Hoppa beint í efnið

Hvað tákna ,lyklar himnaríkis‘?

Hvað tákna ,lyklar himnaríkis‘?

Svar Biblíunnar

,Lyklar himnaríkis‘, stundum kallaðir ,lyklar Guðs ríkis‘, tákna umboð til að opna fólki leið „inn í Guðs ríki“. (Matteus 16:19; Postulasagan 14:22) * Jesús gaf Pétri „lykla himnaríkis“. Það þýðir að Pétur fékk umboð til að upplýsa fólk um hvernig trúfast fólk sem fengi heilagan anda gæti fengið inngöngu í himnaríki.

Fyrir hverja voru lyklarnir?

Pétur notaði umboðið frá Guði til að opna leiðina í Guðs ríki fyrir þrjá hópa:

  1. Gyðinga og fólk sem hafði tekið gyðingatrú. Stuttu eftir dauða Jesú hvatti Pétur hóp Gyðinga, sem höfðu tekið trú, til að viðurkenna að Guð hefði útvalið Jesú sem konung Guðsríkis. Pétur sýndi þeim hvað þeir þyrftu að gera til að öðlast hjálpræði. Hann opnaði fyrir þeim leiðina í Guðs ríki, og þúsundir „veittu orði hans viðtöku“. – Postulasagan 2:38-41.

  2. Samverja. Pétur var seinna sendur til Samverja. * Hann notaði aftur lykla himnaríkis þegar þeir Jóhannes postuli báðu Guð um að veita Samverjum „heilagan anda“. (Postulasagan 8:14-17) Þetta opnaði fyrir Samverjum leiðina í ríki Guðs.

  3. Fólk af öðrum þjóðum. Þremur og hálfu ári eftir dauða Jesú opinberaði Guð Pétri að fólk af öðrum þjóðum fengi líka tækifæri til að ganga inn í Guðs ríki. Þá notaði Pétur einn lykilinn til að boða fólki af öðrum þjóðum trúna. Þannig gerði hann þessu fólki kleift að fá heilagan anda, taka kristna trú og verða tilvonandi stjórnendur Guðsríkis. – Postulasagan 10:30-35, 44, 45.

Hvað merkir það að „komast inn í Guðs ríki“?

Þeir sem „komast inn í Guðs ríki“ verða meðstjórnendur Jesú á himnum. Í Biblíunni er því spáð að þeir muni „sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels“. – Lúkas 22:29, 30; Opinberunarbókin 5:9, 10.

Ranghugmyndir um lykla himnaríkis

Ranghugmynd: Pétur ákveður hverjir fá að fara til himna.

Staðreynd: Í Biblíunni segir að það sé Jesús Kristur en ekki Pétur „sem dæma mun lifendur og dauða“. (2. Tímóteusarbréf 4:1, 8; Jóhannes 5:22) Reyndar sagði Pétur sjálfur að Jesús sé sá sem „Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra“. – Postulasagan 10:34, 42.

Ranghugmynd: Ríki Guðs er háð ákvörðun Péturs um hvenær eigi að nota lykla himnaríkis.

Staðreynd: Þegar Jesús talaði um lykla himnaríkis, sagði hann við Pétur: „Hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ (Matteus 16:19) Þótt sumir skilji þessa yfirlýsingu þannig að Pétur gefi ríki Guðs fyrirmæli, sýna sagnorðin í forngríska textanum að ákvörðun Péturs kæmi á eftir en ekki á undan ákvörðun ríkis Guðs.

Annar staðar í Biblíunni kemur fram að Pétur var undirgefin ríki Guðs þegar hann notaði lykla himnaríkis. Til dæmis hlýddi hann leiðbeiningum frá Guði þegar hann notaði þriðja lykilinn. – Postulasagan 10:19, 20.

^ gr. 1 Orðið ,lykill‘ er stundum notað í Biblíunni til að tákna umboð og ábyrgð. – Jesaja 22:20-22; Opinberunarbókin 3:7, 8.

^ gr. 4 Trú Samverja var frábrugðin gyðingatrúnni, en hafði þó orðið fyrir áhrifum af kenningum og siðum Móselaganna.