Hoppa beint í efnið

Hvers vegna dó Jesús?

Hvers vegna dó Jesús?

Svar Biblíunnar

Jesús dó til þess að menn gætu fengið fyrirgefningu synda sinna og öðlast eilíft líf. (Rómverjabréfið 6:23; Efesusbréfið 1:7) Dauði Jesú sýndi líka að menn geta verið trúir Guði jafnvel andspænis erfiðustu prófraunum. – Hebreabréfið 4:15.

Hugleiddu hvernig dauði eins manns gat komið svo miklu til leiðar.

 1. Jesús dó til að við gætum fengið ,fyrirgefningu synda okkar.‘ – Kólossubréfið 1:14.

  Fyrsti maðurinn, Adam, var skapaður fullkominn, án syndar. Samt sem áður valdi hann að óhlýðnast Guði. Óhlýðni Adams, eða syndin, hafði djúpstæð áhrif á alla afkomendur hans. Biblían segir að ,allir hafi orðið syndarar vegna óhlýðni eins manns.‘ – Rómverjabréfið 5:19.

  Jesús var líka fullkominn en hann syndgaði aldrei. Þess vegna gat hann verið „friðþæging fyrir syndir okkar.“ (1. Jóhannesarbréf 2:2) Alveg eins og óhlýðni Adams mengaði mannkynið með synd afmáði dauði Jesú blett syndarinnar hjá öllum sem trúa á hann.

  Á vissan hátt seldi Adam mannkynið undir syndina. Með því að leggja líf sitt fúslega í sölurnar fyrir okkur endurkeypti Jesús mannkynið. Þess vegna höfum við „ef einhver syndgar, málsvara hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.“ – 1. Jóhannesarbréf 2:1.

 2. Jesús dó „til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ – Jóhannes 3:16.

  Þótt Adam hafi verið skapaður til þess að lifa að eilífu, hafði synd hans í för með sér þá refsingu sem dauðinn er. „Syndin kom inn í heiminn með einum manni,“ Adam, „og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ – Rómverjabréfið 5:12.

  Dauði Jesú fjarlægði hins vegar ekki aðeins skemmdina sem syndin hafði í för með sér heldur felldi líka niður dauðadóminn yfir öllum sem trúa á hann. Biblían dregur þetta saman og segir: „Eins og syndin ríkti með dauðanum á náðin að ríkja með réttlætinu og leiða til eilífs lífs í Jesú Kristi, Drottni vorum.“ –  Rómverjabréfið 5:21.

  Ævi manna er auðvitað ekki mjög löng eins og er. Guð lofaði samt sem áður að gefa réttlátum eilíft líf og dánum upprisu til þess að þeir gætu líka notið gagns af fórnardauða Jesú. – Sálmur 37:29; 1. Korintubréf 15:22.

 3. Jesús „varð hlýðinn allt til dauða,“ og sýndi þannig að menn gætu verið Guði trúir óháð því hvaða prófraunum og erfiðleikum þeir myndu mæta. – Filippíbréfið 2:7, 8.

  Þótt Adam hafi verið með fullkominn huga og líkama óhlýðnaðist hann Guði vegna þess að hann girntist eitthvað sem hann átti ekki. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:6) Síðar fullyrti erkióvinur Guðs, Satan, að enginn maður myndi hlýða Guði af óeigingjörnum hvötum, sérstaklega ef líf hans lægi við. (Jobsbók 2:4) Samt sem áður hlýddi hinn fullkomni maður, Jesús, Guði og var honum trúr, jafnvel þegar hann var tekinn af lífi með smánarlegum og kvalafullum hætti. (Hebreabréfið 7:26) Málið var útkljáð. Menn geta verið trúfastir Guði í hvaða prófraunum og erfiðleikum sem þeir verða fyrir.

Spurningar um dauða Jesú

 • Hvers vegna þurfti Jesús að þjást og deyja til að endurleysa mannkynið? Hvers vegna afturkallaði Guð ekki bara dauðadóminn?

  Lög Guðs segja ,að laun syndarinnar sé dauði.‘ (Rómverjabréfið 6:23) Frekar en að leyna þessum lögum fyrir Adam, sagði Guð honum að refsingin fyrir óhlýðni væri dauði. (1. Mósebók 3:3) Guð, „sem aldrei lýgur,“ stóð við orð sín þegar Adam syndgaði. (Títusarbréfið 1:2) Adam arfleiddi afkomendur sína ekki aðeins að syndinni heldur líka að afleiðingum hennar – dauðanum.

  Þótt syndugir menn verðskuldi dauðarefsingu, hefur Guð séð þeim fyrir ,endurlausninni og fyrirgefningu afbrota okkar‘ vegna þess að ,náð hans er auðug sem hann gaf okkur ríkulega.‘ (Efesusbréfið 1:7, 8) Ráðstöfun hans til að endurleysa mannkynið – senda Jesú sem fullkomna fórn – bar bæði vott um algert réttlæti og mikla miskunnsemi.

 • Hvenær dó Jesús?

  Jesús dó á ,níundu stundu‘ frá sólarupprás eða um klukkan þrjú eftir hádegi á páskahátíð Gyðinga. (Markús 15:33-37, neðanmáls) Sá dagur samsvarar föstudeginum 1. apríl árið 33 e.Kr. samkvæmt dagatölum nú á tímum.

 • Hvar dó Jesús?

  Jesús var tekinn af lífi á stað „sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.“ (Jóhannes 19:17, 18) Þessi staður var fyrir utan borgarhlið Jerúsalem á dögum Jesú. (Hebreabréfið 13:12) Hann gæti hafa verið á hæð vegna þess að Biblían segir að sumir hafi staðið álengdar og orðið vitni að aftökunni. (Markús 15:40) Ekki er vitað um núverandi staðsetningu Golgata með vissu.

 • Hvernig dó Jesús?

  Margir trúa því að Jesús hafi verið krossfestur – tekinn af lífi á krossi. Biblían segir hins vegar: „Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð.“ (1. Pétursbréf 2:24) Biblíuritararnir notuðu tvö grísk orð til að lýsa aftökutækinu sem notað var til að taka Jesús af lífi – stauros og xylon. Margir fræðimenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi orð lýsi lóðréttum bjálka, einum trjádrumbi.

 • Hvernig ætti að minnast dauða Jesú?

  Jesús innleiddi einfalda athöfn með fylgjendum sýnum kvöldið sem Gyðingar héldu páska og bauð þeim: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (1. Korintubréf 11:24) Nokkrum klukkustundum síðar var hann tekinn af lífi.

  Biblíuritararnir líktu Jesú við lamb sem var fórnað á páskum. (1. Korintubréf 5:7) Páskahátíðin minnti Ísraelsmenn á að þeim hafði verið bjargað úr þrældómi. Á sama hátt minnir minningarhátíðin um dauða Jesú Krists kristna menn á að þeir hafi verið leystir úr ánauð syndar og dauða. Páskarnir voru haldnir árlega 14. nísan samkvæmt tunglalmanakinu. Frumkristnir menn héldu líka minningarhátíðina einu sinni á ári.

  Þann 14. nísan ár hvert halda milljónir manna um allan heim minningarhátíð um dauða Jesú.