 ára, segir til dæmis að hún þurfi að „læra að hlusta í staðinn fyrir að tala“. David, sem er 19 ára, segir að hann þurfi að hætta að senda textaskilaboð þegar hann er með fjölskyldunni eða vinum sínum. „Það er óvirðing við þá,“ segir hann. „Með því er ég í rauninni að segja að ég vilji frekar tala við einhvern annan en þá.“ Edward, sem er 17 ára, segir að hann þurfi að hætta að grípa fram í fyrir öðrum. Og Jennifer, sem vitnað var í áðan, hefur einsett sér að bæta mannasiði sína í samskiptum við eldra fólk. „Ég var vön að heilsa stuttlega og afsaka mig síðan til að ég gæti talað við vini sem eru á mínum aldri,“ segir hún. „En núna legg ég mig fram um að kynnast þeim. Þannig hafa mannasiðir mínir batnað til muna.“

   Biblían segir: „Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.

 3.   Fylgstu með framförum þínum. Í einn mánuð skaltu hugsa um þau svið þar sem þú vilt taka framförum. Taktu eftir hvernig þú talar og kemur fram við aðra. Í lok mánaðarins skaltu spyrja þig: Hvernig hef ég breyst eftir að ég fór að vinna í mannasiðum mínum? Á hvaða sviðum get ég enn bætt mig? Settu þér ný markmið til að halda áfram að taka framförum.

   Biblían segir: „Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“ – Lúkas 6:31.