Hoppa beint í efnið

Hvað táknar skarlatsrauða dýrið í 17. kafla Opinberunarbókarinnar?

Hvað táknar skarlatsrauða dýrið í 17. kafla Opinberunarbókarinnar?

Svar Biblíunnar

Skarlatsrauða dýrið, sem er lýst í 17. kafla Opinberunarbókarinnar, táknar þau samtök sem hafa það markmið að sameina þjóðir heims og vera fulltrúar þeirra. Í fyrstu gegndi Þjóðabandalagið þessu hlutverki en núna Sameinuðu þjóðirnar.

Að bera kennsl á skarlatsrauða dýrið

 1. Stjórnmálaveldi. Skarlatsrauða dýrið er með ,sjö höfuð‘ sem er sagt standa fyrir „sjö fjöll“ og „sjö konunga“ eða stjórnvöld. (Opinberunarbókin 17:9, 10) Í Biblíunni merkja fjöll og dýr gjarnan stjórnir. – Jeremía 51:24, 25; Daníel 2:44, 45; 7:17, 23.

 2. Eftirmynd stjórnmálakerfisins á jörðinni. Skarlatsrauða dýrið líkist dýrinu með hornin tíu og höfuðin sjö í 13. kafla Opinberunarbókarinnar sem táknar stjórnmálakerfi jarðarinnar. Bæði dýrin eru með sjö höfuð, tíu horn og guðlöstunar nöfn. (Opinberunarbókin 13:1; 17:3) Þau eru of lík til að það sé tilviljun. Skarlatsrauða dýrið er eftirmynd stjórnmálakerfisins á jörðinni. – Opinberunarbókin 13:15.

 3. Fær vald frá öðrum stjórnum. Skarlatsrauða dýrið „er af“ eða á vald sitt að þakka öðrum ríkjandi stjórnum. – Opinberunarbókin 17:11, 17.

 4. Í tengslum við trúarbrögð. Babýlon hin mikla, heimsveldi falstrúarbragða, situr á skarlatsrauða dýrinu sem sýnir að dýrið er undir áhrifum trúarhópa. – Opinberunarbókin 17:3-5.

 5. Smánar Guð. Dýrið er ,alsett guðlöstunar nöfnum‘. – Opinberunarbókin 17:3.

 6. Óvirkt um tíma. Skarlatsrauða dýrið myndi vera í „undirdjúpinu“ * eða aðgerðarlaust um tíma en koma aftur fram á sjónarsviðið.

Biblíuspádómur rætist

Hugleiddu hvernig biblíuspádómurinn um skarlatsrauða dýrið, Sameinuðu þjóðirnar, og forvera þeirra Þjóðabandalagið, hefur ræst.

 1. Stjórnmálaveldi. Sameinuðu þjóðirnar styðja stjórnmálakerfið með því að styðja „fullvalda jafnræði allra meðlima þess“. *

 2. Eftirmynd stjórnmálakerfisins á jörðinni. Árið 2011 voru aðildarríki Sameinuðu þjóðanna orðin 193. Þær eru því orðnar fulltrúi mikils meirihluta þjóða og fólks á jörðinni.

 3. Fær vald frá öðrum stjórnum. Sameinuðu þjóðirnar eiga tilveru sína að þakka aðildarríkjum sínum og hafa aðeins það vald og yfirráð sem þau veita.

 4. Í tengslum við trúarbrögð. Bæði Þjóðabandalagið og Sameinuðu þjóðirnar hafa ávallt haft stuðning trúarbragða heimsins. *

 5. Smánar Guð. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnsettar til „að varðveita heimsfrið og öryggi“. * Þótt þetta markmið virðist lofsvert smána Sameinuðu þjóðirnar Guð með því að segjast ætla að gera það sem hann hefur sagt að aðeins ríki hans muni koma til leiðar. – Sálmur 46:10; Daníel 2:44, 45.

 6. Óvirkt um tíma. Þjóðabandalagið, sem var stofnsett rétt eftir fyrri heimstyrjöldina til að viðhalda friði, gat ekki komið í veg fyrir ófrið milli ríkja. Það hætti að starfa þegar síðari heimstyrjöldin braust út árið 1939. Árið 1945 þegar heimstyrjöldinni lauk voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar. Markmið, aðferðir og skipulag þessara tveggja samtaka er mjög líkt.

^ gr. 7 Samkvæmt biblíuorðabókinni Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words merkir orðið sem er þýtt „undirdjúp“ takmarkalaust dýpi. Biblíuþýðingin King James Version þýðir orðið „botnlaus gryfja“. Í Biblíunni vísar það til fangelsunar eða algers aðgerðarleysis.

^ gr. 9 Sjá 2. kafla sáttmála Sameinu þjóðanna.

^ gr. 12 Til dæmis lýsti fulltrúaráð margra trúardeilda mótmælenda í Bandaríkjunum því yfir árið 1918 að Þjóðabandalagið yrði „pólitísk ímynd Guðsríkis á jörð“. Árið 1965 söfnuðust fulltrúar búddista, kaþólsku kirkjunnar, rétttrúnaðarkirkjunnar í austri, hindúa, múslima, gyðingdóms og mótmælenda í San Fransisco til að sýna stuðning og biðja fyrir Sameinuðu þjóðunum. Og árið 1979 lét Jóhannes Páll páfi annar í ljós von sína um að ,Sameinuðu þjóðirnar myndu ávallt vera æðsti dómsvettvangur friðar og réttvísi‘.

^ gr. 13 Sjá 1. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna.