Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Af hverju ætti ég að fara með bænir?

Af hverju ætti ég að fara með bænir?

 Samkvæmt skoðanakönnun fara 80 prósent unglinga í Bandaríkjunum með bænir, en aðeins helmingur þeirra biður daglega. Án efa velta sumir þeirra fyrir sér hvort bænin sé bara aðferð til að láta sér líða betur eða eitthvað meira?

 Hvað er bæn?

 Bænin er aðferð til að hafa samband við skaparann. Hugsaðu þér bara hvað það þýðir. Jehóva er mannkyninu æðri að öllu leyti en „eigi er hann langt frá neinum af okkur“. (Postulasagan 17:27) Reyndar er þetta einstaka boð að finna í Biblíunni: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ – Jakobsbréfið 4:8.

 Hvernig geturðu nálægt þig Guði?

  •   Bænin er ein leið til þess – þannig geturðu talað við Guð.

  •   Biblíulestur er önnur leið til þess – þannig talar Guð til þín.

 Svona gagnkvæm samskipti – bæn og biblíulestur – hjálpa manni að mynda sterkt vináttusamband við Guð.

 „Að tala við Jehóva – eiga tjáskipti við Hinn hæsta – er einn mesti heiður sem mönnum getur hlotnast.“ – Jeremy.

 „Þegar ég trúi Jehóva fyrir innstu tilfinningum mínum í bæn finnst mér ég tengjast honum betur. – Miranda.

 Hlustar Guð á bænir?

 Þótt þú trúir á Guð, og biðjir jafnvel til hans, gæti þér fundist erfitt að trúa að hann hlusti á bænir. Eftir sem áður er Jehóva ávarpaður í Biblíunni: „Þú, sem heyrir bænir“. (Sálmur 65:2) Í Biblíunni er meira að segja sagt: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann.“ Hvers vegna? „Því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pétursbréf 5:7.

 Til umhugsunar: Tekur þú þér reglulega tíma til að tala við bestu vini þína? Það sama á við um Guð. Þú ættir að tala reglulega við hann í bæn og nota nafn hans, Jehóva. (Sálmur 86:5-7; 88:10) Í Biblíunni er þér meira að segja sagt að gera það „án afláts“. – 1. Þessaloníkubréf 5:17.

 „Bænin er samtal milli mín og himnesks föður míns og ég úthelli hjarta mínu í bæn.“ – Moises.

 „Ég ræði málin ítarlega við Jehóva alveg eins og ég væri að tala við mömmu eða bestu vinkonu mína.“ – Karen.

 Hvað get ég beðið til Guðs um?

 Í Biblíunni segir: „Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ – Filippíbréfið 4:6.

 Geturðu þá talað um vandamál þín í bænum þínum? Já, því að í Biblíunni segir: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ – Sálmur 55:23.

 Þegar þú biður til Guðs ættirðu að sjálfsögðu að tala um fleira en vandamál þín. „Vináttan væri ekkert sérstaklega sterk ef ég bæði Jehóva bara um að hjálpa mér,“ segir ung kona sem heitir Chantelle. „Mér finnst að mikilvægast að sýna þakklæti og listinn yfir það sem ég er þakklát fyrir ætti að vera langur.“

 Til umhugsunar: Hvað ert þú þakklátur fyrir? Geturðu nefnt þrennt sem þú gætir þakkað Jehóva fyrir í dag?

 „Jafnvel smáatriði, eins og að dáðst að fallegu blómi, ætti að fá okkur til að þakka Jehóva í bæn.“ – Aníta.

 „Hugsaðu um eitthvað í sköpunarverkinu eða um biblíuvers sem hefur snert þig. Þakkaðu Jehóva síðan fyrir það.“ – Brian.