Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um líknardráp?

Hvað segir Biblían um líknardráp?

Svar Biblíunnar

Biblían fjallar ekki sérstaklega um líknardráp. * En það sem hún segir um líf og dauða endurspeglar jafnvægi. Það er aldrei réttlætanlegt að valda dauða en það er heldur engin krafa um að reynt sé að lengja dauðastríðið fram úr hófi.

Biblían segir að Guð sé skapari okkar eða „uppspretta lífsins“. (Sálmur 36:10; Postulasagan 17:28) Lífið er mjög dýrmætt í augum Guðs. Þess vegna fordæmir hann bæði það að taka líf annarra og eigið líf. (2. Mósebók 20:13; 1. Jóhannesarbréf 3:15) Auk þess ættum við að gera skynsamlegar varúðarráðstafanir til að vernda líf okkar og annarra eins og segir í Biblíunni. (5. Mósebók 22:8) Guð vill greinilega að við metum mikils þá gjöf sem lífið er.

Hvað ef einhver er með ólæknandi, banvænan sjúkdóm?

Samkvæmt Biblíunni er aldrei réttlætanlegt að binda enda á líf fólks, jafnvel þótt það sé dauðvona. Frásagan af Sál konungi í Ísrael staðfestir það. Þegar Sál hafði fengið banvænt sár í bardaga bað hann skjaldsvein sinn að hjálpa sér að taka líf sitt. (1. Samúelsbók 31:3, 4) Skjaldsveinninn neitaði því. En seinna laug annar maður því til að hann hefði uppfyllt ósk Sáls. Davíð endurspeglaði viðhorf Guðs í þessu máli og dæmdi manninn sekan um manndráp. – 2. Samúelsbók 1:6-16.

Verður að viðhalda lífi hvað sem það kostar?

Í Biblíunni er að finna öfgalaust viðhorf. Þess er ekki krafist að dauðastríðið sé framlengt ef dauðinn er greinilega óumflýjanlegur. Dauðinn er mikill óvinur og fylgir syndugu ástandi okkar. (Rómverjabréfið 5:12; 1. Korintubréf 15:26) Þótt okkur langi ekki til að deyja þurfum við ekki að óttast dauðann, vegna þess að Guð lofar að reisa hina dánu upp. (Jóhannes 6:39, 40) Einstaklingur sem ber virðingu fyrir lífinu leitar eftir bestu læknismeðferð sem völ er á. Það þýðir samt ekki að hann verði að velja læknismeðferð sem framlengir einfaldlega dauðastríði sem er um það bil að ljúka.

Er sjálfsmorð ófyrirgefanleg synd?

Nei, sjálfsvíg er ekki ófyrirgefanleg synd samkvæmt Biblíunni. Þótt það sé alvarleg synd að stytta sér aldur * skilur Guð fullkomlega að þættir eins og geðsjúkdómar, mikið álag eða jafnvel erfðaeinkenni geta leitt til sjálfsvígshugsana. (Sálmur 103:13, 14) Hann veitir þjáðum huggun fyrir tilstilli Biblíunnar. Auk þess segir í Biblíunni að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“. (Postulasagan 24:15) Það sýnir að þeir sem hafa gert alvarleg mistök, eins og að taka eigið líf, hafa líka upprisuvon.

^ gr. 1 Orðið líknardráp merkir „það að valda dauða sjúklings (deyða hann eða hafast ekki að) til að losa hann undan (langvarandi) kvölum ólæknandi sjúkdóms“. (Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og bætt.) Læknisfræðileg aðstoð við sjálfsvíg er það kallað þegar læknir aðstoðar sjúkling við að binda enda á líf sitt.

^ gr. 5 Þau fáu sjálfsvíg sem nefnd eru í Biblíunni tengjast fólki sem gerði ekki vilja Guðs. – 2. Samúelsbók 17:23; 1. Konungabók 16:18; Matteus 27:3-5.