Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um frjálsan vilja? Stjórnar Guð örlögum þínum?

Hvað segir Biblían um frjálsan vilja? Stjórnar Guð örlögum þínum?

Svar Biblíunnar

 Guð hefur veitt okkur þann heiður að gefa okkur frjálsan vilja, vald til að taka okkar eigin ákvarðanir í stað þess að hann eða örlögin ákveði fyrir fram hvað við gerum. Lítum á það sem Biblían kennir.

  •   Guð skapaði mennina eftir sinni mynd. (1. Mósebók 1:26) Ólíkt dýrunum, sem fylgja aðallega eðlishvöt, líkjumst við skapara okkar þar sem við höfum hæfileika til að sýna eiginleika eins og kærleika og réttlæti. Og við höfum frjálsan vilja eins og skapari okkar.

  •   Við getum að miklu leyti sjálf ákveðið framtíð okkar. Í Biblíunni segir: „Veldu þá lífið ... með því að ... hlýða boði [Guðs].“ (5. Mósebók 30:19, 20) Þetta boð væri merkingarlaust, jafnvel miskunnarlaust, ef við hefðum ekki frjálsan vilja. Í stað þess að þvinga okkur til að gera það sem hann segir þá höfðar hann hlýlega til okkar: „Aðeins ef þú hefðir gefið gaum að boðum mínum væri hamingja þín sem fljót og réttlæti þitt eins og öldur hafsins.“ – Jesaja 48:18.

  •   Velgengni okkar eða mistök ákvarðast ekki af örlögum. Ef við viljum að okkur gangi eitthvað vel þá verðum við að leggja hart að okkur. Biblían segir: „Allt sem hönd þín megnar að gera með kröftum þínum, gerðu það.“ (Prédikarinn 9:10) Hún segir líka: „Áform hins iðjusama færa arð.“ – Orðskviðirnir 21:5.

 Frjáls vilji er dýrmæt gjöf frá Guði og vegna hennar getum við elskað Guð „af öllu hjarta“ – af því að okkur langar til þess. – Matteus 22:37.

Stjórnar Guð ekki öllu?

 Biblían kennir að Guð sé almáttugur, að vald hans takmarkist ekki við neinn nema hann sjálfan. (Jobsbók 37:23; Jesaja 40:26) Hins vegar notar hann ekki vald sitt til að stjórna öllu. Biblían segir til dæmis að Guð hafi ,stillt sig‘ gagnvart íbúum Babýlonar til forna sem voru óvinaþjóð fólks hans. (Jesaja 42:14, Biblían 1981) Á svipaðan hátt kýs hann nú að umbera þá sem misnota frjálsan vilja sinn til að gera öðrum illt. En Guð mun ekki umbera það endalaust. – Sálmur 37:10, 11.