Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvað á ég að gera þegar mér verða á mistök?

Hvað á ég að gera þegar mér verða á mistök?

 Hvað hefðir þú gert?

 Lestu um það sem kom fyrir Karinu og ímyndaðu þér að það hafi komið fyrir þig. Hvað hefðir þú gert í hennar sporum?

 Karina: „Ég keyrði of hratt á leiðinni í skólann. Löggan stoppaði mig og ég fékk sekt. Þetta fór alveg með mig. Ég sagði mömmu frá því og hún sagði að ég þyrfti að tala við pabba – sem ég vildi alls ekki gera.“

  Hvað hefðir þú gert?

 1.  Valkostur A: Þagað um það og vonað að pabbi kæmist aldrei að því.

 2.  Valkostur B: Sagt pabba nákvæmlega hvað gerðist.

 Það hefði getað verið freistandi að velja A. Mamma þín hefði alveg getað haldið að þú hafir farið beint til pabba þíns og sagt honum frá. En það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að maður ætti að viðurkenna mistök sín, hvort heldur um er að ræða sekt, sem maður hefur fengið, eða eitthvað annað.

 Þrjár ástæður til að viðurkenna mistök

 1.  1. Það er rétt að gera það. Biblían lýsir hvers vegna kristnir menn reyna að vera heiðarlegir og segir að þeir ,vilji í öllum greinum breyta vel‘. – Hebreabréfið 13:18.

   „Ég hef lagt mig mikið fram um að vera heiðarleg og taka ábyrgð á því sem ég geri. Ég reyni að viðurkenna mistök mín um leið og ég geri þau.“ – Alexis.

 2.  2. Fólk er tilbúnara til að fyrirgefa þeim sem játa mistök sín. Í Biblíunni segir: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.“ – Orðskviðirnir 28:13.

   „Maður þarf að vera hugrakkur til að játa mistök sín en þannig ávinnur maður sér traust annarra. Þeir sjá að maður er heiðarlegur. Þegar maður játar mistök kemur eitthvað gott úr því sem annars var neikvætt.“ – Richard.

 3.  3. Mikilvægasta ástæðan er að það gleður Jehóva. Í Biblíunni segir: „Andstyggð er sá Drottni sem afvega fer en ráðvandir menn eru alúðarvinir hans.“ – Orðskviðirnir 3:32.

   „Mér varð eitt sinn alvarlega á og þá gerði ég mér grein fyrir að ég þyrfti að viðurkenna það og segja frá. Jehóva gæti aldrei blessað mig ef ég hunsaði leiðbeiningar hans.“ – Rachel.

 Hvað gerði Karina eftir allt saman? Hún reyndi að fela fyrir pabba sínum að hafa fengið sekt. En henni tókst ekki að fela mistök sín endalaust. Karina segir: „Um ári síðar var pabbi að skoða yfirlit yfir tryggingarnar okkar og tók þá eftir sektinni fyrir hraðakstur sem var á mínu nafni. Ég fékk sko alveg að heyra það. Mamma varð líka reið út í mig fyrir að hafa ekki hlýtt sér.“

 Niðurstaða: Karina segir: „Maður bætir bara gráu ofan á svart með því að reyna að fela mistök sín. Fyrr eða síðar þarf maður að gjalda fyrir þau.“

 Hvernig geturðu lært af mistökum þínum?

 Öllum verða á mistök. (Rómverjabréfið 3:23; 1. Jóhannesarbréf 1:8) En það er merki um auðmýkt og þroska að viðurkenna þau – og gera það strax.

 Næsta skref er að læra af mistökunum. Því miður gengur sumum unglingum illa að gera það. Kannski hugsa þeir eins og Priscilla, 14 ára stelpa, hugsaði einu sinni. Hún segir: „Ég varð svo niðurdregin þegar mér varð eitthvað á. Sjálfsmatið var lélegt þannig að mistökin lágu eins og þungt farg á mér sem ég gat engan veginn borið. Það var yfirþyrmandi og mér fannst ég vera alveg glötuð.“

 Líður þér stundum þannig? Hugsaðu þá um þetta: Að velta sér upp úr gömlum mistökum er eins og að stara í baksýnisspegilinn þegar maður er að keyra. Að einblína á fortíðina vekur bara þá tilfinningu að maður sé einskis virði og dregur úr manni allan kraft til að takast á við það sem er fram undan.

 Væri ekki betra að vera aðeins sanngjarnari í eigin garð?

 „Hugsaðu um mistök þín til að læra af þeim og endurtaka þau ekki. Veltu þér ekki upp úr þeim þannig að það dragi þig niður.“ – Elliot.

 „Ég reyni að líta á mistök sem tækifæri til að læra. Í hvert skipti sem mér verður á hugsa ég hvernig ég geti nýtt mér þessa reynslu til að bæta mig og takast öðruvísi á við svipaðar aðstæður. Það er alltaf betra að taka þann pól í hæðina því að það hjálpar manni að þroskast.“ – Vera.