UNGT FÓLK SPYR
Af hverju ætti ég að biðjast afsökunar?
Hvað myndir þú gera í eftirfarandi aðstæðum?
Kennari þinn skammar þig fyrir að haga þér illa í tíma.
Ættirðu að biðja kennarann afsökunar, þó að þér finnist hann vera að gera of mikið mál úr þessu?
Vinur kemst að því að þú sagðir eitthvað móðgandi um hann.
Ættirðu að biðja vin þinn afsökunar, þó að þér finnist það sem þú sagðir vera rétt?
Þú æsir þig við pabba þinn og talar við hann af óvirðingu.
Ættirðu að biðja pabba þinn afsökunar, þó að þér finnist hann hafa æst þig upp.
Svarið við öllum þessum spurningum er já. En af hverju ættirðu að segja „fyrirgefðu“ þegar þér finnst þú hafa góða ástæðu fyrir því sem þú gerðir?
Af hverju ættirðu að biðjast afsökunar?
Að biðjast afsökunar sýnir þroska. Þegar þú axlar ábyrgð á því sem þú sagðir eða gerðir sýnirðu að þú ert að þroska með þér eiginleika sem þú þarft á að halda þegar þú verður fullorðinn.
„Auðmýkt og þolinmæði geta hjálpað manni að biðjast afsökunar og hlusta á það sem hinn hefur að segja.“ – Rachel.
Þú getur stuðlað að friði með því að biðjast afsökunar. Fólk sem biðst afsökunar sýnir að því er meira í mun að stuðla að friði en að sanna að það hafi rétt fyrir sér og að hinn hafi rangt fyrir sér.
„Að stuðla að friði ætti að ganga fyrir þó að þér finnist þú ekki hafa gert neitt rangt. Það kostar ekkert að segja fyrirgefðu en með því geturðu endurheimt vináttu.“ – Miriam.
Þér líður betur þegar þú biðst afsökunar. Það er þung byrði að vera með eftirsjá vegna þess að maður særði einhvern í orði eða verki. En þeirri byrði er létt af manni þegar maður biðst afsökunar. a
„Ég hef stundum talað hranalega við mömmu og pabba. Þá hefur mér liðið illa en fundist erfitt að biðjast afsökunar. En mér hefur liðið betur þegar ég gerði það vegna þess að það endurheimti friðinn í fjölskyldunni.“ – Nia.
Eftirsjá er eins og þung byrði. Þegar þú biðst afsökunar þarftu ekki að bera hana lengur.
Getur verið erfitt að biðjast afsökunar? Já! Dena er ung kona sem hefur þurft að biðja mömmu sína oftar en einu sinni afsökunar fyrir að vera dónaleg við hana. Hún viðurkennir: „Það er ekki auðvelt að segja fyrirgefðu. Mér líður eins og ég sé með stíflu í hálsinum og geti ekki komið upp orði!“
Hvernig ættirðu að biðjast afsökunar?
Ef það er hægt skaltu biðjast afsökunar í eigin persónu. Ef þú biðst afsökunar augliti til auglitis getur hinn séð að þú sérð einlæglega eftir því sem þú gerðir. En ef þú sendir smáskilaboð gæti hinn átt erfitt með að trúa að þú sért einlægur. Skilaboð gætu virst ópersónuleg og óeinlæg þótt þú bættir við fýlukalli.
Ráð: Ef þú getur ekki beðist afsökunar í eigin persónu skaltu hugsa um að hringja eða skrifa kort. Hvaða aðferð sem þú velur þarftu að hugsa vel hvernig þú orðar afsökunarbeiðnina.
Meginregla: „Hjarta hins réttláta íhugar hverju svara skuli.“ – Orðskviðirnir 15:28.
Vertu fljótur að biðjast afsökunar. Því lengur sem vandamál er óleyst því alvarlegra virðist það og því vandræðalegra verður sambandið milli þín og þess sem þú særðir.
Ráð: Settu þér markmið eins og: „Ég ætla að biðjast afsökunar í dag.“ Ákveddu hvaða tímamörk eru raunhæf og haltu þig við þau.
Meginregla: „Vertu fljótur að sættast.“ – Matteus 5:25.
Biddu einlæglega afsökunar. Að segja: „Mér þykir það leitt að þér líði þannig“ er ekki afsökunarbeiðni! „Sá sem var órétti beittur ber yfirleitt meiri virðingu fyrir þér ef hann tekur eftir að þú tekur fulla ábyrgð á því sem þú gerðir,“ segir ung kona sem heitir Janelle.
Ráð: Hafðu afsökunarbeiðnina skilyrðislausa. Ekki hugsa með þér: „Ég skal biðjast afsökunar á því sem ég gerði ef hann biðst afsökunar á því sem hann gerði.“
Meginregla: „Gerum … allt sem við getum til að stuðla að friði.“ – Rómverjabréfið 14:19.
a Ef þú týndir eða skemmdir eitthvað sem annar á er gott að bjóðast til að bæta skaðann auk þess að biðjast afsökunar.