Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég komið í veg fyrir útbruna?

Hvernig get ég komið í veg fyrir útbruna?

 Ert þú í hættu að brenna út? Ef svo er gæti þessi grein hjálpað þér.

 Hvers vegna gerist það?

 •   Of mikið álag. „Okkur er sagt að bæta okkur á öllum sviðum lífsins, verða betri, setja okkur hærri markmið og ná meiri árangri. Það er erfitt að vera stöðugt undir svona þrýstingi,“ segir ung kona sem heitir Julie.

 •   Tæknin. Snjallsímar, spjaldtölvur og önnur tæki gera það að verkum að við erum „sítengd“ og það er hægt að ná í okkur allan sólarhringinn. Það eitt getur valdið streitu og útbruna með tímanum.

 •   Svefnleysi. „Margt ungt fólk vaknar snemma og vakir fram eftir á kvöldin til að stunda skóla, vinnu og afþreyingu en lendir í vítahring,“ segir ung kona sem heitir Miranda. Slíkt lífsmynstur leiðir oft til útbruna.

 Hvers vegna skiptir það máli?

 Vinnusömu fólki er hrósað í Biblíunni. (Orðskviðirnir 6:6-8; Rómverjabréfið 12:11) Hins vegar mælir hún ekki með að fólk vinni svo mikið að það bitni á öllu öðru í lífinu – þar á meðal heilsunni.

 „Eitt sinn áttaði ég mig á því að ég hafði ekkert borðað í heilan dag því ég var svo niðursokkin í öll verkefnin sem ég hafði tekið að mér. Ég sá að það er ekki gott að vera of ákafur að taka að sér verkefni – á kostnað heilsunnar og hamingjunnar.“ – Ashley.

 Það er ekki að ástæðulausu sem Biblían segir: „Lifandi hundur er betri en dautt ljón.“ (Prédikarinn 9:4) Ef þú pínir þig áfram gæti þér fundist þú ljónsterkur – í það minnsta um tíma. En ef þú brennur út getur það haft mjög slæm áhrif á heilsuna.

 Hvað geturðu gert?

 •   Lærðu að segja nei. Biblían segir: „Hjá hinum hógværu er viska.“ (Orðskviðirnir 11:2) Hógvært fólk þekkir takmörk sín og tekur ekki meira að sér en það ræður við.

   „Þeir sem geta ekki sagt nei eru líklegir til að brenna út. Þeir taka að sér öll verkefni sem þeim standa til boða. Þeir sýna ekki hógværð. Og fyrr eða síðar brenna þeir út.“ – Jordan.

 •   Fáðu næga hvíld. Biblían segir: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:6) Svefninn hefur verið kallaður „næring fyrir heilann“ en flestir unglingar fá ekki átta til tíu tíma svefn eins og þeir þurfa.

   „Þegar það var brjálað að gera hjá mér fékk ég yfirleitt ekki nægan svefn. En stundum væri nóg fyrir mig að fá klukkutíma lengri svefn til að auka afköstin og bæta skapið næsta dag.“ – Brooklyn.

 •   Vertu skipulagður. Biblían segir: „Áform hins iðjusama færa arð.“ (Orðskviðirnir 21:5) Það kemur þér að góðum notum í lífinu að kunna að skipuleggja tíma þinn og verkefni.

   „Ef maður notar dagbók til að skipuleggja sig getur maður losnað við mikið af streitunni sem maður skapar sér sjálfur. Með útskrifaða áætlun er auðveldara að koma auga á hvar hægt er að hliðra til og forðast þannig útbruna.“ – Vanessa.