Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég útskýrt afstöðu mína til kynlífs?

Hvernig get ég útskýrt afstöðu mína til kynlífs?

„Ha? Hefurðu aldrei sofið hjá?“

Ef þú vilt svara þessari spurningu og svarið er „nei“, myndirðu þá ekki vilja svara henni með sannfæringu? Í þessari grein færðu góðan grunn til þess.

 Hvað er að vera hreinn sveinn eða hrein mey?

Að vera hreinn sveinn eða hrein mey þýðir að maður hefur aldrei haft samfarir við einhvern.

En kynlíf er auðvitað ekki bara það að hafa samfarir. Stundum telur fólk sig vera „hreinan svein“ eða „hreina mey“ vegna þess að það hefur ekki haft samfarir – en það hefur samt prófað nánast allt annað sem tengist kynlífi.

Með kynmökum er meðal annars átt við munnmök, endaþarmsmök og að fróa annarri manneskju.

Niðurstaða: Þeir sem hafa átt kynmök við einhvern – þar með talið munnmök, endaþarmsmök eða fróað annarri manneskju – geta ekki sagt að þeir séu hreinir sveinar eða hreinar meyjar.

 Hvað segir Biblían um kynlíf?

Í Biblíunni segir að kynlíf eigi aðeins rétt á sér milli karls og konu sem eru gift hvort öðru. (Orðskviðirnir 5:18) Sá sem vill þóknast Guði ætti því ekki að hafa kynmök fyrr en hann eða hún giftir sig. – 1. Þessaloníkubréf 4:3-5.

Sumir segja að sjónarmið Biblíunnar til kynlífs sé úrelt og eigi alls ekki við í nútímasamfélagi. Við ættum þó að hafa í huga að skilnaðir, ótímabærar þunganir og kynsjúkdómar eru orðnir mjög algengir í nútímasamfélagi. Samfélagið er engan veginn í stakk búið til að leiðbeina fólki um siðferðismál. – 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

Þegar maður hugsar málið eiga siðferðisreglur Biblíunnar bara mjög vel við. Lýsum því með dæmi: Segjum að einhver gæfi þér 100.000 krónur í peningum. Myndirðu henda þeim út um gluggann þannig að hver sem er gæti tínt þá upp?

Þú þarft að taka svipaða ákvörðun hvað varðar kynlíf. „Ég vil ekki missa meydóminn með einhverjum ókunnugum sem ég á varla eftir að muna nafnið á nokkrum árum seinna,“ segir Sierra sem er 14 ára. Tammy, sem er 17 ára, tekur undir en hún segir: Kynlíf er of verðmæt gjöf til að sóa henni.

Niðurstaða: Samkvæmt Biblíunni á fólk að vera skírlíft þangað til að það giftir sig. – 1. Korintubréf 6:18; 7:8, 9.

 Hver er afstaða þín?

  • Finnst þér Biblían gera sanngjarnar eða of strangar kröfur hvað varðar kynlíf?

  • Finnst þér allt í lagi að tveir ógiftir einstaklingar hafi kynmök ef þeir segjast elska hvor annan?

Eftir að hafa hugsað málið vandlega hefur margt ungt fólk komist að raun um að það sé best að vera skírlífur. Það sér ekki eftir því og finnst það ekki heldur vera að missa af neinu. Sjáðu hvað nokkur ungmenni segja um þetta:

  • „Ég er ánægð yfir því að vera hrein mey. Það er ekkert að því að sleppa við líkamlegan og tilfinningalegan sársauka sem fylgir kynlífi fyrir hjónaband.“ – Emily.

  • „Ég er ánægð að vera ekki með langan lista að baki yfir rekkjunauta og það er góð tilfinning að vita að það er ekki inni í myndinni að ég geti verið með kynsjúkdóm.“ – Elaine.

  • „Ég hef heyrt margar stelpur á mínum aldri og eldri stelpur tala um að þær sæju eftir því að hafa átt kynmök og að þær vildu að þær hefðu beðið. Ég vil ekki gera sömu mistök.“ – Vera.

  • „Ég veit um svo marga sem eru með tilfinningaleg ör eftir að hafa misst meydóminn eða sofið hjá mörgum. Mér finnst sorglegt að eyða lífinu þannig. – Deanne.

Niðurstaða: Þú þarft að taka afstöðu áður en þú verður fyrir freistingu eða þrýst er á þig til að hafa kynmök. – Jakobsbréfið 1:14, 15.

 Hvernig geturðu útskýrt afstöðu þína fyrir öðrum?

Hvað ættirðu að segja ef einhver spyr þig út í afstöðu þína gagnvart kynlífi? Það fer að miklu leyti eftir aðstæðum.

„Ef einhver væri bara að stríða mér og það væri eina ástæðan fyrir spurningunni myndi ég ekki bara taka því. Ég myndi segja: ,Það kemur þér ekki við,‘ og fara svo í burtu.“ – Corinne.

„Því miður hafa sumir í skólanum gaman af því að níðast á öðrum. Ef það væri eina ástæðan fyrir spurningum þeirra myndi ég líklega bara þegja.“ – David.

Vissir þú? Stundum „svaraði“ Jesús þeim sem hæddust að honum með því að þegja. – Matteus 26:62, 63.

En hvað ef sá sem spyr þig er einlægur og vill fá svar? Ef þú heldur að hann taki mark á Biblíunni gætirðu vitnað í vers eins og 1. Korintubréf 6:18 sem sýnir að þeir sem hafa kynmök fyrir hjónaband syndgi gegn eða skaði eigin líkama.

Hvort sem þú sýnir eitthvað í Biblíunni strax eða ekki er mikilvægt að þú talir af sannfæringu. Mundu að sú ákvörðun, sem þú hefur tekið að vera siðferðilega hreinn, er eitthvað sem þú getur verið mjög ánægður með. – 1. Pétursbréf 3:16.

„Ef þú ert öruggur þegar þú svarar sýnirðu að þú efast ekki um afstöðu þína og að þú gerir það sem þú gerir vegna þess að það er rétt, ekki bara af því að þér var sagt að gera það.“ – Jill.

Niðurstaða: Ef þú ert sannfærður um að afstaða þín til kynlífs sé rétt geturðu útskýrt hana fyrir öðrum. Og viðbrögðin gætu komið þér á óvart. „Vinnufélagar mínir hafa reyndar hrósað mér fyrir að vera skírlíf,“ segir Melinda sem er 21 árs. „Þeim finnst ég ekki vera skrýtin heldur finnst þeim þetta merki um sjálfstjórn og dyggð.“

Tillaga. Ef þú vilt verða öruggari í afstöðu þinni til kynlífs geturðu sótt vinnublaðið „Að útskýra afstöðu sína til kynlífs“. Þú getur líka skoðað bókina Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 2. bindi og greinarnar „Ungt fólk spyr“ í Vaknið!

  •  Greinin „Mun kynlíf styrkja sambandið?“ birtist í greinaflokknum „Ungt fólk spyr“ í Vaknið! júlí-september 2010.

  •  Kafli 5 í bókinni heitir „Af hverju að bíða með kynlíf?“

„Mér finnst frábært hvernig rætt er um þessi mál í bókunum ,Spurningar unga fólksins‘. Til dæmis er líking á bls. 187 í 1. bindi bókarinnar * sem lýsir hvernig kynlíf fyrir hjónaband er eins og að gefa einhverjum rándýra hálsfesti fyrir ekki neitt. Þú ert miklu meira virði en það. Á bls. 177 er kynlífi fyrir hjónaband líkt við að taka fallegt málverk og nota það sem dyramottu. En besta líkingin finnst mér vera á bls. 54 í 2. bindi bókarinnar. Myndatextinn segir: ,Að stunda kynlíf fyrir hjónaband er eins og að opna gjöf áður en búið er að gefa þér hana.‘ Það er eins og maður steli einhverju sem er frátekið handa einhverjum öðrum – tilvonandi maka sínum. – Victoria.

^ gr. 41 Endurskoðuð útgáfa af 1. bindi bókarinnar er ekki fáanleg á íslensku en hægt er að lesa hana á erlendum tungumálum.