Svar Biblíunnar

Páskar eru hátíð Gyðinga til að fagna frelsun Ísraelsmanna úr ánauð Egypta árið 1513 f.Kr. Guð bauð Ísraelsmönnum að minnast þessa mikilvæga atburðar á hverju ári 14. dag mánaðarins abíb eftir almanaki Gyðinga. Mánuðurinn var síðar nefndur nísan. – 2. Mósebók 12:42; 3. Mósebók 23:5.

Hvers vegna var hátíðin kölluð páskar?

Orðið „páskar“ kemur af orði sem merkir „framhjáganga“ og vísar til þess tíma þegar Guð þyrmdi Ísraelsmönnum þegar allir frumburðir í Egyptalandi voru teknir af lífi. (2. Mósebók 12:27; 13:15) Áður en Guð sendi þessa miklu plágu sagði hann Ísraelsmönnum að bera blóð af slátruðu lambi eða geit á dyrastafina. (2. Mósebók 12:21, 22) Guð myndi sjá táknið og „ganga framhjá“ heimilum þeirra og þyrma frumburðum þeirra. – 2. Mósebók 12:7, 13.

Hvernig voru páskar haldnir á biblíutímanum?

Guð gaf Ísraelsmönnum leiðbeiningar um hvernig þeir ættu að halda fyrstu páskahátíðina. * Í Biblíunni er ýmislegt nefnt sem tengist páskahátíðinni eins og eftirfarandi:

  • Fórn: Fjölskyldan valdi árs gamalt lamb (eða geit) á tíunda degi mánaðarins abíb (nísan) og á 14. degi var því slátrað. Á fyrstu páskahátíðinni báru Gyðingar hluta af blóðinu á dyrastafi og dyratré húsa sinna, steiktu dýrið í heilu lagi og borðuðu það. – 2. Mósebók 12:3-9.

  • Máltíðin: Á páskum borðuðu Ísraelsmenn ósýrt brauð og beiskar jurtir með lambinu (eða geitinni). – 2. Mósebók 12:8.

  • Hátíðin: Ísraelsmenn héldu hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga eftir páskahátíðina en þá borðuðu þeir ekkert sýrt brauð. – 2. Mósebók 12:17-20; 2. Kroníkubók 30:21.

  • Menntun: Á páskum fræddu foreldrar börnin sín um Jehóva. – 2. Mósebók 12:25-27.

  • Ferðalög: Síðar ferðuðust Ísraelsmenn til Jerúsalem til að halda páska. – 5. Mósebók 16:5-7; Lúkas 2:41.

  • Aðrir siðir: Þegar Jesús var á jörð var vín og söngur hluti af páskahátíðinni. – Matteus 26:19, 30; Lúkas 22:15-18.

Misskilningur varðandi páskahátíðina

Misskilningur: Ísraelsmenn borðuðu páskamáltíðina 15. nísan.

Staðreynd: Guð bauð Ísraelsmönnum að slátra lambi rétt fyrir sólsetur þann 14. nísan og borða það sama kvöld. (2. Mósebók 12:6, 8) Dagurinn hófst við sólsetur og stóð fram að næsta sólsetri. (3. Mósebók 23:32) Ísraelsmenn slátruðu lambinu og borðuðu það á páskahátíðinni við upphaf 14. nísan.

Misskilningur: Kristnir menn ættu að halda páskahátíðina.

Staðreynd: Eftir að Jesús hélt páska þann 14. nísan árið 33 innleiddi hann nýja hátíð, kvöldmáltíð Drottins. (Lúkas 22:19, 20; 1. Korintubréf 11:20) Þessi hátíð kom í stað páskahátíðarinnar því þá er fórnar Krists, ,páskalambs okkar‘, minnst. (1. Korintubréf 5:7) Lausnarfórn Jesú er meiri en fórn páskahátíðarinnar á þann hátt að hún frelsar alla frá þrælkun syndar og dauða. – Matteus 20:28; Hebreabréfið 9:15.

^ gr. 7 Þegar frá leið þurfti hins vegar að gera nokkrar breytingar. Ísraelsmenn þurftu til dæmis að halda fyrstu páskahátíðina í flýti því að þeir þurftu að vera tilbúnir að yfirgefa Egyptaland. (2. Mósebók 12:11) En þegar þeir voru komnir í fyrirheitna landið var ekki lengur þörf á því að halda hátíðina í flýti.