Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég brugðist við kynferðislegri áreitni?

Hvernig get ég brugðist við kynferðislegri áreitni?

 Hvað er kynferðisleg áreitni?

 Kynferðisleg áreitni er allur kynferðislegur áhugi sem aðrir sýna þér en þú kærir þig ekki um. Hún getur verið snerting eða jafnvel athugasemd af kynferðislegu tagi. En stundum getur verið erfitt að þekkja mörkin á milli stríðni, daðurs og kynferðislegrar áreitni.

 Þekkir þú muninn? Taktu  áreitniprófið og þá veistu svarið.

 Því miður losnar maður ekki alltaf við kynferðislega áreitni þegar maður hættir í skóla. En ef þú lærir núna að verjast henni með sjálfsöryggi veistu hvernig þú átt að takast á við hana seinna meir á vinnustað. Og þú gætir jafnvel stöðvað einhvern sem áreitir aðra svo að hann særi ekki fleiri.

 Hvað ef ég verð fyrir kynferðislegri áreitni?

 Þú átt auðveldara með að stöðva kynferðislega áreitni ef þú kannt að bera kennsl á hana og veist hvernig þú átt að bregðast við. Veltu fyrir þér þrenns konar aðstæðum og hvernig þú myndir bregðast við þeim.

 AÐSTÆÐUR:

„Í vinnunni voru nokkrir menn, miklu eldri en ég, alltaf að segja mér hvað ég væri falleg og að þeir óskuðu þess að vera 30 árum yngri. Einn þeirra kom meira að segja aftan að mér og þefaði af hárinu mínu!“ – Tabitha, 20 ára.

 Tabitha gæti hugsað: „Hann hlýtur að hætta þessu ef ég harka bara af mér og læt sem ég taki ekki eftir honum.“

 Hvers vegna það dugir líklega ekki: Sérfræðingar segja að þegar þolendur hunsa kynferðislega áreitni haldi hún oftast áfram og aukist jafnvel.

 Prófaðu þetta frekar: Segðu þeim sem áreitir þig skýrt og greinilega að þú ætlir ekki að þola svona talsmáta eða hegðun. Taryn, sem er 22 ára, segir: „Ef einhver snertir mig á óviðeigandi hátt sný ég mér að honum og segi honum að snerta mig aldrei aftur. Það stoppar hann yfirleitt af.“ Stattu fast á þínu og gefstu ekki upp þó að áreitnin haldi áfram. Til að halda í háleit siðferðisgildi hvetur Biblían okkur til að vera ákveðin og sjálfsörugg. – Kólossubréfið 4:12.

 Hvað ef sá sem áreitir þig hótar að meiða þig? Taktu það alvarlega. Forðaðu þér eins fljótt og þú getur og leitaðu aðstoðar hjá fullorðnum einstaklingi sem þú treystir.

 AÐSTÆÐUR:

„Þegar ég var í sjötta bekk gripu tvær stelpur í mig á skólaganginum. Önnur þeirra var lesbía og hún vildi að ég færi út með sér. Þó að ég neitaði héldu þær áfram að áreita mig á hverjum degi í frímínútum. Einu sinni króuðu þær mig meira að segja af upp við vegg.“ – Victoria, 18 ára.

 Victoria hefði getað hugsað: „Ef ég segi einhverjum frá þessu verð ég stimpluð sem aumingi og kannski trúir mér enginn.“

 Hvers vegna slík hugsun hefði líklega ekki bætt neitt: Ef þú segir engum frá getur verið að sá sem áreitir þig haldi því áfram og áreiti jafnvel fleiri. – Prédikarinn 8:11.

 Prófaðu þetta frekar: Leitaðu þér hjálpar. Foreldrar þínir og kennarar geta hjálpað þér að takast á við áreitnina. En hvað geturðu gert ef þeir taka ekki mark á þér þegar þú segir þeim frá? Prófaðu þetta: Í hvert skipti sem þú verður fyrir áreitni skaltu skrifa niður allt sem gerðist. Skrifaðu hvaða dag, klukkan hvað og hvar áreitnin átti sér stað. Skrifaðu einnig hvað sá sem áreitti þig sagði. Gefðu síðan foreldri þínu eða kennara blaðið. Margir taka meira mark á skriflegri kvörtun en munnlegri.

 AÐSTÆÐUR:

„Ég var mjög hrædd við einn strák sem var í ruðningsliðinu. Hann var næstum tveir metrar á hæð og yfir 130 kíló! Hann var búinn að fá þá flugu í höfuðið að hann ætlaði að sofa hjá mér og plagaði mig nánast daglega í heilt ár. Einn daginn vorum við tvö ein í kennslustofunni og hann byrjaði að færa sig nær mér. Ég stökk á fætur og hljóp út.“ – Julieta, 18 ára.

 Julieta gæti hugsað: „Strákar eru bara svona.“

 Hvers vegna það dugir líklega ekki: Sá sem áreitir þig breytir líklega ekki hegðun sinni ef öllum finnst hún eðlileg.

 Prófaðu þetta frekar: Reyndu að brosa ekki eða hlæja til að hrista af þér áreitnina. Gerðu þeim sem áreitir þig alveg ljóst – með orðum þínum og svipbrigðum – hvað þú sættir þig við og hvað ekki.

 Hvað myndi ég gera?

 REYNSLUSAGA 1:

„Mér líkar alls ekki að vera dónaleg við fólk. Þegar strákar áreittu mig sagði ég þeim að hætta því en var samt ekki nógu ákveðin og brosti oft um leið. Þeir tóku því sem daðri.“ – Tabitha.

  •   Hvað hefðir þú gert í hennar sporum og hvers vegna?

  •   Hvers vegna gæti sá sem áreitir þig haldið að þú sért að daðra?

 REYNSLUSAGA 2:

„Þetta byrjaði allt á nokkrum dónalegum athugasemdum frá strákum í íþróttatíma. Ég hunsaði þær í nokkrar vikur en ástandið varð bara verra og verra. Þeir fóru að setjast hjá mér og halda utan um mig. Ég ýtti þeim í burtu en þeir héldu áfram. Að lokum rétti einn strákurinn mér miða með niðurlægjandi skilaboðum. Ég lét kennarann fá miðann. Strákurinn var rekinn úr skólanum um tíma. Ég áttaði mig á því að ég hefði átt að fara til kennarans um leið og áreitnin byrjaði.“ – Sabina.

  •   Hvers vegna heldurðu að Sabina hafi ekki farið fyrr til kennarans? Var það rétt hjá henni? Skýrðu svarið?

 REYNSLUSAGA 3:

„Strákur vatt sér upp að Greg, bróður mínum, inni á klósetti. Hann kom þétt upp að honum og sagði: ‚Kysstu mig.‘ Greg neitaði en strákurinn fór ekki fyrr en Greg ýtti honum í burtu.“ – Suzanne.

  •   Var þetta kynferðisleg áreitni? Skýrðu svarið.

  •   Hvers vegna heldurðu að sumir strákar veigri sér við því að segja frá þegar aðrir strákar áreita þá kynferðislega?

  •   Brást Greg rétt við? Hvað hefðir þú gert í hans sporum?