Hoppa beint í efnið

Hvernig geta foreldrar frætt börnin um kynferðismál?

Hvernig geta foreldrar frætt börnin um kynferðismál?

Svar Biblíunnar

Hverjir eiga að fræða börnin um kynferðismál? Biblían felur foreldrum þetta ábyrgðarhlutverk. Margir foreldrar hafa haft gagn af eftirfarandi tillögum:

  • Ekki fara hjá þér. Biblían fjallar hispurslaust um kynferðismál og kynfæri. Guð sagði Ísraelsþjóðinni að fræða börnin um þessi mál. (5. Mósebók 31:12; 3. Mósebók 15:2, 16-19) Notaðu virðuleg orð sem bera ekki með sér að kynferðismál eða kynfæri séu eitthvað sem á að skammast sín fyrir.

  • Kenndu smátt og smátt. Í stað þess að halda einu sinni langa ræðu um kynferðismál, þegar barnið fer að nálgast kynþroskaskeiðið, skaltu fræða það smátt og smátt eftir því sem þroski þess leyfir. – 1. Korintubréf 13:11.

  • Kenndu góð siðferðisgildi. Sundum sjá skólar um kynfræðslu fyrir börn. En Biblían hvetur foreldra til að fræða börnin um líkamlega hlið kynferðismálanna og líka um hvenær kynlíf sé við hæfi og hvenær ekki. – Orðskviðirnir 5:1-23.

  • Hlustaðu á barnið þitt. Ekki bregðast illa við eða flýta þér að draga ályktanir ef barnið spyr þig um kynferðismál. Í stað þess skaltu vera „fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði“. – Jakobsbréfið 1:19.

Hvernig getur þú verndað börnin þín gegn barnaníðingum?

Kenndu barninu þínu að veita mótspyrnu ef barnaníðingur leitar á það.

  • Aflaðu þér þekkingar. Kynntu þér dæmigerða aðferð barnaníðinga. – Orðskviðirnir 18:15; sjá Vaknið! 2007 10 bls. 4-8.

  • Taktu virkan þátt í lífi barnsins. Láttu barnið ekki í umsjón einhvers án þess að kynna þér vel hvort viðkomandi sé áreiðanlegur, og gefðu barninu ekki of lausan tauminn. – Orðskviðirnir 29:15.

  • Hjálpaðu börnunum að sjá hlýðni í réttu ljósi. Börn þurfa að læra að hlýða foreldrum sínum. (Kólossubréfið 3:20) En ef þú kennir barninu þínu að hlýða alltaf öllum fullorðnum gerirðu barnið berskjaldað gagnvart kynferðislegri misnotkun. Kristnir foreldrar geta til dæmis sagt við barnið sitt: „Ef einhver segir þér að gera eitthvað sem Guð segir að sé rangt, skaltu ekki gera það.“ – Postulasagan 5:29.

  • Æfðu rétt viðbrögð. Kenndu barninu þínu á einfaldan hátt hvað það eigi að gera ef einhver reynir að leita á það þegar þú ert ekki nærri. Með því að æfa stuttlega rétt viðbrögð getur barnið öðlast hugrekki til að segja: „Hættu þessu! Ég segi frá!“ Og það fær líka hugrekki til að forða sér eins fljótt og það getur. Þú þarft eflaust að minna barnið á þetta aftur og aftur því börn eru fljót að gleyma. – 5. Mósebók 6:7.