UNGT FÓLK SPYR
Hvernig getur maður hætt að vera svona dapur?
„Þegar öðrum líður illa er ég til staðar til að hjálpa þeim með vandamál sín og hughreysta þá. En það sem fæstir vita er að þegar ég kem heim fer ég inn í herbergið mitt og græt.“ – Kellie.
„Þegar ég er niðurdreginn einangra ég mig. Ef mér er boðið eitthvert finn ég afsökun til að þurfa ekki að fara. Ég er duglegur að fela fyrir fjölskyldu minni hvernig mér líður. Þau halda að mér líði bara vel.“ – Rick.
Hefurðu einhvern tíma hugsað svipað og Kellie eða Rick? Ef svo er skaltu ekki vera fljótur að draga þá ályktun að það sé eitthvað að þér. Allir verða daprir af og til. Biblían segir jafnvel frá dyggum þjónum Guðs sem börðust við slíkar tilfinningar. – 1. Samúelsbók 1:6-8; Sálmur 35:14.
Stundum veistu af hverju þú ert leiður en stundum hefurðu enga hugmynd um það. „Þegar maður er dapur er það ekki endilega út af aðstæðum sem íþyngja manni,“ segir Anna sem er 19 ára. „Depurð getur hellst yfir mann hvenær sem er, jafnvel þegar allt leikur í lyndi. Það er ótrúlegt en satt.“
Hvað er til ráða ef depurðin nær yfirhöndinni? Það er hægt að gera ýmislegt hver svo sem ástæðan er, og jafnvel þegar það virðist engin ástæða til að vera dapur. Prófaðu eftirfarandi tillögur:
Talaðu um tilfinningar þínar. Þegar Job leið sem verst sagðist hann ætla að „tala af bitrum huga“. – Jobsbók 10:1.
Kellie: Það er ótrúlegur léttir að geta talað við einhvern. Loksins veit einhver hvað ég er að ganga í gegnum. Og hann getur dregið mig upp úr hyldýpinu. Loksins er mér borgið!
Skrifaðu um tilfinningar þínar. Þegar dregur fyrir sólu innra með manni getur verið gott ráð að reyna að skrifa hugsanir sínar á blað. Davíð tjáði stundum djúpa hryggð í sálmunum sem honum var innblásið að yrkja. (Sálmur 6:7) Að skrifa um slíkar tilfinningar getur hjálpað þér að hugsa skýrt og ,varðveita visku‘. – Orðskviðirnir 3:21.
Heather: Þegar ég skrifa finnst mér auðveldara að koma skipulagi á þær ruglingslegu hugsanir sem depurðin veldur. Þegar maður getur tjáð tilfinningar sínar og skilið þær er depurðin ekki eins yfirþyrmandi.
Leitaðu til Guðs. Biblían segir að ef maður talar við Guð um áhyggjur sínar muni ,friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi varðveita hjarta manns og hugsanir‘. – Filippíbréfið 4:6, 7.
Esther: Ég reyndi að skilja af hverju mér leið svona illa en ég gat það ekki. Ég bað Jehóva um að hjálpa mér að vera glöð. Ég var orðin svo leið á að vera niðurdregin út af engu. Ég komst loksins út úr vítahringnum. Maður má aldrei að vanmeta mátt bænarinnar.
Með aðstoð og viðleitni geturðu komist upp úr hyldýpinu.
Tillaga: Lestu Sálm 139:23, 24. Þar færðu hugmyndir um hvernig þú getir beðið til Jehóva. Úthelltu hjarta þínu og biddu hann um að hjálpa þér að komast að rótum vandans.
Auk tillaganna hér að ofan er orð Guðs, Biblían, dýrmætur sjóður sem þú getur sótt kraft í. Það getur haft jákvæð áhrif á tilfinningar þínar ef þú fyllir hugann af uppbyggilegum hugsunum sem þú finnur í frásögum Biblíunnar. – Sálmur 1:1-3.
Þegar depurðin hverfur ekki
„Suma morgna vil ég helst bara vera áfram í rúminu og þurfa ekki að fara á fætur til að takast á við enn einn tilgangslausan dag,“ segir Ryan. Ryan þjáist af alvarlegu þunglyndi og hann er ekki einn um það. Rannsóknir gefa til kynna að um 1 af hverjum 4 unglingum þjáist af þunglyndi af einhverju tagi áður en hann nær fullorðinsaldri.
Hvernig er hægt að komast að því hvort maður eigi við þunglyndi að stríða? Nokkur einkenni eru áberandi breytingar á skapi og hegðun, félagsleg einangrun, dvínandi áhugi á nánast öllu, breyttar matar- og svefnvenjur, ástæðulaus sektarkennd og djúpstæð minnimáttarkennd.
Flestir þurfa að takast á við eitthvað af þessu inn á milli. En ef þú finnur fyrir slíkum einkennum í meira en hálfan mánuð væri kannski gott að þú talir við foreldra þína um að fara til læknis. Læknir getur komist að því hvort depurðin eigi sér líffræðilega orsök.
Ef þú ert með alvarlegt þunglyndi er það ekkert til að skammast sín fyrir. Mörgum hefur farið að líða betur eftir að hafa fengið meðferð við þunglyndi. Þeim hefur jafnvel ekki liðið eins vel í langan tíma. Hvort sem depurðin tengist þunglyndi eða ekki er gott að muna eftir hughreystingunni í Sálmi 34:19. Þar segir að Jehóva sé „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“