Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Vottar Jehóva

íslenska

Hvað merkir orðið himinn í Biblíunni?

Hvað merkir orðið himinn í Biblíunni?

Svar Biblíunnar

Orðið „himinn“ eða „himnar“ hefur þrjár grunnmerkingar í Biblíunni: (1) Bókstaflegir himnar; (2) andaheimurinn; og (3) tákn um hærri eða æðri stöðu. Samhengið hjálpar manni að skilja hvað það merkir í hverju tilfelli. *

 1. Bókstaflegir himnar. Í þessari merkingu standa „himnar“ fyrir lofthjúp jarðar, þar sem vindar blása, fuglar fljúga, skýin gefa regn og snjó og eldingar leiftra. (Sálmur 78:26; Orðskviðirnir 30:19; Jesaja 55:10; Lúkas 17:24) Orðið getur einnig þýtt víðáttur himingeimsins þar sem ,sólin, tunglið og stjörnurnar‘ eru. – 5. Mósebók 4:19; 1. Mósebók 1:1.

 2. Andaheimurinn. Orðið „himinn“ á einnig við um andaheiminn, tilverusvið sem er æðra og utan efnisheimsins. (1. Konungabók 8:27; Jóhannes 6:38) Jehóva Guð, sem „er andi“, býr á himnum ásamt englum sem eru andaverur og hann skapaði. (Jóhannes 4:24; Matteus 24:36) Stundum eru „himnarnir“ persónugerðir til að tákna trúfasta engla, ,söfnuð heilagra‘.– Sálmur 89:6-8.

  Í Biblíunni er orðið „himinn“ einnig notað um ákveðinn hluta andaheimsins, það er „bústað“ Jehóva. (1. Konungabók 8:43, 49; Hebreabréfið 9:24; Opinberunarbókin 13:6) Því var spáð í Biblíunni að Satan og djöflum hans yrði kastað af himnum og fengju ekki lengur að koma fram fyrir Jehóva. En þeir yrðu samt sem áður áfram í andaheiminum. – Opinberunarbókin 12:7-9, 12.

 3. Tákn um hærri eða æðri stöðu. Í Biblíunni er orðið „himinn“ notað til að gefa til kynna æðri stöðu, venjulega í sambandi við ríkjandi stjórn. Slík staða getur átt við:

  • Jehóva Guð sjálfan sem alvald alheims. – 2. Kroníkubók 32:20; Lúkas 15:21.

  • Guðsríki, stjórnina sem á eftir að taka við af stjórnum manna. Í Biblíunni er talað um þetta ríki sem „nýjan himin“. – Jesaja 65:17; 66:22; 2. Pétursbréf 3:13. *

  • Sannkristna menn hér á jörð sem eiga þá von að fara til himna. – Efesusbréfið 2:6.

  • Stjórnir manna sem upphefja sig yfir þegna sína. – Jesaja 14:12-14; Daníel 4:17-19; 2. Pétursbréf 3:7.

  • Vondar andaverur sem ríkja núna yfir heiminum. – Efesusbréfið 6:12; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

Hvernig er á himni?

Andaheimurinn iðar af lífi. Þar eru hundruð milljóna andavera sem ,framkvæma boð‘ Jehóva. – Sálmur 103:20, 21; Daníel 7:10.

Í Biblíunni er himninum lýst sem skínandi björtum. (1. Tímóteusarbréf 6:15, 16) Spámaðurinn Esekíel fékk himneska sýn sem var sveipuð ,skærum bjarma‘ en Daníel sá í sýn ,eld streyma‘ á himni.

(Esekíel 1:26-28; Daníel 7:9, 10) Himininn er heilagur, það er að segja hreinn og fagur. – Sálmur 96:6; Jesaja 63:15; Opinberunarbókin 4:2, 3.

Þegar maður les Biblíuna vekur það lotningu hvað himininn er stórbrotinn. (Esekíel 43:2, 3) Það er samt sem áður ógerlegt fyrir menn að skilja til fullnustu hvernig himininn er þar sem skilningarvit okkar eru of takmörkuð til að skilja andaheiminn.

^ gr. 3 Hebreska orðið sem er þýtt „himinn“ er myndað af stofni sem merkir „hár“ eða „háleitur“. (Orðskviðirnir 25:3) Sjá The New Brown, Driver, and Briggs Hebrew and English Lexicon of the Old Testament, bls. 1029.

^ gr. 9 Í biblíuorðabókinni Cyclopedia eftir McClintock og Strong segir að ,nýi himininn‘ í Jesajabók 65:17 merki „nýja stjórn, nýtt ríki“. – 4. bindi, bls. 122.

Meira

BIBLÍUSPURNINGAR

Hverjir fara til himna?

Það er algeng ranghugmynd að allt gott fólk fari til himna. Hvað kennir Biblían?

BIBLÍUSPURNINGAR

Hvað er helja eða helvíti? Er það staður eilífra þjáninga?

Þjást illir í brennandi víti? Eru það laun syndarinnar? Lestu hvernig Biblían svarar þessum spurningum.