Hoppa beint í efnið

Biblían breytir lífi fólks

„Ég var skapbráður“

„Ég var skapbráður“
  • Fæðingarár: 1975

  • Föðurland: Spánn

  • Forsaga: Ofsafenginn í skapi og sat í fangelsi

FORTÍÐ MÍN

Ég fæddist í San Juan Chancalaito, litlum bæ í Chiapas-héraði í Mexíkó. Fjölskyldan mín tilheyrir Chol ættflokknum sem á ættir að rekja til Maya. Foreldrar mínir eignuðust 12 börn. Ég var fimmti í röðinni. Þegar ég var strákur komu vottar Jehóva og lásu í Biblíunni með okkur systkinunum. Því miður tileinkaði ég mér ekki ráð Biblíunnar þegar ég var ungur.

Þegar ég var 13 ára var ég farinn að neyta vímuefna og stela frá fólki. Þá fór ég líka að heiman og flæktist stað úr stað. Ég fékk vinnu á marijúana akri þegar ég var 16 ára. Þar vann ég í um það bil eitt ár. Kvöld eitt vorum við að flytja stóra sendingu af marijúana á báti þegar vel vopnum búnir menn frá öðrum eiturlyfjahring réðust á okkur. Ég slapp undan skothríðinni með því að stinga mér út í ánna og komst á land töluvert neðar í ánni. Eftir þetta flúði ég til Bandaríkjanna.

Í Bandaríkjunum hélt ég áfram að selja fíkniefni og lenti í meiri vandræðum. Þegar ég var 19 ára var ég handtekinn og dæmdur í fangelsi fyrir rán og tilraun til manndráps. Í fangelsinu gekk ég til liðs við gengi og ofbeldið hélt áfram. Það varð til þess að yfirvöld létu flytja mig í öryggisfangelsi í Lewisburg í Pennsylvaníu.

Ég hafði hegðað mér illa og í fangelsinu í Lewisburg hegðaði ég mér enn verr. Þar sem ég var með húðflúr ákveðins gengis átti ég auðvelt með að komast í sama gengi í þessu fangelsi. Ég varð jafnvel enn ofbeldisfyllri og lenti í hverjum slagsmálunum á fætur öðrum. Eitt sinn tók ég þátt í bardaga milli gengja í fangelsisgarðinum. Við börðumst grimmilega og notuðum til þess hafnarboltakylfur og lyftingarlóð. Fangaverðirnir beittu táragasi til að stöðva bardagann. Eftir þetta var ég fluttur á sérstaka deild í fangelsinu fyrir hættulega fanga. Ég var ofsafenginn í skapi og ruddalegur í tali. Ég átti ekki í neinum vandræðum með að berja fólk. Ég naut þess meira að segja. Ég fann ekki til nokkurrar iðrunar vegna hegðunar minnar.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

Á þessari sérstöku deild, innilokaður í klefanum mestan hluta dagsins, fór ég að lesa í Biblíunni til að drepa tímann. Seinna gaf fangavörður mér eintak af bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. * Þegar ég las þessa biblíunámsbók rifjaðist upp fyrir mér margt af því sem ég hafði lært sem barn þegar vottarnir lásu Biblíuna með mér. Upp frá því fór ég að velta fyrir mér hversu djúpt ég var sokkinn vegna ofbeldishneigðar minnar. Ég hugsaði líka til fjölskyldunnar. Þar sem tvær af systrum mínum höfðu gerst vottar Jehóva gerði ég mér ljóst að þær ættu eftir að lifa að eilífu. Þá spurði ég sjálfan mig: „Af hverju ekki ég?“ Það var þá sem ég einsetti mér að gera breytingar.

En ég vissi að ég þyrfti hjálp til að geta breytt mér. Fyrst bað ég til Jehóva Guðs og grátbað hann um hjálp. Því næst skrifaði ég deildarskrifstofu Votta Jehóva í Bandaríkjunum og bað um biblíunámskeið. Deildarskrifstofan setti mig í samband við söfnuð í nágrenninu. Á þessum tíma hafði ég ekki leyfi til að fá aðra gesti en fjölskylduna þannig að vottur í söfnuðinum í nágrenninu fór að skrifa mér uppörvandi bréf og senda mér biblíutengd rit. Þetta gerði að verkum að mig langaði enn frekar til að breyta mér.

Það var mikil framför þegar ég ákvað að yfirgefa gengið sem ég hafði tilheyrt í mörg ár. Forsprakkinn var líka á þessari sömu deild þannig að ég sagði honum þegar við hittumst að ég ætlaði að verða vottur Jehóva. Mér til undrunar sagði hann: „Ef þér er alvara, skaltu gera það. Ég skipti mér ekki af Guði. En ef þú ætlar bara að yfirgefa gengið veistu hverjar afleiðingarnar verða.“

Næstu tvö árin tók starfsfólk fangelsisins eftir því hvernig ég breyttist. Það varð til þess að það sýndi mér meiri tillitssemi. Til dæmis hættu fangaverðirnir að handjárna mig þegar þeir fylgdu mér úr fangaklefanum til að fara í bað. Einn þeirra kom jafnvel til mín og hvatti mig til að halda áfram á þessari braut. Fangelsisyfirvöld fluttu mig meira að segja í fangelsi nálægt aðal fangelsinu þar sem var lítil öryggisgæsla, síðasta árið sem ég afplánaði. Eftir að hafa setið í fangelsi í tíu ár var ég leystur úr haldi árið 2004, vísað úr landi og sendur með fangelsisrútu til Mexíkó.

Fljótlega eftir að ég kom til Mexíkó fann ég ríkissal Votta Jehóva. Ég mætti á fyrstu samkomuna í fangafötunum, einu almennilegu fötunum sem ég átti. Þrátt fyrir það tóku vottarnir hlýlega á móti mér. Þegar ég fann góðvild þeirra fannst mér ég vera meðal sannkristinna manna. (Jóhannes 13:35) Á samkomunni sáu öldungar safnaðarins til þess að ég fengi biblíunámskeið. Ég skírðist sem vottur Jehóva ári síðar, 3. september 2005.

Í janúar 2007 byrjaði ég að að fræða fólk um Biblíuna í fullu starfi, 70 klukkutíma á mánuði. Árið 2011 útskrifaðist ég úr Biblíuskólanum fyrir einhleypa bræður (nú kallaður Skólinn fyrir boðbera Guðsríkis). Þessi skóli hjálpaði mér mikið til að axla ábyrgð mína í söfnuðinum.

Núna nýt ég þess að kenna öðrum að vera friðsamir.

Árið 2013 kvæntist ég Pilar, elskulegri eiginkonu minni. Hún segir stríðnislega að hún eigi erfitt með að trúa því sem ég segi henni um fortíð mína. Ég hef aldrei fallið aftur í gamla farið. Við hjónin segjum að ég sé lifandi sönnun þess að Biblían býr yfir krafti til að hjálpa fólki að umbreytast. – Rómverjabréfið 12:2.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

Mér finnst orð Jesú í Lúkasi 19:10 eiga við mig. Þar segist hann vera „kominn að leita að hinu týnda“. Mér finnst ég ekki lengur vera týndur. Og ég geng ekki lengur um berjandi fólk. Það er Biblíunni að þakka að líf mitt hefur öðlast göfugan tilgang, að eiga friðsamleg samskipti við aðra og það sem mestu máli skiptir, gott samband við skapara minn, Jehóva.

[NEÐANMÁLS]

^ gr. 13 Þessi bók var gefin út af Vottum Jehóva en er ekki lengur fáanleg. Núna er bókin Hvað kennir Biblían? aðal biblíunámsbók þeirra.