Hoppa beint í efnið

Hver er erkiengillinn Míkael?

Hver er erkiengillinn Míkael?

Svar Biblíunnar

Míkael, sem í sumum trúarbrögðum er nefndur „sankti Míkael“, er greinilega nafn sem Jesús fékk áður en hann var maður á jörðinni og eftir þann tíma. * Míkael átti í orðadeilu við Satan eftir dauða Móse og kom engli til hjálpar við að flytja Daníel boð frá Guði. (Daníel 10:13, 21; Júdasarbréfið 9) Míkael lifir í samræmi við merkingu nafns síns – „Hver er Guði líkur?“ – með því að standa vörð um drottinvald Guðs og berjast gegn óvinum hans. – Daníel 12:1; Opinberunarbókin 12:7.

Skoðum hvers vegna það er skynsamlegt að álykta að Jesús sé erkiengillinn Míkael.

  • Míkael er „höfuðengillinn“. (Júdasarbréfið 9) Titillinn ,höfuðengill‘ og ,erkiengill‘ koma aðeins tvisvar sinnum fyrir í Biblíunni. Í bæði skiptin eru orðin í eintölu og gefa til kynna að aðeins einn engill beri þessa titla. Annað versið skýrir frá því að hinn upprisni Drottinn Jesús ,muni sjálfur stíga niður af himni þegar raust erkiengilsins kveður við‘. (1. Þessaloníkubréf 4:16) Jesús hefur ,raust erkiengilsins‘ vegna þess að hann er erkiengillinn, Míkael.

  • Míkael ræður yfir hersveit engla. „Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann,“ sem er Satan. (Opinberunarbókin 12:7) Míkael hefur mikil völd í andaheiminum. Hann er „fremstur höfðingjanna“ og „leiðtoginn mikli“. (Daníel 10:13, 21; 12:1) Þessir titlar þýða að Míkael er „yfirforingi englahersveitanna,“ eins og Nýjatestamentisfræðingurinn David E. Aune orðar það.

    Í Biblíunni er aðeins minnst á eitt annað nafn sem sá ber er hefur völd yfir englahersveitum. Biblían lýsir því „þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með máttugum englum sínum. Hann kemur í logandi eldi og hegnir“. (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8; Matteus 16:27) Jesús „steig upp til himna ... og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.“ (1. Pétursbréf 3:21, 22) Það er ekki rökrétt að Guð stilli Jesú og Míkael saman sem keppinautum yfir heilögum englum. Það er rökréttara að álykta að bæði nöfnin, Jesús og Míkael, eigi við um sömu persónuna.

  • Míkael „mun birtast“ og það verða fordæmalausir „hörmungatímar“. (Daníel 12:1) Í Daníelsbók eru orðin ,munu birtast‘ í hebreska frumtextanum oft notuð um konunga sem láta til sín taka í sérstakri aðgerð. (Daníel 11:2-4, 21) Jesús Kristur, líka nefndur „Orðið Guðs,“ lætur til sín taka sem „Konungur konunga“ til að fella alla óvini Guðs og vernda fólk Guðs. (Opinberunarbókin 19:11-16) Hann gerir það þegar ,mikil þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa‘ hefst.– Matteus 24:21, 42.

^ gr. 1 Í Biblíunni eru aðrir nefndir mismunandi nöfnum eins og Jakob (einnig nefndur Ísrael), Pétur (einnig nefndur Símon) og Taddeus (einnig nefndur Júdas). – 1. Mósebók 49:1, 2; Matteus 10:2, 3; Markús 3:18; Postulasagan 1:13.