Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég vanið mig af því að slá hlutunum á frest?

Hvernig get ég vanið mig af því að slá hlutunum á frest?

Dregurðu alltaf fram á síðustu stundu að vinna heimavinnuna eða klára skylduverkin? Ertu orðinn þreyttur á því? Þá er kominn tími til að þú venjir þig af því. Þessi grein getur hjálpað þér að hætta að draga hlutina of lengi, jafnvel þegar ...

 Taktu próf þegar þú hefur lokið við að lesa greinina.

 Í Biblíunni er talað um óæskilegar afleiðingar þess að fresta hlutunum. Þar segir: „Sá sem sífellt gáir að vindinum sáir ekki og sá sem sífellt horfir á skýin uppsker ekki.“ – Prédikarinn 11:4.

 Hvers vegna getur verið freistandi að slá hlutunum á frest og hvað geturðu gert til að venja þig af því?

 Verkið virðist óyfirstíganlegt

 Sum verkefni eru bara svo yfirþyrmandi að það er auðveldast að fresta þeim. En það eru til betri aðferðir.

  •   Skiptu verkefninu niður í smærri einingar. „Þótt ég hafi dregist langt aftur úr með verkefni reyni ég að vinna það upp með því að taka fyrir eitt í einu,“ segir Melissa.

  •   Byrjaðu strax. „Byrjaðu á verkefninu um leið og þú færð það, þótt ekki sé nema að bæta því við á vinnulistann eða punkta niður nokkrar hugmyndir áður en þú gleymir þeim.“ – Vera.

  •   Biddu um aðstoð. Foreldrar þínir og kennarar hafa mjög líklega staðið frammi fyrir svipaðri áskorun. Getur reynsla þeirra nýst þér? Þeir geta kannski hjálpað þér að koma skipulagi á hugmyndir þínar og gera áætlun.

 Tillaga:Gerðu áætlun. Að vísu þýðir það að maður þarf að vera skipulagður og ákveðinn í að fylgja henni eftir. En það virkar – þú kemur öllu í verk á réttum tíma.“ – Abbey.

 Ekkert drífur þig áfram

 Mjög oft fáum við verkefni sem okkur finnst hundleiðinlegt. Hvað er hægt að gera ef manni finnst verkefnið alls ekkert spennandi? Prófaðu þetta:

  •   Hugsaðu um kostina við að koma verkinu fljótt frá. Hugsaðu til dæmis um hvað þér á eftir að líða vel þegar verkinu er lokið. „Það er frábær tilfinning þegar ég næ að ljúka einhverju á réttum tíma eða er á undan áætlun og get loksins slakað á,“ segir Amy.

  •   Minntu sjálfan þig á afleiðingarnar. Þegar þú skýtur hlutunum á frest finnurðu fyrir meira álagi og minni líkur eru á að þú náir settu marki. Biblían segir: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ – Galatabréfið 6:7.

  •   Ímyndaðu þér eindagann fyrr en hann er. „Mér finnst gott að ímynda mér að eindagi verkefnis sé einum eða tveimur dögum fyrr en hann raunverulega er,“ segir Alicia. „Þá hef ég tíma til að renna yfir það og á einn eða tvo daga til góða.“

 Tillaga: „Þetta er allt spurning um viðhorf. Segðu við sjálfan þig að þú ætlir að gera það sem gera þarf og að ekkert muni stöðva þig. Þegar ég hugsa þannig ganga hlutirnir upp.“ – Alexis.

 Þú hefur allt of mikið að gera

 „Ég fæ oft að heyra að ég sé svo mikill trassi,“ segir Nathan, „en það er ósanngjarnt. Fólk hefur ekki hugmynd um hvað ég hef mikið að gera.“ Hefurðu upplifað eitthvað svipað? Þá geturðu prófað tillögurnar hér að neðan.

  •   Kláraðu einföldu verkin fyrst. „Einhvern tíma var mér sagt að taki eitthvað innan við fimm mínútur ætti maður að ljúka því strax,“ segir Amber. „Þetta á til dæmis við um að taka til í herberginu, hengja upp fötin, vaska upp og hringja eitt símtal.“

  •   Forgangsraðaðu. Biblían segir: „Metið þá hluti rétt sem máli skipta.“ (Filippíbréfið 1:10) Hvernig geturðu fylgt þessu dagsdaglega? „Ég held lista yfir öll verkefni mín og skrifa hjá mér hvenær ég á að vera búin að klára þau.“ segir Anna. „Mikilvægast finnst mér þó að skrifa niður fyrir hvert verkefni hvenær ég ætla að vinna það og ljúka því.“

 Hljómar þetta heftandi? Reyndu að sjá þetta á þennan hátt: Þegar þú gerir tímaáætlun stjórnar þú tímanum í staðinn fyrir að leyfa tímanum að stjórna þér. Og það dregur úr álagi. „Mér finnst gott að hafa áætlun því að það dregur úr kvíða og gefur mér góða yfirsýn yfir verkefni mín,“ segir Kelly.

  •   Komdu í veg fyrir truflanir. „Þegar ég þarf að vinna ákveðið verkefni læt ég alla heima vita hvenær ég ætla að byrja á því,“ segir Jennifer. „Ef þau vilja að ég geri eitthvað bið ég þau um að láta mig vita áður en ég byrja á verkefninu. Ég slekk líka á símanum og læt tölvupóstinn ekki trufla mig.“

 Tillaga: „Það sem þú átt að gera hverfur ekki fyrr en þú ert búinn að klára það. Í staðinn fyrir að hafa það hangandi yfir þér skaltu drífa það af. Síðan geturðu slappað af það sem eftir er dagsins.“ – Jordan.