Hoppa beint í efnið

Hvernig get ég bætt einkunnirnar?

Hvernig get ég bætt einkunnirnar?

Það sem þú getur gert

Hugsaðu jákvætt. Ímyndaðu þér ekki að þú sért ófær um að bæta þig. Það er bara ávísun á lélegar einkunnir. Þegar neikvæðar hugsanir sækja á þig og þú efast um getu þína skaltu ýta þeim frá þér og hugsa jákvætt. Einu sinni var fundið að því að Páll postuli væri ekki nógu mælskur (hugsanlega átti aðfinnslan ekki rétt á sér). Hann svaraði þá: „Þótt mig bresti mælsku brestur mig samt ekki þekkingu.“ (2. Korintubréf 10:10; 11:6) Páll var meðvitaður um veikleika sína en hann þekkti líka styrkleika sína. Hvað um þig? Hverjir eru styrkleikar þínir? Ef þér dettur ekkert í hug gætirðu kannski spurt einhvern fullorðinn sem þú treystir. Slíkur vinur getur hjálpað þér að koma auga á styrkleika þína og nýta þá sem best.

Tileinkaðu þér góðar námsvenjur. Það er ekki hægt að stytta sér leið til að ná árangri í skóla. Fyrr eða síðar þarftu að setjast niður og læra. Sú hugmynd er kannski ekki mjög spennandi en nám er gagnlegt. Og ef þú leggur þig svolítið fram gæti þér jafnvel fundist það skemmtilegt. Til að þú getir tileinkað þér góðar námsvenjur þarftu þó að skipuleggja tíma þinn. Mundu að námið ætti að hafa forgang. Biblían segir að vísu: „Að hlæja hefur sinn tíma“ og „að dansa hefur sinn tíma“. (Prédikarinn 3:1, 4; 11:9) Eins og flest ungt fólk viltu sjálfsagt hafa einhvern tíma til afþreyingar. En Prédikarinn 11:4 gefur þessa viðvörun: „Sá sem sífellt gáir að vindinum sáir ekki og sá sem sífellt horfir á skýin uppsker ekki.“ Hver er lærdómurinn? Ekki fresta hlutunum. Þá kemstu ekki yfir að gera það sem er mikilvægt. Lærðu fyrst og skemmtu þér síðan. Hafðu ekki áhyggjur, þú getur fundið tíma fyrir bæði.

Á sama hátt og lyftingar geta byggt upp vöðva, geta góðar námsvenjur bætt árangur þinn í skólanum.