Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um uppruna hrekkjavökunnar?

Hvað segir Biblían um uppruna hrekkjavökunnar?

Svar Biblíunnar

Það er ekkert minnst á hrekkjavöku í Biblíunni. En bæði uppruni hrekkjavöku og þeir siðir sem tengjast hátíðinni nú á dögum sýna glöggt að hún byggist á fölskum kenningum um hina dánu og ósýnilegar andaverur eða djöfla. – Sjá „Saga og siðir hrekkjavöku.“

Í Biblíunni er að finna þessa viðvörun: „Á meðal ykkar má enginn finnast sem ... leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum.“ (5. Mósebók 18:10-12) Þótt sumir telji hrekkjavöku skaðlausa skemmtun þá sjáum við af orðum Biblíunnar að þeir siðir sem tengjast henni eru það ekki. Í Biblíunni segir: „En ég vil ekki að þið hafið samfélag við illa anda. Ekki getið þið drukkið bikar Drottins og bikar illra anda.“ – 1. Korintubréf 10:20, 21

Saga og siðir hrekkjavöku

  1. Samhain: Uppruna hrekkjavöku má rekja aftur til „fornrar heiðinnar athafnar sem Keltar héldu hátíðlega fyrir rúmlega 2.000 árum,“ segir í fræðiritinu The World Book Encyclopedia. „Keltar trúðu að á meðan Samhainhátíðin stóð yfir gætu hinir dánu gengið á meðal þeirra og að hinir lifandi gætu átt samskipti við þá.“ Í Biblíunni kemur aftur á móti skýrt fram að „hinir dauðu vita ekki neitt“ (Prédikarinn 9:5) Þeir geta því ekki haft samband við lifandi fólk.

  2. Hrekkjavökubúningar, sælgæti, gjafir og hrekkir: Samkvæmt bókinni Halloween –An American Holiday, An American History klæddust sumir Keltarnir draugabúningum svo að andarnir héldu að þeir væru líka framliðnir og myndu þess vegna láta þá í friði. Aðrir buðu öndunum upp á sælgæti til að friða þá. Í Evrópu á miðöldum tók kaþólska kirkjan upp á þeim heiðna sið að láta fylgjendur sína klæðast búningum og fara hús úr húsi og betla gjafir. Biblían fordæmir hins vegar að fölskum trúarsiðum og tilbeiðslu á Guði sé blandað saman. – 2. Korintubréf 6:17.

  3. Draugar, vampírur, varúlfar, nornir og uppvakningar: Þessar verur hafa lengi verið tengdar við heim illra anda. Af orðum Biblíunnar er ljóst að við eigum að taka okkur stöðu gegn illum öndum en ekki halda hátíðir með þeim. – Efesusbréfið 6:12.

  4. Hrekkjavökugrasker eða luktir: Í Bretlandi á miðöldum „fóru betlarar hús úr húsi og buðust til að biðja fyrir hinum dánu ef þeir fengju mat að launum“. Þeir gengu um með „holar rófur sem luktir, kertið innan í þeim táknaði sálir sem voru fastar í hreinsunareldi“. (Halloween – From Pagan Ritual to Party Night) Aðrir vilja meina að luktirnar hafi verið notaðar til að halda illum öndum í burtu. Á 17. öld í Norður-Ameríku var farið að nota grasker í staðinn fyrir rófur bæði vegna þess að mikið var til af þeim og það var auðvelt að hola þau að innan og rista í þau. Trúarkenningar tengdar þessum siðum – ódauðleiki sálarinnar, hreinsunareldurinn og að hægt sé að biðja fyrir hinum dánu – eru ekki byggðar á Biblíunni. – Esekíel 18:4.