Hoppa beint í efnið

Hvernig er hægt að fá eilíft líf?

Hvernig er hægt að fá eilíft líf?

Svar Biblíunnar

 Biblían lofar: „Sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Hvers væntir Guð af þér?

  •   Lærðu um Guð og son hans Jesú. Jesús sagði í bæn til Guðs: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Hvað felst í því að þekkja Guð og Jesú? Við getum kynnst þeim ef við kynnum okkur efni Biblíunnar og förum eftir boðskap hennar í lífinu. a Biblían segir frá viðhorfum skapara okkar og lífgjafa, Jehóva Guði. (Postulasagan 17:24, 25) Biblían segir okkur líka frá syni hans, Jesú, sem kenndi „orð eilífs lífs“. – Jóhannes 6:67-69.

  •   Trúðu á lausnarfórn Jesú. Jesús kom til jarðar „til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds.“ (Matteus 20:28) Lausnarfórn hans gaf mönnum möguleika á eilífu lífi í paradís á jörð. b (Sálmur 37:29) Jesús sagði: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Við verðum að iðka trú á hann og velja að fara eftir því sem hann kenndi og vilja föður hans. – Matteus 7:21; Jakobsbréfið 2:17.

  •   Myndaðu sterkt vináttusamband við Guð. Guð vill að við nálgumst hann og verðum vinir hans. (Jakobsbréfið 2:23; 4:8) Guð er eilífur. Hann deyr aldrei og vill að vinir sínir lífi líka að eilífu. Guð lætur í ljós í orði sínu, Biblíunni, hvers hann óskar öllum sem leita hans: „Hjörtu yðar lifi að eilífu.“ – Sálmur 22:27.

Ranghugmyndir um eilíft líf

 Ranghugmynd: Mönnum mun takast að koma á eilífu lífi.

 Staðreynd: Þótt sumar framfarir á sviði læknavísinda gefi fyrirheit um hækkandi lífslíkur munu þessar tilraunir manna ekki hafa eilíft líf í för með sér. Guð einn getur veitt okkur eilíft líf, vegna þess að hann einn er „uppspretta lífsins“. (Sálmur 36:10) Hann lofar að „afmá dauðann að eilífu“ og veita öllum trúföstum mönnum eilíft líf. – Jesaja 25:8; 1. Jóhannesarbréf 2:25.

 Ranghugmynd: Aðeins fólk af sumum kynþáttum fær eilíft líf.

 Staðreynd: Guð fer ekki í manngreinarálit heldur tekur „opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Fólk af öllum þjóðum og ólíkum menningaruppruna sem hlýðir Guði getur fengið eilíft líf.

 Ranghugmynd: Eilíft líf verður leiðigjarnt.

 Staðreynd: Það er Guð sem býður okkur að lifa að eilífu, hann elskar okkur og vill að við séum hamingjusöm. (Jakobsbréfið 1:17; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann veit að við þurfum að sjá árangur af störfum okkar til að vera hamingjusöm. (Prédikarinn 3:12) Guð lofar að þeir sem fá eilíft líf á jörðu fái ánægjuleg og tilgangsrík verkefni sem verða þeim og ástvinum þeirra til gagns. – Jesaja 65:22, 23.

 Auk þess halda þeir sem lifa að eilífu áfram að læra eitthvað nýtt um skapara sinn og sköpunarverk hans. Hann áskapaði mönnunum löngun til að lifa að eilífu og til að fræðast um hann þó að ,maðurinn fái ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur‘. (Prédikarinn 3:10, 11) Þess vegna munu þeir sem fá eilíft líf alltaf hafa eitthvað að læra og gera sem er áhugavert.

a Vottar Jehóva bjóða upp á ókeypis biblíukennslu. Þú getur fengið nánari upplýsingar með því að skoða myndskeiðið Hvernig fer biblíunámskeið fram?

b Sjá greinina „Hvernig frelsar Jesús?