Hoppa beint í efnið

Er Guð alls staðar?

Er Guð alls staðar?

Svar Biblíunnar

 Guð getur séð allt og gert hvað sem hann vill, alls staðar. (Orðskviðirnir 15:3; Hebreabréfið 4:13) En Biblían kennir ekki að Guð sé alls staðar og í öllu. Hún segir að Guð sé persóna og að hann búi á ákveðnum stað.

  •   Mynd Guðs: Guð er andavera. (Jóhannes 4:24) Menn geta ekki séð hann. (Jóhannes 1:18) Af frásögum Biblíunnar, þar sem menn sáu Guð í sýn, er augljóst að hann á sér ákveðinn tilverustað. Honum er hvergi lýst þannig að hann sé alls staðar. – Jesaja 6:1, 2; Opinberunarbókin 4:2, 3, 8.

  •   Bústaður Guðs: Guð býr á andlegu tilverusviði sem er ólíkt efnisheiminum. Á því tilverusviði, það er að segja „í himninum“, er bústaður Guðs. (1. Konungabók 8:30) Í Biblíunni er sagt frá því að andaverur „komu og gengu fyrir Drottin“. Það sýnir að Jehóva a býr í vissum skilningi á ákveðnum stað. – Jobsbók 1:6.

Getur Guð hjálpað mér persónulega ef hann er ekki alls staðar?

 Já. Guð lætur sér innilega annt um einstaklinga. Þó að hann búi á andlega tilverusviðinu tekur hann eftir þeim mönnum sem vilja í einlægni þóknast honum og hann hjálpar þeim. (1. Konungabók 8:39; 2. Kroníkubók 16:9) Hugleiddu hvernig Jehóva Guð hjálpar trúum þjónum sínum:

  •   Þegar þú biður: Jehóva getur heyrt bænir þínar áður en þú sleppir orðinu. – 2. Kroníkubók 18:31.

  •   Þegar þú ert niðurdreginn: „Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ – Sálmur 34:19.

  •   Þegar þú þarfnast leiðsagnar: Með orði sínu, Biblíunni, vill Jehóva „fræða þig, vísa þér veginn“. – Sálmur 32:8.

 Ranghugmyndir um nálægð Guðs

 Ranghugmynd: Guð er alls staðar í sköpunarverkinu.

 Staðreynd: Guð býr hvorki á jörðinni né annars staðar í efnisheiminum. (1. Konungabók 8:27) Sköpunarverk hans, svo sem stjörnur himinsins, „segja frá Guðs dýrð“. (Sálmur 19:2) En Guð býr ekki í sköpunarverki sínu, ekki frekar en listmálari býr í málverkum sínum. Málverk getur þó sagt okkur ýmislegt um listamanninn. Efnisheimurinn segir okkur líka margt um eiginleika skaparans eins og mátt hans, visku og kærleika. – Rómverjabréfið 1:20.

 Ranghugmynd: Ef Guð er almáttugur og veit allt hlýtur hann að vera alls staðar.

 Staðreynd: Heilagur andi er starfskraftur Guðs. Með heilögum anda sínum getur Guð gert og vitað hvað sem er – hvar og hvenær sem er – án þess að hann þurfi að vera á staðnum í eigin persónu. – Sálmur 139:7.

 Ranghugmynd: Sálmur 139:8 segir að Guð sé alls staðar: „Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.“

 Staðreynd: Þetta vers fjallar ekki um hvar Guð sé heldur er á ljóðrænan hátt verið að benda á að enginn staður sé svo fjarlægur að Guð nái ekki þangað til að hjálpa okkur.

a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.