Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Vottar Jehóva

íslenska

UNGT FÓLK SPYR

Hvers vegna ættirðu að læra annað tungumál?

Hvers vegna ættirðu að læra annað tungumál?

Að læra annað tungumál getur reynt á sjálfsaga og auðmýkt. Er það erfiðisins virði? Margt ungt fólk myndi segja . Í þessari grein er útskýrt hvers vegna ungt fólk lærir annað tungumál.

 Hvers vegna ættirðu að gera það?

Margir læra annað tungumál af því að þess er krafist í skólanum. Aðrir eiga sjálfir frumkvæði að því. Tökum dæmi:

  • Anna, ung kona í Ástralíu, ákvað að læra lettnesku – móðurmál mömmu sinnar. „Fjölskyldan ætlar í ferðalag til Lettlands og þá langar mig til að geta haft samskipti við ættingja mína,“ segir Anna.

  • Gina, sem er vottur Jehóva frá Bandaríkjunum, lærði bandarískt táknmál (ASL) og flutti til Belís til að eiga meiri þátt í að boða trúna. Hún segir: „Heyrnarlausir geta kannski bara haft samskipti við örfáa einstaklinga. Þeir kunna mjög vel að meta það þegar ég segi að ég hafi lært táknmál, til að geta kennt þeim boðskap Biblíunnar á þeirra tungumáli.“

Vissir þú? Því var spáð í Biblíunni að fagnaðarerindið um Guðsríki myndi verða boðað fólki af „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“. (Opinberunarbókin 14:6) Þessi spádómur uppfyllist þegar margt ungt fólk á meðal votta Jehóva lærir annað tungumál til að eiga meiri þátt í að boða trúna í heimalandi sínu eða annars staðar.

 Hvaða áskoranir fylgja því?

Það er ekki auðvelt að læra nýtt tungumál. Unglingsstúlka sem heitir Corrina segir: „Ég hélt að það fæli bara í sér að læra ný orð, en ég komst að því að það felur líka í sér að læra um nýja menningu og ný viðhorf. Það tekur greinilega tíma að læra tungumál.“

Það kostar líka auðmýkt „Þú þarft að geta hlegið að sjálfum þér,“ segir James, ungur maður sem lærði spænsku, „því þú gerir mörg mistök. En það er partur af því að læra.“

Kjarni málsins: Ef þú getur sætt þig við bakslag og einstaka vandræðaleg mistök ertu líklegri til að ná árangri í að læra annað tungumál.

Gott ráð: Ekki örvænta þótt aðrir virðist taka hraðari framförum en þú. Biblían segir: „En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig en ekki í samanburði við aðra“ – Galatabréfið 6:4.

 Hver er ávinningurinn?

Ávinningurinn af því að læra annað tungumál er margs konar. Unglingsstúlka sem heitir Olivia segir til dæmis: „Þeir sem læra annað tungumál kynnast fleirum og eignast nýja vini.“

Unglingsstúlka sem heitir Mary uppgötvaði að hún fékk meira sjálfstraust þegar hún lærði annað tungumál. „Ég á erfitt með að vera ánægð með það sem ég geri,“ segir hún, „en núna er ég að læra annað tungumál og finnst spennandi í hvert sinn sem ég læri nýtt orð. Ég er sáttari við sjálfa mig“.

Gina, sem áður var minnst á, hefur meiri gleði af boðuninni eftir að hún fór að kenna fólki sannindi Biblíunnar á táknmáli. Hún segir: „Að sjá andlit fólks ljóma þegar ég tala við það á táknmáli er mesta umbunin.“

Kjarni málsins: Að læra annað tungumál getur hjálpað þér að eignast nýja vini, fá meira sjálfstraust og gera þjónustu þína innihaldsríkari. Það er mikilvæg leið til að ná til fólks „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“ með fagnaðarerindið. – Opinberunarbókin 7:9.