Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég áunnið mér traust foreldra minna?

Hvernig get ég áunnið mér traust foreldra minna?

 Það sem þú þarft að vita

 Þú hefur það traust sem þú átt skilið. Að hlýða þeim reglum sem foreldrar þínir setja má líkja við að greiða af skuld. Þú skuldar foreldrum þínum hlýðni og því ábyrgari sem þú ert að ,greiða af skuldinni‘ þeim mun meira ,lánstraust‘ (frelsi) færðu líklega hjá þeim. Ef þú hefur hins vegar verið óáreiðanlegur skaltu ekki vera hissa þótt ,lánstraustið‘ sem þú hefur hjá foreldrum þínum minnki.

 Það tekur tíma að ávinna sér traust. Þú þarft að sýna ábyrga hegðun um tíma áður en foreldrar þínir veita þér meira frelsi.

 SÖNN SAGA: „Sem unglingur vissi ég nákvæmlega hvers foreldrar mínir væntu af mér. Ég þóttist gera það en ég gerði í laumi eitthvað allt annað sem mig langaði til. Foreldrar mínir áttu því erfitt með að treysta mér. Seinna skildi ég að þetta gekk ekki upp. Það er ekki hægt að blekkja til að fá meira frelsi. Maður verður að vera traustsins verður til að hægt sé að treysta manni.“ – Craig.

 Hvað er til ráða?

 Segðu satt jafnvel þótt það sé óþægilegt. Allir gera mistök en að fela þau með því að ljúga (eða sleppa því að segja ákveðin atriði til að hagræða sannleikanum) gerir að engu það traust sem foreldrar þínir báru til þín. En þegar reynslan sýnir að þú ert heiðarlegur sjá foreldrar þínir að þú ert nógu þroskaður til að viðurkenna mistök þín. Þannig fólki er hægt að treysta.

 „Þú glatar ekki alltaf trausti þótt þú gerir mistök en þú glatar því alltaf þegar þú reynir að fela þau. – Anna.

 Í Biblíunni segir: ,Við viljum vera heiðarlegir í öllu sem við gerum.‘ – Hebreabréfið 13:18.

  •   Til umhugsunar: Segirðu foreldrum þínum allan sannleikann þegar þeir spyrja þig hvert þú sért að fara og hvað þú ætlir að gera? Eða reynirðu að segja sem minnst um það sem þau vilja vita, hvert þú fórst og hvað þú varst að gera?

 Vertu ábyrgur. Hlýddu öllum húsreglum. Gerðu þín heimilisstörf á réttum tíma. Vertu stundvís. Taktu ábyrgð á heimalærdómi. Hlýddu reglum um útivistatíma.

 „Ef foreldrar þínir leyfa þér að vera úti með vinum þínum en segja þér að koma heim klukkan níu skaltu ekki koma klukkan hálf ellefu og búast við að fá leyfi næst þegar þú vilt fara út með vinum þínum.“ – Ryan.

 Í Biblíunni segir: „Hver og einn þarf að bera sína ábyrgð.“ – Galatabréfið 6:5, neðanmáls.

  •   Til umhugsunar: Hvernig stendurðu þig varðandi það að vera stundvís, klára heimilisstörfin og hlýða reglum, líka varðandi það sem þér finnst leiðinlegt?

 Vertu þolinmóður. Ef þú hefur brugðist trausti foreldra þinna tekur tíma að vinna traust þeirra aftur. Sýndu þolinmæði.

 „Ég varð pirraður þegar foreldrar mínir sýndu mér ekki meira traust eftir að ég náði vissum aldri. Ég áttaði mig á því að þótt maður verði eldri verður maður ekki endilega þroskaðri. Ég bað foreldra mína um tækifæri til að sanna mig. Það tók tíma en það virkaði. Ég lærði það að maður ávinnur sér ekki traust þótt maður verði eldri, maður verður að gera eitthvað.“ – Rachel

 Í Biblíunni segir: „Prófið hvaða mann þið hafið að geyma.“ – 2. Korintubréf 13:5.

  •   Til umhugsunar: Hvað geturðu gert til að ,prófa hvaða mann þú hefur að geyma‘ og hafa (eða endurheimta) traust foreldra þinna?

 RÁÐ: Settu þér markmið eins og að vera stundvís, klára heimilisstörf, koma heim á réttum tíma eða eitthvað annað. Láttu foreldra þína vita um áform þín og spurðu þau hvers þau vænta af þér til að þú ávinnir traust þeirra. Síðan skaltu leggja þig allan fram við að fylgja áminningu Biblíunnar: „Þið ættuð að afklæðast hinum gamla manni sem samræmist fyrra líferni ykkar.“ (Efesusbréfið 4:22) Með tímanum munu foreldrar þínir sjá framfarir hjá þér.