Hoppa beint í efnið

Hvernig leit Jesús út?

Hvernig leit Jesús út?

Svar Biblíunnar

Enginn veit nákvæmlega hvernig Jesús leit út þar sem því er ekki lýst í Biblíunni. Það bendir til þess að útlit hans skipti ekki miklu máli. Í Biblíunni er samt að finna vísbendingar um hvernig Jesús leit út.

  • Útlit: Jesús var Gyðingur og hefur eflaust erft algeng útlitseinkenni Semíta frá móður sinni. (Hebreabréfið 7:14) Það er ólíklegt að hann hafi haft mjög sérstakt útlit. Eitt sinn gat hann ferðast frá Galíleu til Jerúsalem án þess að fólk bæri kennsl á hann. (Jóhannes 7:10, 11) Hann virðist heldur ekki hafa skorið sig úr hópi lærisveina sinna. Ekki gleyma að Júdas Ískaríot kyssti Jesú til að vopnaði hópurinn sem ætlaði að handtaka hann vissi hver hann væri. – Matteus 26:47-49.

  • Hársídd: Það er ólíklegt að Jesús hafi verið með sítt hár, því að Biblían segir „ef karlmaður ber sítt hár, þá er það honum vansæmd“. – 1. Korintubréf 11:14.

  • Skegg: Jesús var með alskegg. Hann fylgdi lögum Gyðinga en samkvæmt þeim áttu karlmenn ekki að „skerða skeggrönd“ sína. (3. Mósebók 19:27, Biblían 1981; Galatabréfið 4:4) Auk þess er minnst á skegg Jesú í spádómi Biblíunnar um þjáningar hans. – Jesaja 50:6.

  • Líkami: Allt bendir til þess að Jesús hafi verið sterkbyggður. Þegar hann boðaði trúna ferðaðist hann vítt og breitt um landið. (Matteus 9:35) Hann hreinsaði musteri Gyðinga tvisvar, velti um borðum sölumannanna og rak húsdýrin út með svipu. (Lúkas 19:45, 46; Jóhannes 2:14, 15) Biblíuorðabókin McClintock and Strong’s Cyclopedia segir: „Frásagan í guðspjöllunum gefur til kynna að [Jesús] hafi verið hraustur og kraftmikill.“ 4. bindi, bls. 884.

  • Andlitssvipur: Jesús var hlýlegur og skilningsríkur. Það hefur vafalaust sést á svip hans. (Matteus 11:28, 29) Alls konar fólk leitaði til hans til að fá huggun og hjálp. (Lúkas 5:12, 13; 7:37, 38) Börnum leið jafnvel vel í návist hans. – Matteus 19:13-15; Markús 9:35-37.

Ranghugmyndir um útlit Jesú

Ranghugmynd: Sumir halda því fram að Jesús hljóti að hafa átt ættir að rekja til Afríku vegna þess að í Opinberunarbókinni er hári hans líkt við ull og fótunum við ,glóandi málm‘. – Opinberunarbókin 1:14, 15.

Staðreynd: Í Opinberunarbókinni er myndmál mikið notað. Það er notað í fyrsta kafla 14. versi til að lýsa hári og fótum Jesú sem tákna eiginleika hans eftir upprisuna en ekki líkamlegt útlit hans hér á jörð. Með orðunum „höfuð hans og hár var hvítt eins og hvít ull, eins og mjöll“ er verið að benda á litinn en ekki áferðina. Liturinn táknar visku sem fæst með aldrinum. (Opinberunarbókin 3:14) Í þessu versi er ekki verið að líkja áferðinni á hári Jesú við áferðina á ull, frekar en snjó.

Fætur Jesú litu út eins og „glóandi málmur í eldsofni“. (Opinberunarbókin 1:15) Auk þess skein andlit hans „sem sólin í mætti sínum“. (Opinberunarbókin 1:16) Þar sem engin kynþáttur hefur húðlit sem passar við þessa lýsingu, hlýtur þessi sýn að hafa táknræna merkingu og sýna að eftir upprisuna býr Jesús í „því ljósi sem enginn fær nálgast“. – 1. Tímóteusarbréf 6:16.

Ranghugmynd: Jesús var veikbyggður.

Staðreynd: Jesús var karlmannlegur í framgöngu. Hann sýndi hugrekki og gaf sig fram við vopnaðan hóp manna sem kom til að handtaka hann. (Jóhannes 18:4-8) Jesús hlýtur líka að hafa verið sterkbyggður þar sem hann var trésmiður og notaði handverkfæri. – Markús 6:3.

Hvers vegna þurfti Jesús þá hjálp við að bera aftökustaurinn? Hvers vegna dó hann á undan hinum sem voru teknir af lífi um leið og hann? (Lúkas 23:26; Jóhannes 19:31-33) Rétt áður en Jesús var tekinn af lífi var hann mjög illa á sig kominn líkamlega. Hann hafði vakað alla nóttina, meðal annars vegna tilfinningalegs álags. (Lúkas 22:42-44) Gyðingar misþyrmdu honum um nóttina og morguninn eftir pyntuðu Rómverjar hann. Þetta hefur áreiðanlega flýtt fyrir dauða hans.

Ranghugmynd: Jesús var alltaf alvörugefin og dapur.

Staðreynd: Jesús endurspeglaði fullkomlega eiginleika Jehóva, föður síns, sem Biblían kallar hinn ,sæla Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Jóhannes 14:9) Reyndar kenndi Jesús öðrum að vera glaðir. (Matteus 5:3-9; Lúkas 11:28) Þessar staðreyndir gefa til kynna að Jesús hafi oft verið glaðlegur á svipinn.