Hoppa beint í efnið

Hvað eru páskar?

Hvað eru páskar?

Svar Biblíunnar

Páskar eru hátíð Gyðinga til að fagna frelsun Ísraelsmanna úr ánauð Egypta árið 1513 f.Kr. Guð bauð Ísraelsmönnum að minnast þessa mikilvæga atburðar á hverju ári 14. dag mánaðarins abíb eftir almanaki Gyðinga. Mánuðurinn var síðar nefndur nísan. – 2. Mósebók 12:42; 3. Mósebók 23:5.

Hvers vegna var hátíðin kölluð páskar?

Orðið „páskar“ kemur af orði sem merkir „framhjáganga“ og vísar til þess tíma þegar Guð þyrmdi Ísraelsmönnum þegar allir frumburðir í Egyptalandi voru teknir af lífi. (2. Mósebók 12:27; 13:15) Áður en Guð sendi þessa miklu plágu sagði hann Ísraelsmönnum að bera blóð af slátruðu lambi eða geit á dyrastafina. (2. Mósebók 12:21, 22) Guð myndi sjá táknið og „ganga framhjá“ heimilum þeirra og þyrma frumburðum þeirra. – 2. Mósebók 12:7, 13.

Hvernig voru páskar haldnir á biblíutímanum?

Guð gaf Ísraelsmönnum leiðbeiningar um hvernig þeir ættu að halda fyrstu páskahátíðina. * Í Biblíunni er ýmislegt nefnt sem tengist páskahátíðinni eins og eftirfarandi:

  • Fórn: Fjölskyldan valdi árs gamalt lamb (eða geit) á tíunda degi mánaðarins abíb (nísan) og á 14. degi var því slátrað. Á fyrstu páskahátíðinni báru Gyðingar hluta af blóðinu á dyrastafi og dyratré húsa sinna, steiktu dýrið í heilu lagi og borðuðu það. – 2. Mósebók 12:3-9.

  • Máltíðin: Á páskum borðuðu Ísraelsmenn ósýrt brauð og beiskar jurtir með lambinu (eða geitinni). – 2. Mósebók 12:8.

  • Hátíðin: Ísraelsmenn héldu hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga eftir páskahátíðina en þá borðuðu þeir ekkert sýrt brauð. – 2. Mósebók 12:17-20; 2. Kroníkubók 30:21.

  • Menntun: Á páskum fræddu foreldrar börnin sín um Jehóva. – 2. Mósebók 12:25-27.

  • Ferðalög: Síðar ferðuðust Ísraelsmenn til Jerúsalem til að halda páska. – 5. Mósebók 16:5-7; Lúkas 2:41.

  • Aðrir siðir: Þegar Jesús var á jörð var vín og söngur hluti af páskahátíðinni. – Matteus 26:19, 30; Lúkas 22:15-18.

Misskilningur varðandi páskahátíðina

Misskilningur: Ísraelsmenn borðuðu páskamáltíðina 15. nísan.

Staðreynd: Guð bauð Ísraelsmönnum að slátra lambi rétt fyrir sólsetur þann 14. nísan og borða það sama kvöld. (2. Mósebók 12:6, 8) Dagurinn hófst við sólsetur og stóð fram að næsta sólsetri. (3. Mósebók 23:32) Ísraelsmenn slátruðu lambinu og borðuðu það á páskahátíðinni við upphaf 14. nísan.

Misskilningur: Kristnir menn ættu að halda páskahátíðina.

Staðreynd: Eftir að Jesús hélt páska þann 14. nísan árið 33 innleiddi hann nýja hátíð, kvöldmáltíð Drottins. (Lúkas 22:19, 20; 1. Korintubréf 11:20) Þessi hátíð kom í stað páskahátíðarinnar því þá er fórnar Krists, ,páskalambs okkar‘, minnst. (1. Korintubréf 5:7) Lausnarfórn Jesú er meiri en fórn páskahátíðarinnar á þann hátt að hún frelsar alla frá þrælkun syndar og dauða. – Matteus 20:28; Hebreabréfið 9:15.

^ gr. 3 Þegar frá leið þurfti hins vegar að gera nokkrar breytingar. Ísraelsmenn þurftu til dæmis að halda fyrstu páskahátíðina í flýti því að þeir þurftu að vera tilbúnir að yfirgefa Egyptaland. (2. Mósebók 12:11) En þegar þeir voru komnir í fyrirheitna landið var ekki lengur þörf á því að halda hátíðina í flýti.