Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Er ég tilbúinn að flytja að heiman?

Er ég tilbúinn að flytja að heiman?

Guð vill að unglingar vaxi úr grasi og flytji síðan frá foreldrum sínum og stofni sína eigin fjölskyldu. (1. Mósebók 2:23, 24; Markús 10:7, 8) En hvernig er hægt að vera viss um að maður sé alveg tilbúinn að flytja að heiman? Veltu fyrir þér þremur spurningum.

 Af hverju vil ég flytja að heiman?

Skoðaðu listann hér fyrir neðan. Spyrðu þig: „Hverjar eru aðalástæðurnar fyrir því að ég vil flytja að heiman?“

  • Forðast vandamál heima fyrir

  • Öðlast meira frelsi

  • Vaxa í áliti vina minna

  • Hjálpa vini sem vantar meðleigjanda

  • Vinna sjálfboðavinnu annars staðar

  • Afla mér reynslu

  • Minnka útgjöld foreldra minna

  • Annað

Ástæðurnar sem eru taldar upp hérna eru ekki endilega slæmar. Spurningin er bara: Af hverju viltu flytja að heiman? Ef þú flytur til dæmis bara til að losna undan hömlum foreldra þinna áttu sennilega eftir að verða fyrir vonbrigðum.

Danielle, sem flutti að heiman um tíma þegar hún var tvítug, lærði mikið af þeirri reynslu. Hún segir: „Við þurfum öll að búa við einhvers konar hömlur. Þegar maður þarft að sjá um sig sjálfur getur vinnan eða lítil fjárráð takmarkað það sem maður getur gert.“ Ekki láta aðra þrýsta á þig að taka ákvörðun um að flytja að heiman. – Orðskviðirnir 29:20.

 Er ég tilbúinn?

Að flytja að heiman er eins og að fara í gönguferð í óbyggðum – þú þarft að læra að bjarga þér áður en þú leggur land undir fót.

Að flytja að heiman er eins og gönguferð í óbyggðum. Myndirðu þvælast um fjöll og firnindi án þess að kunna að kveikja eld, elda mat eða fylgja landakorti? Sennilega ekki. En samt flytur margt ungt fólk að heiman illa í stakk búið til að sjá um heimili.

Hinn vitri Salómon konungur sagði: „Hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ (Orðskviðirnir 14:15) Til að hjálpa þér að taka ákvörðun um hvort þú sért tilbúinn til að standa á eigin fótum skaltu hugsa um þetta:

Eigin fjármál: „Ég hef aldrei þurft að sjá um eigin útgjöld“, segir Serena sem er 19 ára. „Ég er hrædd við að flytja að heiman og þurfa að passa upp á peningana sjálf.“ Hvernig geturðu lært að sjá um eigin fjármál?

Orðskviður í Biblíunni segir: „Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn.“ (Orðskviðirnir 1:5) Hvernig væri að spyrja foreldra þína hvað þau myndu áætla að það kosti á viku að borga leigu eða af láni, kaupa í matinn, reka bíl eða borga annan ferðakostnað. Biddu síðan foreldra þína um að kenna þér að skipuleggja fjármál þín og borga reikninga.

Að hugsa um heimili: Brian, sem er 17 ára, hefur mestar áhyggjur af því að þurfa að þvo þvottinn sinn sjálfur þegar hann fer að heiman. Hvernig getur maður vitað hvort maður sé tilbúinn að standa á eigin fótum? Aron er 20 ára og gefur þetta ráð: „Prófaðu að hugsa um allt sjálfur í eina viku, eins og þú myndir gera ef þú værir fluttur. Borðaðu bara mat sem þú matreiðir sjálfur, kaupir sjálfur út í búð og borgar fyrir með peningum sem þú hefur sjálfur aflað. Vertu í fötum sem þú hefur þvegið og straujað. Þrífðu sjálfur í kring um þig. Og reyndu að komast þangað sem þú þarft að fara, án þess að biðja foreldra þína um að sækja þig eða skutla þér.“ Ef þú fylgir þessum ábendingum lærirðu tvennt: (1) Þú lærir til verka og (2) þú lærir að meta betur það sem foreldrar þínir leggja á sig.

Félagslegi þátturinn: Semur þér vel við foreldra þína og systkini? Ef svo er ekki gætirðu hugsað sem svo að lífið yrði auðveldara ef þú leigðir með vini. En taktu eftir því hvað Eva segir en hún er 18 ára: „Tvær vinkonur mínar fóru að leigja saman. Þær voru bestu vinkonur áður en þær fóru að leigja saman. En þær gátu ekki búið saman. Önnur var dugleg að hafa snyrtilegt í kringum sig, hin ekki. Önnur var andlega sinnuð, hin minna. Þetta bara gekk ekki!“

Hver er lausnin? Erin, sem er 18 ára, segir: „Þú getur lært mikið um að láta sér lynda við fólk meðan þú býrð enn heima. Þú lærir að leysa úr ágreiningi og gefa eftir. Ég hef tekið eftir að þeir sem fara að heiman til að forðast árekstra við foreldrana læra að hlaupa frá vandamálunum í staðinn fyrir að leysa þau.“

Að sinna trúnni: Sumir hlaupast að heiman til þess að þurfa ekki að taka þátt í trúarlegri dagskrá foreldra sinna. Aðrir ætla sér að halda í góðar biblíunámsvenjur og hafa tilbeiðsluna í fyrirrúmi en missa fljótlega tökin. Hvernig geturðu komið í veg fyrir að líða ,skipbrot á trú þinni‘? – 1. Tímóteusarbréf 1:19.

Komdu þér upp góðum námsvenjum og taktu reglulega frá tíma til að tilbiðja Jehóva. Haltu þér síðan við það sem þú hefur ákveðið. Það getur verið gott að skrifa þetta niður í dagbók og sjá hvort þú getur fylgt þessari dagskrá í mánuð án þess að foreldrar þínir þurfi að ýta við þér.

 Hvert stefni ég?

Viltu fara að heiman til að flýja vandamál eða verða þinn eigin herra? Þá einblínirðu hugsanlega á það sem þú ert að segja skilið við í stað þess sem þú stefnir að. Það er eins og að reyna að keyra og horfa stöðugt í baksýnisspegilinn – þú ert svo upptekinn af því sem að baki er að þú sérð ekki hvað er fram undan. Hvað má læra af þessu? Ekki hugsa bara um að flytja að heiman – einbeittu þér að því sem er fram undan og settu þér verðugt markmið.

Sama hvaða markmið þú setur þér skaltu hugsa það til enda. „Áform hins iðjusama færa arð“ segir í Biblíunni, „en hroðvirkni endar í örbirgð“. (Orðskviðirnir 21:5) Hlustaðu á ráð foreldra þinna. (Orðskviðirnir 23:22) Leitaðu til Jehóva í bæn. Og hugleiddu meginreglur Biblíunnar sem rætt hefur verið um í þessari grein.

Spurningin sem þú ættir að velta fyrir þér er ekki hvort þú sért tilbúinn að flytja að heiman heldur hvort þú sért tilbúinn að standa á eigin fótum. Ef svarið við seinni spurningunni er jákvætt má vel vera að þú sért tilbúinn að fara að heiman.