Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Vottar Jehóva

íslenska

UNGT FÓLK SPYR

Hvers vegna eigum við að forðast klám?

Hvers vegna eigum við að forðast klám?

 Hefur þú það sem til þarf?

Ef þú notar Netið máttu búast við því fyrr eða síðar að rekast á einhvers konar klám. „Maður þarf ekki lengur að leita það uppi. Það leitar þig uppi,“ segir Hayley sem er 17 ára.

Klám getur jafnvel freistað þeirra sem eru ákveðnir í að forðast það. „Ég hugsaði með mér að ég myndi aldrei hleypa klámi að mér. En ég gerði það,“ segir Greg sem er 18 ára. „Enginn getur sagt: Þetta kemur aldrei fyrir mig.“

Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að nálgast klám og núna. Og síðan kynferðisleg smáskilaboð fóru að skjóta upp kollinum eru margir unglingar farnir að framleiða og dreifa eigin klámi.

Niðurstaða: Það er meiri áskorun fyrir þig að forðast þessa hluti en það var fyrir foreldra þína og foreldra þeirra þegar þeir voru ungir. Spurningin er hvort þú sért nógu sterkur á svellinu til að hafna klámi. – Sálmur 97:10.

Svarið er já – ef þú ætlar þér það. En til að byrja með þarftu að vera sannfærður um að klám sé slæmt. Skoðum í þessu samhengi nokkrar sögusagnir og staðreyndir.

 Sögusagnir og staðreyndir

Sögusögn: Klám gerir mér ekkert illt.

Staðreynd: Klám hefur jafn skaðleg áhrif á hugann og reykingar á lungun. Það óhreinkar þig. Það var ætlun Guðs að kynlíf ætti að tengja tvær manneskjur sterkum og varanlegum böndum. En klám lítilsvirðir þessa ráðstöfun. (1. Mósebók 2:24) Með tímanum gætirðu jafnvel glatað hæfninni til að greina milli þess sem er rétt og rangt. Til dæmis segja sérfræðingar að karlmenn, sem horfa reglulega á klám, séu líklegri en aðrir til að verða tilfinningalausir gagnvart ofbeldi gegn konum.

Biblían lýsir mönnum sem „eru tilfinningalausir“. (Efesusbréfið 4:19) Samviska þeirra er orðin ónæm þannig að hún bítur þá ekki lengur þegar þeir gera eitthvað rangt.

Sögusögn: Klám getur frætt mann um kynlíf.

Staðreynd: Klám kennir manni að vera gráðugur. Maður fær afskræmda mynd fólki og fer að líta á það eins og hluti sem þjóna aðeins þeim tilgangi að fullnægja eigingjörnum löngunum. Það kemur ekki á óvart að samkvæmt könnun eru þeir sem horfa oft á klám ólíklegri til að geta notið þess að stunda kynlíf í hjónabandi.

Biblían segir að kristnir menn eigi að forðast „hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd“ – en klám ýtir undir allt þetta. – Kólossubréfið 3:5.

Sögusögn: Þeir sem eru á móti klámi eru bara heftir og teprulegir gagnvart kynlífi.

Staðreynd: Fólk, sem er á móti klámi, hefur þroskað viðhorf til kynlífs. Það skilur að kynlíf er gjöf frá Guði til að karl og kona, sem hafa gefið sig hvort öðru í hjónaband, geti styrkt tengslin sín á milli. Þegar fólk hugsar þannig er líklegra að það geti notið ánægjulegs kynlífs í hjónabandi.

Í Biblíunni er rætt hispurslaust um kynlíf. Hún segir til dæmis við eiginmenn: „Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar ... ást hennar fjötri þig ævinlega.“ – Orðskviðirnir 5:18, 19.

 Hvernig forðast maður klám?

Hvað er til ráða ef þér finnst þú ekki geta staðist freistinguna að horfa á klám? Byrjaðu á því að gera vinnublaðið „Hvernig forðast maður klám?“

Ekki efast um að þú getir staðist freistinguna að horfa á klám. Þú getur líka lært að hætta að horfa á klám ef þú ert farinn að gera það. Það er til mikils að vinna.

Calvin viðurkennir að hafa lagt það í vana sinn að horfa á klám þegar hann var 13 ára. Hann segir: „Ég vissi að það var rangt en ég gat bara ekki staðist freistinguna að horfa á það. Eftir á leið mér alltaf hræðilega. Að lokum komst pabbi að þessu – og í hreinskilni sagt var ég feginn. Loksins gat ég fengið þá hjálp sem ég þurfti á að halda.“

Calvin hefur lært að forðast klám. Hann segir: „Það voru mikil mistök að byrja að horfa á klám. Ég finn enn þá fyrir afleiðingunum því að myndirnar sækja enn á hugann. Af og til finnst mér líka freistandi að ímynda mér hvernig það væri að horfa á klám aftur. En þá hugsa ég um framtíðina, hve ánægjuleg, hrein og björt hún er þegar ég geri það sem Jehóva vill.“