Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Er ég tilbúinn að flytja að heiman?

Er ég tilbúinn að flytja að heiman?

 Að flytja að heiman getur bæði virst spennandi og vakið kvíða. Hvernig veistu hvort þú sért tilbúinn að standa á eigin fótum?

 Hvers vegna viltu flytja að heiman?

 Það geta verið margar ástæður fyrir því að þú ákveðir að flytja að heiman og ekki allar jafn skynsamlegar. Ungur maður sem heitir Mario játar: „Ég vildi flytja að heiman til að losna við skyldurnar sem ég hafði heima.“

 Satt best að segja muntu sennilega hafa minna frelsi þegar þú flytur að heiman. Onya sem er 18 ára segir: „Ef maður flytur að heiman þarf maður að sjá sjálfur um heimilið, taka til matinn, borga reikninga og foreldrar manns eru ekki í næsta herbergi til að hjálpa.“

 Niðurstaðan: Þú þarft að átta þig á hvers vegna þig langar til að flytja að heiman til að vita hvort þú sért tilbúinn.

 Reiknaðu kostnaðinn

 Jesús sagði: „Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ (Lúkas 14:28) Hvernig geturðu ,reiknað kostnaðinn‘ við að flytja að heiman? Gerðu sjálfsrannsókn á eftirfarandi sviðum:

  KANNTU AÐ FARA SKYNSAMLEGA MEÐ PENINGA?

 Í Biblíunni segir: „Silfrið veitir forsælu.“ – Prédikarinn 7:12.

  •  Finnst þér erfitt að spara?

  •  Ertu eyðslusamur/eyðslusöm?

  •  Færðu oft lán hjá öðrum?

 Ef svarið við einhverri af þessum spurningum er já gæti draumurinn um að búa á eigin vegum breyst í martröð.

 „Bróðir minn fór að heiman þegar hann var 19 ára. Innan árs kláraði hann sparnaðinn, skilaði bílnum, missti lánstraustið og grátbað um að fá að flytja heim aftur.“ – Daníelle

 Það sem þú getur gert núna: Spyrðu foreldra þína hvað séu dæmigerð útgjöld hjá þeim í hverjum mánuði. Hvaða reikninga þurfa þau að borga og hvernig fjárhagsáætlun gera þau til þess? Hvernig leggja þau fyrir?

 Niðurstaðan: Ef þú lærir að fara vel með peninga núna á meðan þú býrð hjá foreldrum þínum ertu tilbúinn að takast á við raunveruleikann í peningamálum þegar þú býrð á eigin vegum.

  HEFURÐU SJÁLFSAGA?

 Biblían segir: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ – Galatabréfið 6:5.

  •  Slærðu hlutunum á frest?

  •  Þurfa foreldrar þínir að minna þig á að sinna skyldustörfunum á heimilinu?

  •  Kemurðu oft of seint heim?

 Ef þú svarar einhverri af þessum spurningum játandi verður jafnvel enn erfiðara fyrir þig að sýna ábyrgð þegar þú ert farinn að búa á eigin vegum.

 „Þegar maður er fluttur að heiman þarf maður að gera ýmislegt sem manni finnst ekkert skemmtilegt, en verður einfaldlega að gera. Það segir manni enginn að gera þessi vanaverk svo maður verður að hafa sjálfsaga og gera þau.“ – Jessica.

 Það sem þú getur gert núna: Reyndu í einn mánuð að sinna eins mörgum störfum á heimilinu og þú getur. Til dæmis að þrífa íbúðina, þvo fötin þín, kaupa í matinn, elda matinn á hverju kvöldi og þvo upp. Það veitir þér innsýn í það sem bíður þín þegar þú ferð að búa á eigin vegum.

 Niðurstaðan: Þú þarft á sjálfsaga að halda ef þú ætlar að flytja að heiman.

Að flytja óundirbúinn að heiman er eins og að hoppa út úr flugvél án þess að hafa lært að nota fallhlíf.

  ERTU TILFINNINGALEGA HEILSTEYPT(UR)?

 Í Biblíunni segir: „Nú skulið þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.“ – Kólossubréfið 3:8.

  •  Áttu erfitt með að láta þér semja við aðra?

  •  Áttu erfitt með að stjórna skapi þínu?

  •  Villtu að allt sé gert eftir þínu höfði?

 Ef svar þitt er já við einhverri af þessum spurningum verður sennilega erfitt fyrir þig að búa með öðrum eða maka seinna meir.

 Gallar mínir komu í ljós þegar ég fór að leigja með öðrum. Ég sá að ég gæti ekki vænst þess að aðrir umbæru geðvonskuköst mín þegar ég er undir álagi. Ég varð að finna betri leið til að takast á við álag.“ – Helena.

 Það sem þú getur gert núna: Lærðu að láta þér semja við foreldra þína og systkini. Viðbrögð þín við ófullkomleika þeirra sem þú býrð með núna gefa til kynna hvernig þú munt bregðast við ófullkomleika einhvers sem þú býrð með seinna.

 Niðurstaðan: Þú losnar ekki undan ábyrgð með því að búa á eigin vegum. Það krefst færni og undirbúnings. Hvernig væri að tala við þá sem þekkja þetta af eigin reynslu og hefur tekist vel til? Spyrðu hvað þeir myndu gera öðruvísi, eftir á að hyggja, eða hvað þeir hefðu viljað vita sem þeir vita núna. Þetta er gagnlegt að gera þegar maður tekur mikilvægar ákvarðanir.