Hoppa beint í efnið

Geta kristnir menn þegið læknismeðferð?

Geta kristnir menn þegið læknismeðferð?

Svar Biblíunnar

Já. Jesús sagði óbeint að fylgjendur hans gætu þegið læknismeðferð þegar hann sagði: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.“ (Matteus 9:12) Þótt Biblían sé ekki kennslubók í læknisfræði hefur hún að geyma meginreglur til leiðsagnar þeim sem vilja þóknast Guði.

Hugleiddu eftirfarandi spurningar

1. Skil ég í hverju fyrirhuguð meðferð felst? Biblían mælir með því að við öflum okkur áreiðanlegra upplýsinga í stað þess að vera eins og sá sem „trúir öllu“. – Orðskviðirnir 14:15.

2. Ætti ég að leita álits hjá fleiri en einum lækni? Það getur verið gagnlegt þegar „margir leggja á ráðin“, sérstaklega þegar um alvarleg veikindi er að ræða. – Orðskviðirnir 15:22.

3. Gengur aðgerðin í berhögg við fyrirmæli Biblíunnar um að ,halda sig frá blóði‘? – Postulasagan 15:20.

4. Tengist sjúkdómsgreiningin eða meðferðin andatrú? Biblían fordæmir „fjölkynngi“, það er að segja andatrú. (Galatabréfið 5:19-21) Til að kanna hvort um andatrú sé að ræða er gott að hugleiða eftirfarandi spurningar:

  • Stundar sá sem annast meðferðina andatrú?

  • Byggist meðferðin á þeirri trú að reiðir guðir eða einhverjir óvinir, sem stunda galdra, valdi veikindunum?

  • Eru fórnir, töfraþulur, notkun hluta eða önnur andatrúariðkun viðhöfð þegar lyfið er búið til eða notað?

5. Er ég að verða of upptekinn af heilsufari mínu? Biblían segir: ‚Verið sanngjörn.‘ (Títusarbréfið 3:2) Ef við höfum sanngjarnt og skynsamlegt viðhorf til heilsunnar þá eigum við auðveldara með að sjá „þá hluti rétt sem máli skipta“, eins og andleg mál. – Filippíbréfið 1:10; Matteus 5:3.