Hoppa beint í efnið

Konur í Biblíunni – hvað getum við lært af frásögunum um þær?

Konur í Biblíunni – hvað getum við lært af frásögunum um þær?

Svar Biblíunnar

 Í Biblíunni er sagt frá mörgum konum sem er lærdómsríkt að lesa um. (Rómverjabréfið 15:4; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Í þessari grein er fjallað stuttlega um nokkrar þeirra. Margar eru góðar fyrirmyndir til að líkja eftir. Aðrar eru víti til varnaðar. – 1. Korintubréf 10:11; Hebreabréfið 6:12.

  Abígail

Hver var Abígail? Hún var eiginkona auðugs en ruddalegs manns sem hét Nabal. Abígail var hins vegar skynsöm og lítillát. Hún var líka falleg og hafði aðra eiginleika sem eru Jehóva velþóknanlegir. – 1. Samúelsbók 25:3.

Hvað gerði hún? Abígail sýndi visku og brást skynsamlega við til að forða ógæfu. Hún bjó ásamt Nabal í héraðinu þar sem Davíð, framtíðarkonungur Ísraels, var í felum sem flóttamaður. Á meðan Davíð og menn hans voru þar gættu þeir hjarða Nabals gegn ræningjum. En þegar sendiboðar frá Davíð báðu Nabal um mat neitaði Nabal með svívirðingum. Davíð varð svo reiður að hann fór ásamt mönnum sínum til að drepa Nabal og alla karlmenn á heimili hans. – 1. Samúelsbók 25:10–12, 22.

Abígail brást skjótt við þegar hún frétti hvað maðurinn hennar hafði gert. Hún lét þjóna sína fara með mat til Davíðs og manna hans og fór sjálf á eftir til að sárbæna Davíð um miskunn. (1. Samúelsbók 25:14–19, 24–31) Þegar Davíð sá gjöfina frá henni, lítillætið sem hún sýndi og hlustaði á viturleg ráð hennar áttaði hann sig á því að Guð hafði notað hana til að koma í veg fyrir stórslys. (1. Samúelsbók 25:32, 33) Stuttu síðar dó Nabal og Abígail varð eiginkona Davíðs. – 1. Samúelsbók 25:37–41.

Hvað getum við lært af frásögunni um Abígail? Þótt Abígail væri falleg og auðug leit hún ekki stórt á sig. Til að halda friðinn var hún tilbúin að biðjast fyrirgefningar á því sem var ekki hennar sök. Hún brást róleg við erfiðum aðstæðum af háttvísi, hugrekki og skynsemi.

  Debóra

Hver var Debóra? Hún var spákona sem Jehóva Guð Ísraels fól að segja fólki sínu hvað hann vildi að það gerði. Henni var líka falið að leysa úr vandamálum Ísraelsmanna. – Dómarabókin 4:4, 5.

Hvað gerði hún? Spákonan Debóra studdi tilbiðjendur Guðs af hugrekki. Eftir leiðsögn hans kallaði hún á Barak til að leiða ísraelska herinn gegn Kanverjum, kúgurum þeirra. (Dómarabókin 4:6, 7) Þegar Barak bað Debóru að fara með sér var hún ekki hrædd heldur fús að fara með honum. – Dómarabókin 4:8, 9.

Þegar Guð hafði veitt Ísraelsmönnum afgerandi sigur samdi Debóra að minnsta kosti hluta söngs sem hún og Barak sungu þegar þau rifjuðu atburðinn upp. Þar minntist hún á hlutverk Jaelar, annarrar óttalausrar konu sem átti þátt í að sigra Kanverja. – Dómarabókin 5. kafli.

Hvað getum við lært af frásögunni um Debóru? Debóra var fórnfús og hugrökk. Hún hvatti aðra til að gera það sem er rétt í augum Guðs. Þegar þeir gerðu það gaf hún þeim óspart heiðurinn.

  Dalíla

Hver var Dalíla? Hún var kona sem Samson, dómari í Ísrael, varð ástfanginn af. – Dómarabókin 16:4, 5.

Hvað gerði hún? Hún þáði fé frá höfðingjum Filistea fyrir að svíkja Samson sem Guð hafði notað til að frelsa Ísraelsmenn úr höndum Filistea. Filistear gátu ekki yfirbugað hann vegna ofurmannlegra líkamlegra krafta hans. (Dómarabókin 13:5) Höfðingjarnir leituðu því til Dalílu til að fá hjálp.

Filistearnir mútuðu Dalílu til að komast að því hvers vegna hann væri svona sterkur. Dalíla þáði peningana og eftir nokkrar tilraunir tókst henni að lokum að komast að því hvert leyndarmál Samsonar var. (Dómarabókin 16:15–17) Hún sagði síðan Filisteum frá leyndarmáli Samsonar og þeir tóku hann höndum og settu í fangelsi. – Dómarabókin 16:18–21.

Hvað getum við lært af frásögunni um Dalílu? Dalíla er okkur víti til varnaðar. Vegna þess að hún var ágjörn reyndist hún svikul, ótrú og eigingjörn gagnvart þjóni Jehóva Guðs.

  Ester

Hver var Ester? Hún var gyðingastúlka sem persneski konungurinn Xerxes valdi sér fyrir drottningu.

Hvað gerði hún? Ester drottning notaði áhrif sín til að koma í veg fyrir þjóðarmorð á þjóð sinni. Hún komst að því að opinber tilskipun hafði verið gefin út um að drepa alla Gyðinga í persneska heimsveldinu á ákveðnum degi. Þessi illa fyrirætlun var hugmynd forsætisráðherrans Hamans. (Esterarbók 3:13–15; 4:1, 5) Með hjálp Mordekaí, eldri frænda síns, lagði Ester líf sitt í hættu og sagði eiginmanni sínum Xerxesi frá ráðbrugginu. (Esterarbók 4:10–16; 7:1–10) Xerxes leyfði síðan Ester og Mordekaí að gefa út nýja tilskipun sem gaf Gyðingum leyfi til að verja sig. Gyðingarnir gersigruðu óvini sína. – Esterarbók 8:5–11; 9:16, 17.

Hvað getum við lært af frásögunni um Ester? Ester drottning sýndi einstakt fordæmi með því að sýna hugrekki, auðmýkt og hógværð. (Sálmur 31:25; Filippíbréfið 2:3) Þrátt fyrir fegurð hennar og stöðu bað hún aðra um ráð og hjálp. Þegar hún talaði við eiginmann sinn sýndi hún háttvísi og virðingu en einnig hugrekki. Og þegar Gyðingar voru í mikilli hættu auðkenndi hún sig af hugrekki sem eina af þeim.

  Eva

Hver var Eva? Hún var allra fyrsta konan og sú fyrsta sem er minnst á í Biblíunni.

Hvað gerði hún? Eva óhlýðnaðist skýrum fyrirmælum Guðs. Eva var líkt og eiginmaður hennar sköpuð fullkomin með frjálsan vilja og hæfileikann til að þroska með sér eiginleika Guði að skapi eins og kærleika og visku. (1. Mósebók 1:27) Eva vissi að Guð hafði sagt Adam að ef þau borðuðu af ákveðnu tré myndu þau deyja. En hún lét blekkjast til að trúa því að hún myndi ekki deyja. Henni var talin trú um að hún væri betur sett ef hún óhlýðnaðist Guði. Fyrir vikið borðaði hún ávöxtinn og fékk eiginmann sinn til að gera það líka. – 1. Mósebók 3:1–6; 1. Tímóteusarbréf 2:14.

Hvað getum við lært af frásögunni um Evu? Eva er víti til varnaðar um það hvers vegna það er hættulegt að dvelja við rangar langanir. Hún þróaði með sér sterka löngun til að taka það sem tilheyrði henni ekki þvert á skýr fyrirmæli Guðs. – 1. Mósebók 3:6; 1. Jóhannesarbréf 2:16.

  Hanna

Hver var Hanna? Hún var eiginkona Elkana og móðir Samúels sem varð þekktur spámaður í Ísrael til forna. – 1. Samúelsbók 1:1, 2, 4–7.

Hvað gerði hún? Þegar Hanna var barnlaus leitaði hún huggunar hjá Guði. Eiginmaður Hönnu átti tvær eiginkonur. Hin konan hans, Peninna, átti börn. Hanna var hins vegar barnlaus lengi eftir að hún gekk í hjónaband. Peninna hæddist grimmilega að Hönnu. En Hanna leitaði til Guðs til að fá huggun. Hún gaf Guði heit og lofaði að ef hann gæfi sér son myndi hún gefa honum barnið til þjónustu við samfundatjaldið en það var færanlegt tjald notað við tilbeiðslu Ísraelsmanna. – 1. Samúelsbók 1:11.

Guð svaraði bæn Hönnu og hún eignaðist Samúel. Hanna stóð við loforð sitt og fór með Samúel til samfundatjaldsins þegar hann var lítill drengur til að hann myndi þjóna þar. (1. Samúelsbók 1:27, 28) Hún gerði ermalausan kyrtil á hverju ári sem hún færði honum. Með tímanum blessaði Guð Hönnu með fimm börnum til viðbótar, þrem sonum og tveim dætrum. – 1. Samúelsbók 2:18–21.

Hvað getum við lært af frásögunni um Hönnu? Innilegar bænir Hönnu hjálpuðu henni að komast í gegnum erfiðleika. Þakkarbæn hennar í 1. Samúelsbók 2:1–10 endurspeglar sterka trú hennar á Guði.

  Jael

Hver var Jael? Hún var eiginkona Hebers sem var ekki Ísraelsmaður. Jael studdi hugrökk fólk Guðs.

Hvað gerði hún? Jael gekk ákveðin til verks þegar Sísera, hershöfðingi í her Kanverja, kom að tjaldi hennar. Sísera hafði borið ósigur fyrir Ísrael og var að leita að stað til að fela sig og safna kröftum. Jael bauð honum skjól og hvíld í tjaldi sínu. Á meðan hann svaf drap hún hann. – Dómarabókin 4:17–21.

Það sem Jael gerði uppfyllti spádóm sem Debóra bar fram: „Drottinn mun selja Sísera í hendur konu.“ (Dómarabókin 4:9) Jael fékk sérstakt hrós og var sögð „blessuð framar öllum konum“. – Dómarabókin 5:24.

Hvað getum við lært af frásögunni um Jael? Jael tók frumkvæði og sýndi hugrekki. Saga hennar sýnir hvernig Guð getur haft áhrif á atburðarás til að uppfylla spádóma.

  Jesebel

Hver var Jesebel? Hún var eiginkona Akabs konungs í Ísrael. Hún var ekki ísraelsk og tilbað ekki Jehóva. Hún tilbað Baal, guð Kanverja.

Hvað gerði hún? Jesebel drottning var ráðrík, miskunnarlaus og ofsafengin. Hún ýtti undir Baalsdýrkun og kynferðislegt siðleysi sem henni fylgdi. Hún reyndi að fá alla til að hætta að tilbiðja hinn sanna Guð. – 1. Konungabók 18:4, 13; 19:1–3.

Jesebel laug og drap fólk til að ná fram vilja sínum. (1. Konungabók 21:8–16) Eins og Guð hafði sagt hlaut hún voveiflegan dauðdaga en enga greftrun. – 1. Konungabók 21:23; 2. Konungabók 9:10, 32–37.

Hvað getum við lært af frásögunni um Jesebel? Jesebel er okkur víti til varnaðar. Hún var svo siðspillt og samviskulaus að orð eins og sviksemi, siðleysi og taumleysi koma upp í hugann þegar nafn hennar ber á góma.

  Lea

Hver var Lea? Hún var fyrsta eiginkona ættföðurins Jakobs. Rakel, yngri systir hennar, var hin eiginkonan hans. – 1. Mósebók 29:20–29.

Hvað gerði hún? Lea fæddi Jakobi sex syni. (Rutarbók 4:11) Jakob hafði ætlað sér að kvænast Rakel en ekki Leu. En Laban faðir stúlkunnar sá til þess að Lea kæmi í hennar stað. Þegar Jakob komst að því að hann hefði verið blekktur til að kvænast Leu kom hann að máli við Laban. Laban hélt því fram að það væri ekki venja þar að gifta yngri dótturina á undan þeirri eldri. Viku seinna kvæntist Jakob Rakel. – 1. Mósebók 29:26–28.

Jakob elskaði Rakel meira en Leu. (1. Mósebók 29:30) Það varð til þess að Lea varð afbrýðisöm og barðist við systur sína um ást og athygli Jakobs. Tilfinningar Leu fóru ekki fram hjá Guði og hann blessaði hana með sjö börnum – sex sonum og einni dóttur. – 1. Mósebók 29:31.

Hvað getum við lært af frásögunni um Leu? Lea treysti á Guð með því að biðja til hans og lét ekki erfiðar heimilisaðstæður blinda sig fyrir stuðningi Guðs. (1. Mósebók 29:32–35; 30:20) Saga hennar sýnir vel að fjölkvæni gengur ekki upp. Hún var þó ráðstöfun sem Guð umbar um tíma. Ráðstöfun hans varðandi hjónabandið er að eiginmaður og eiginkona hafi aðeins einn maka. – Matteus 19:4–6.

  Marta

Hver var Marta? Hún var systir Lasarusar og Maríu en þau bjuggu öll í Betaníu, þorpi í nágrenni við Jerúsalem.

Hvað gerði hún? Marta var góður vinur Jesú en hann „elskaði Mörtu og systur hennar og Lasarus“. (Jóhannes 11:5) Hún var gestrisin kona. Þegar Jesús kom eitt sinn í heimsókn kaus María að hlusta á Jesú á meðan Marta sinnti eldamennskunni. Marta kvartaði við hann um að María væri ekki að hjálpa sér. Jesús leiðrétti viðhorf Mörtu mildilega. – Lúkas 10:38–42.

Þegar Lasarus veiktist sendu Marta og systir hennar eftir Jesú, sannfærðar um að hann gæti læknað bróður þeirra. (Jóhannes 11:3, 21) En Lasarus dó. Traust Mörtu á loforðum Biblíunnar og getu Jesú til að vekja bróður sinn til lífs koma berlega í ljós í samtali hennar við Jesú. – Jóhannes 11:20–27.

Hvað getum við lært af frásögunni um Mörtu? Marta var mjög gestrisin. Hún var fús að þiggja ráð. Hún talaði frjálslega um tilfinningar sínar og trú.

  María (móðir Jesú)

Hver var María? Hún var ung kona af gyðingaættum og var hrein mey þegar hún fæddi Jesú son Guðs fyrir kraftaverk.

Hvað gerði hún? María var auðmjúk og gerði vilja Guðs. Hún var trúlofuð Jósef þegar engill birtist henni og tilkynnti að hún myndi verða barnshafandi og fæða hinn langþráða Messías. (Lúkas 1:26–33) Hún var fús að gera þetta. Eftir að Jesús fæddist eignuðust María og Jósef fjóra syni og að minnsta kosti tvær dætur til viðbótar. María var því ekki áfram hrein mey. (Matteus 13:55, 56) Enda þótt hún hafi notið einstaks heiðurs sóttist hún aldrei eftir lofi og fékk aldrei sérstaka athygli, hvorki meðan á þjónustu Jesú stóð né í frumkristna söfnuðinum.

Hvað getum við lært af frásögunni um Maríu? María var trúföst kona sem var fús að axla alvarlega ábyrgð. Hún þekkti Ritningarnar mjög vel. Svo virðist sem hún hafi vitnað 20 sinnum í Ritningarnar við tækifærið sem er greint frá í Lúkasi 1:46–55.

  María (systir Mörtu og Lasarusar)

Hver var María? María var góður vinur Jesú eins og Lasarus bróðir hennar og Marta systir hennar.

Hvað gerði hún? María sýndi oft að hún mat Jesú son Guðs mikils. Hún lét í ljós að hún trúði því að Jesús hefði getað komið í veg fyrir dauða Lasarusar bróður síns og hún var vitni að því þegar Jesús reisti hann upp frá dauðum. Marta systir hennar gagnrýndi Maríu þegar hún kaus að hlusta á Jesú frekar en að hjálpa sér við eldamennskuna. En Jesús hrósaði Maríu fyrir að hafa sannleikann í fyrsta sæti í lífi sínu. – Lúkas 10:38–42.

Við annað tækifæri sýndi María Jesú einstakt örlæti með því að hella ,dýrri ilmolíu‘ á höfuð hans og fætur. (Matteus 26:6, 7) Aðrir viðstaddir ásökuðu Maríu um sóun. En Jesús kom henni til varnar og sagði: „Um allan heim þar sem fagnaðarboðskapurinn [um ríki Guðs] verður boðaður verður einnig sagt frá því sem þessi kona gerði, til minningar um hana.“ – Matteus 24:14; 26:8–13.

Hvað getum við lært af frásögunni um Maríu? María ræktaði sterka trú. Hún setti tilbeiðsluna á Guði ofar hversdagslegum málum. Hún var auðmjúk og sýndi Jesú heiður jafnvel þegar það kostaði hana mikil fjárútlát.

  María Magdalena

Hver var María Magdalena? Hún var trúfastur lærisveinn Jesú.

Hvað gerði hún? María Magdalena var ein af nokkrum konum sem ferðuðust með Jesú og lærisveinum hans. Hún var örlát og notaði eigin fjármuni til að sjá fyrir þörfum þeirra. (Lúkas 8:1–3) Hún fylgdi Jesú þangað til þjónustu hans lauk og hún hélt sig nálægt honum þegar hann var líflátinn. Hún var meðal þeirra fyrstu sem fengu að sjá Jesú eftir að hann var reistur upp til lífs. – Jóhannes 20:11–18.

Hvað getum við lært af frásögunni um Maríu? María Magdalena var örlát og studdi þjónustu Jesú fjárhagslega og var trúr lærisveinn.

  Mirjam

Hver var Mirjam? Hún var systir Móse og Arons. Hún er fyrsta konan í Biblíunni sem er kölluð spákona.

Hvað gerði hún? Sem spákona tók hún þátt í því að flytja boðskap Guðs. Hún naut virðingarstöðu í Ísrael og söng sigursöng með mönnunum eftir að Guð drekkti her Egypta við Rauðahafið. – 2. Mósebók 15:1, 20, 21.

Síðar gagnrýndu Mirjam og Aron Móse. Það sem lá að baki var greinilega stolt og afbrýðisemi. Jehóva heyrði þetta og ávítaði bæði Mirjam og Aron alvarlega. (4. Mósebók 12:1–9) Guð sló Mirjam holdsveiki, augljóslega vegna þess að hún átti frumkvæðið að þessari neikvæðu gagnrýni. Þegar Móse sárbændi Guð fyrir hennar hönd, læknaði Guð hana. Eftir sjö daga einangrun fékk hún að koma aftur í búðir Ísraelsmanna. – 4. Mósebók 12:10–15.

Samkvæmt frásögu Biblíunnar tók Mirjam leiðréttingunni. Öldum síðar vísaði Guð til þess mikla heiðurs sem hún naut þegar hann minnti Ísraelsmenn á að hann sendi „Móse, Aron og Mirjam til forystu“. – Míka 6:4.

Hvað getum við lært af frásögunni um Mirjam? Saga Mirjam sýnir að Guð fylgist með því hvað þjónar hans segja við eða um hvern annan. Við lærum líka að til að þóknast Guði verðum við að forðast óviðeigandi stolt og afbrýðisemi – eiginleika sem gætu fengið okkur til að eyðileggja mannorð annarra.

  Rakel

Hver var Rakel? Hún var dóttir Labans og uppáhalds eiginkona ættföðurins Jakobs.

Hvað gerði hún? Rakel giftist Jakobi og fæddi honum tvo syni sem voru meðal ættfeðra 12 ættkvísla Ísraels til forna. Rakel hitti tilvonandi eiginmann sinn þegar hún gætti hjarðar föður síns. (1. Mósebók 29:9, 10) Hún var „vel vaxin“ í samanburði við eldri systur sína, Leu. – 1. Mósebók 29:17.

Jakob var ástfanginn af Rakel og samþykkti að vinna í sjö ár til þess að fá að kvænast henni. (1. Mósebók 29:18) En Laban blekkti hann til að kvænast Leu fyrst en leyfði honum síðan að kvænast Rakel. – 1. Mósebók 29:25–27.

Jakob elskaði Rakel og syni hennar tvo meira en Leu og börnin sem hann eignaðist með henni. (1. Mósebók 37:3; 44:20, 27–29) Þetta leiddi til samkeppni milli kvennanna tveggja. – 1. Mósebók 29:30; 30:1, 15.

Hvað getum við lært af frásögunni um Rakel? Rakel gafst ekki upp þrátt fyrir erfiðar fjölskylduaðstæður og missti ekki vonina um að Guð myndi heyra bænir hennar. (1. Mósebók 30:22–24) Saga hennar sýnir hversu erfitt fjölkvæni reynist fjölskyldum. Reynsla Rakelar sýnir hversu mikil viska fellst í að fylgja upphaflegum staðli Guðs varðandi hjónaband – að maður hafi aðeins eina eiginkonu. – Matteus 19:4–6.

  Rahab

Hver var Rahab? Hún var vændiskona sem bjó í borginni Jeríkó í Kanaanslandi og varð tilbiðjandi Jehóva Guðs.

Hvað gerði hún? Rahab faldi tvo Ísraelsmenn sem njósnuðu um landið. Hún gerði það vegna þess að hún hafði heyrt um það hvernig Jehóva, Guð Ísraels, frelsaði fólk sitt frá Egyptalandi og síðar frá árás ættflokks sem kallaðist Amorítar.

Rahab hjálpaði njósnurunum og sárbændi þá um að þyrma sér og fjölskyldu sinni þegar Ísraelsmenn komu til að eyða Jeríkó. Þeir samþykktu það með ákveðnum skilyrðum: Hún myndi þegja um heimsókn þeirra og fjölskylda hennar átti að halda sig í húsi hennar þegar Ísraelsmenn myndu gera árás og hún átti að hengja purpurarauða snúru út úr glugganum sínum til að merkja heimili sitt. Rahab fylgdi öllum fyrirmælum og hún bjargaðist ásamt fjölskyldu sinni þegar Ísraelsmenn unnu Jeríkó.

Rahab giftist síðar Ísraelsmanni og varð formóðir bæði Davíðs konungs og Jesú Krists. – Jósúabók 2:1–24; 6:25; Matteus 1:5, 6, 16.

Hvað getum við lært af frásögunni um Rahab? Samkvæmt Biblíunni sýndi Rahab einstaka trú. (Hebreabréfið 11:30, 31; Jakobsbréfið 2:25) Saga hennar sýnir að Guð er bæði óhlutdrægur og fús að fyrirgefa. Hann blessar þá sem treysta á hann hvaða bakgrunn sem þeir hafa.

  Rebekka

Hver var Rebekka? Hún var eiginkona Ísaks og móðir tvíburanna Jakobs og Esaú.

Hvað gerði hún? Rebekka gerði vilja Guðs jafnvel þegar það var erfitt. Eitt sinn þegar hún jós vatni úr brunni bað maður hana um vatn að drekka. Rebekka var fljót að gefa honum að drekka og bauðst til að sækja vatn handa úlföldum hans. (1. Mósebók 24:15–20) Maðurinn var þjónn Abrahams og hafði komið um langan veg til að finna eiginkonu handa Ísaki syni Abrahams. (1. Mósebók 24:2–4) Hann hafði einnig beðið Guð um blessun hans. Þegar hann sá hvað Rebekka var dugleg og gestrisin skildi hann að Guð hafði svarað bæn sinni og sýnt að hún var konan sem hann hafði valið handa Ísaki. – 1. Mósebók 24:10–14, 21, 27.

Þegar Rebekka frétti hvers vegna þjónninn hafði komið samþykkti hún að fara með honum til baka og verða eiginkona Ísaks. (1. Mósebók 24:57–59) Rebekka eignaðist um síðir tvíbura. Guð hafði sagt fyrir að eldri drengurinn, Esaú, myndi þjóna þeim yngri, Jakobi. (1. Mósebók 25:23) Þegar Ísak ætlaði að gefa Esaú blessun frumburðarins greip Rebekka til sinna ráða til að Jakob fengi blessunina í samræmi við það sem hún vissi að væri vilji Guðs. – 1. Mósebók 27:1–17.

Hvað getum við lært af frásögunni um Rebekku? Rebekka var hógvær, dugleg og gestrisin – eiginleikar sem hjálpuðu henni sem eiginkonu, móður og tilbiðjanda hins sanna Guðs.

 • Þú getur lært meira um Rebekku í greininni „Ég vil fara“.

  Rut

Hver var Rut? Hún var Móabíti sem yfirgaf guði sína og heimaland til að verða tilbiðjandi Jehóva í Ísrael.

Hvað gerði hún? Rut sýndi tengdamóður sinni, Naomí, einstakan kærleika. Naomí hafði farið ásamt eiginmanni sínum og tveimur sonum til Móabslands vegna hungursneyðar í Ísrael. Synirnir kvæntust móabískum konum, Rut og Orpu. Með tímanum dó eiginmaður Naomí og tveir synir hennar og eftir stóðu þrjár ekkjur.

Naomí ákvað að snúa aftur til Ísrael þar sem hungursneyðin var liðin hjá. Rut og Orpa ákváðu að fylgja henni. En Naomí bað þær að snúa aftur til ættingja sinna. Orpa sneri aftur. (Rutarbók 1:1–6, 15) En Rut stóð trygg við hlið tengdamóður sinnar. Henni þótti vænt um Naomí og vildi tilbiðja Guð Naomí, Jehóva. – Rutarbók 1:16, 17; 2:11.

Rut var trygg tengdadóttir og dugleg að vinna og ávann sér fljótt gott mannorð í heimabæ Naomí, Betlehem. Ríkur landeigandi að nafni Bóas hreifst af Rut og sá til þess að hún og Naomí fengju nóg af korni. (Rutarbók 2:5–7, 20) Rut giftist síðar Bóasi og varð formóðir bæði Davíðs konungs og Jesú Krists. – Matteus 1:5, 6, 16.

Hvað getum við lært af frásögunni um Rut? Rut var fús að yfirgefa heimili sitt og fjölskyldu vegna kærleika síns til Naomí og Jehóva. Hún var dugleg, trú og trygg jafnvel þegar hún glímdi við erfiðleika.

  Sara

Hver var Sara? Hún var eiginkona Abrahams og móðir Ísaks.

Hvað gerði hún? Sara yfirgaf þægilegt líf í Úr, sem var auðug borg, vegna þess að hún trúði því sem Guð hafði lofað eiginmanni hennar, Abraham. Guð sagði Abraham að yfirgefa Úr og fara og búa í Kanaanslandi. Guð lofaði að blessa hann og gera hann að mikilli þjóð. (1. Mósebók 12:1–5) Sara hefur hugsanlega verið á sjötugsaldri á þeim tíma. Þaðan í frá voru Sara og eiginmaður hennar á ferðinni og bjuggu í tjöldum.

Þótt slíkt flökkulíf væri ekki hættulaust fyrir Söru studdi hún Abraham í að fylgja leiðsögn Guðs. (1. Mósebók 12:10, 15) Sara var barnlaus í mörg ár og það íþyngdi henni mjög. Samt hafði Guð lofað að blessa afkvæmi Abrahams. (1. Mósebók 12:7; 13:15; 15:18; 16:1, 2, 15) Með tímanum lofaði Guð að Sara myndi eignast barn Abrahams. Hún eignaðist barn þegar hún var löngu komin úr barneign. Hún var níræð og eiginmaður hennar hundrað ára. (1. Mósebók 17:17; 21:2–5) Þau nefndu barnið Ísak.

Hvað getum við lært af frásögunni um Söru? Við lærum af Söru að við getum alltaf treyst því að Guð standi við loforð sín, jafnvel þau sem virðast óhugsandi! (Hebreabréfið 11:11) Og fordæmi hennar sem eiginkona undirstrikar mikilvægi virðingar í hjónabandinu. – 1. Pétursbréf 3:5, 6.

  Stúlkan frá Súnem

Hver var stúlkan frá Súnem? Hún var falleg sveitastúlka og aðalpersóna biblíubókar sem er kölluð Ljóðaljóðin. Biblían greinir ekki frá nafni hennar.

Hvað gerði hún? Stúlkan frá Súnem var trygg fjárhirðinum sem hún elskaði. (Ljóðaljóðin 2:16) Einstök fegurð hennar vakti athygli hins ríka konungs Salómons sem reyndi að vinna ástir hennar. (Ljóðaljóðin 7:6) Þótt aðrir hvettu hana til að velja Salómon neitaði stúlkan frá Súnem. Hún elskaði óbreytta fjárhirðinn og var honum trygg. – Ljóðaljóðin 3:5; 7:10; 8:6.

Hvað getum við lært af frásögunni um stúlkuna frá Súnem? Hún var hógvær þótt hún væri falleg og fengi mikla athygli. Hún lét ekki þrýsting eða loforð um auð og frama trufla ást sína til fjárhirðisins. Hún hafði stjórn á tilfinningum sínum og var siðferðilega hrein.

  Kona Lots

Hver var kona Lots? Biblían segir ekki hvað hún hét. En við fáum að vita að hún átti tvær dætur og bjó ásamt fjölskyldu sinni í borginni Sódómu. – 1. Mósebók 19:1, 15.

Hvað gerði hún? Hún óhlýðnaðist boði Guðs. Guð hafði ákveðið að eyða Sódómu og nágrannaborgum hennar vegna þess að þar var iðkað gróft siðleysi. Guð elskaði Lot og fjölskyldu hans, sem bjuggu í Sódómu, og sendi tvo engla til að koma þeim í skjól. – 1. Mósebók 18:20; 19:1, 12, 13.

Englarnir sögðu fjölskyldu Lots að flýja svæðið og líta ekki til baka annars myndu þau deyja. (1. Mósebók 19:17) Kona Lots „leit um öxl og varð að saltstólpa“. – 1. Mósebók 19:26.

Hvað getum við lært af frásögunni um konu Lots? Saga hennar sýnir að maður getur elskað efnislega hluti svo mikið að maður óhlýðnist Guði. Jesús nefndi hana sem víti til varnaðar. „Munið eftir konu Lots,“ sagði hann. – Lúkas 17:32.

 Konur í Biblíunni – tímalína

 1.  Eva

 2. Flóðið (2370 f.Kr.)

 3.  Sara

 4.  Kona Lots

 5.  Rebekka

 6.  Lea

 7.  Rakel

 8. Brottförin úr Egyptalandi (1513 f.Kr.)

 9.  Mirjam

 10.  Rahab

 11.  Rut

 12.  Debóra

 13.  Jael

 14.  Dalíla

 15.  Hanna

 16. Fyrsti konungurinn í Ísrael (1117 f.Kr.)

 17.  Abígail

 18.  Stúlkan frá Súnem

 19.  Jesebel

 20.  Ester

 21.  María (móðir Jesú)

 22. Jesús skírist (29 e.Kr.)

 23.  Marta

 24.  María (systir Mörtu og Lasarusar)

 25.  María Magdalena

 26. Jesús deyr (33 e.Kr.)